11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

127. mál, sala Útskála og Brekku

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Landbn. hefur nú athugað þetta mál nokkuð. Hún sendi það Landnáminu, kirkjumrn. og sóknarprestinum á Útskálum til umsagnar. Umsagnirnar voru á þá leið, að Landnámið mælti með sölunni, en sóknarpresturinn á Útskálum og kirkjumrn. óskuðu eftir því, ef sala yrði leyfð á Útskálum, að undanskilja heimatún staðarins.

Í ljós kom, þegar var farið að athuga þetta mál, að í landi Útskála eru mörg býli, sem voru kölluð í gamla daga þurrabúðir og hjáleigur, og sum þeirra munu vera með samninga og e.t.v. önnur ekki.

N. samþ. að mæla með sölunni, en vill þó taka fram, að þess sé mjög gætt, að þeir, sem búa á þessum hjáleigum, þurrabúðar jörðum, haldi þeim rétti, sem þeir hafa haft, þrátt fyrir eigendaskiptin.