11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3366 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Þótt fram hafi komið 3 nál., er ágreiningurinn í n. kannske ekki mjög stórvægilegur, en þó nokkur. Eins og ljóst er, eru tvö meginatriði í þessu frv. Það er í fyrsta lagi, að hámarkslánin hækka úr 600 þús. kr. í allt að 800 þús. kr. á hverja íbúð. Í öðru lagi er heimildin í 2. mgr. 1. gr. til að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og nemi lánin allt að 80% af byggingarkostnaði, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Allir nm. eru sammála um þá nauðsyn að hækka lánin til íbúðabygginga. Hins vegar þótti okkur í báðum minni hl. aðfinnsluvert, að ekki skuli gerð grein fyrir væntanlegri fjáröflun. Við höfum fengið umsagnir frá Húsnæðismálastofnun ríkisins eða öllu heldur þremur hlutum hennar, og að þessu er einnig fundið hjá einstökum meðlimum í húsnæðismálastjórn. Segir svo í umsögn Hannesar Pálssonar: „Miðað við væntanlegan byggingarkostnað árið 1973 teljum vér, að hámarkslán til íhúðabygginga á árinu 1973 megi ekki vera lægri en 900 þús. kr. á hverja íbúð. Sú upphæð mun aldrei verða meira en rúm 30% af kostnaðarverði meðal íbúðar, eins og það mun reynast árið 1973.“ Hann bendir einnig á, að ef ekki verði staðið að aukinni fjáröflun, verði allar samþykktir um hækkun lána sýndarmennskan ein og muni koma að takmörkuðu gagni.

Við í minni hl. félmn. leggjum ekki til hækkun umfram þessi 800 þús. vegna þess, að okkur hefur ekki gefizt sá tími, sem þarf, til þess að rökstyðja og koma með till. um, hvernig þessa fjár verði aflað. Eins og ég sagði áðan, teljum við aðfinnsluvert, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki þegar hafa sýnt fram á, hvernig fjár verði aflað til þess að fullnægja lánaþörfinni. Það kemur fram í skjali, sem Húsnæðismálastofnunin hefur látið n. í té, hver fjárþörfin er á árinu 1973. Þar er talið, að vanti samtals 555 millj. kr. Ef veita eigi jafnmörg lán og veitt voru í fyrra til nýrra íbúða, þ.e. 1.500 íbúða, þá er ekki gert ráð fyrir nýjum lánum í áætluninni umfram frumlán til þeirra u.þ.b. 400 íbúða, sem fokheldar urðu fyrir 1. jan. s.l., en sú upphæð mun nema um 136 millj. kr., og þessi viðbótarlán ætti að veita fyrir næstu áramót. Hinn 20. marz s.l. voru lánshæfar umsóknir hjá stofnuninni 1.032, en óafgreiddar umsóknir 1.442 eða samtals 2.474 umsóknir. Þarna er ekki heldur reiknað með nýju fjármagni í ný framkvæmdalán til verkamannabústaða og annarra aðila, sem eiga rétt til slíkra lána. Húsnæðismálastjórn telur óvarlegt að ætla minna en u.þ.b. 150 millj. kr. til þessara lána.

Varðandi 2. mgr. 1. gr. frv. vil ég segja örfá orð .og gera grein fyrir þeirri brtt., sem við hv. þm. Gunnar Thoroddsen flytjum á þskj. 626. Í frv. er gert ráð fyrir, að þeirra lánakjara, sem þar um ræðir, geti eingöngu sveitarfélög notið. Við leggjum til, að fyrri málsliður 2. mgr., orðist svo:

„Heimilt er að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, félaga, fyrirtækja eða einstaklinga, er nemi allt að 80% af byggingarkostnaði, enda hafi hlutaðeigandi byggingaraðili ekki byggt íbúðir samkv. 1. gr. l. nr. 97 22. des. 1965 og íbúar viðkomandi sveitarfélags ekki átt kost á íbúðum, sem þar um ræðir.

Við sjáum ekki ástæðu til að binda þetta í lögum, hér sé eingöngu um að ræða þetta hagræði, ef sveitarfélögin sjálf standa að byggingarframkvæmdum. Það er vitað, að ýmsir aðilar hafa óskað eftir að verða aðnjótandi þessara kjara, og þar er einkum um að ræða aðila, sem standa í atvinnurekstri víða um land. Við bendum einnig á, að ákvæði 2. mgr. 1. gr., eins og það er í frv., eru ekki í samræmi við þál., sem samþ. var á Alþ. 18. maí 1972. Í 2. lið þeirrar þál. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: Ríkisstj. er falið „að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga og annarra þeirra aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir, þannig að þeim sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess er þörf. Skal þess gætt, að þessi sérstaka fjármagnsútvegun dragi ekki úr öflun lánsfjár til byggingar eigin íbúðarhúsnæðis.“ Við leggjum áherzlu á, að greinin verði ekki einskorðuð við það, að sveitarfélögin standi í þessum framkvæmdum.

Eins og ég sagði, hefur það oft komið fram hjá ýmsum aðilum, einkum atvinnurekendum úti um land og ekki sízt í sjávarútvegi, að þeir telja sig þurfa nauðsynlega að hafa aðstöðu til að byggja leiguhúsnæði fyrir starfsfólk sitt og sé það forsenda fyrir því, að þeir geti fengið fólk til vinnu við framleiðsluna. Þær upplýsingar, sem hv. frsm. meiri hl. n. las hér upp áðan, breyta engu varðandi skoðanir okkar á þessu máli. Við teljum það ekki til neinna bóta að þurfa að sækja undir sveitarstjórnir, ef sveitarstjórnirnar vilja ekki byggja sjálfar, það sé alveg óþarfi að fara í gegnum þann millilið.

Ég vil að lokum láta þess getið, að við í 1. minni hl. félmn. erum þrátt fyrir þetta meðmæltir því, að þessar heimildir, sem um getur í frv., verði veittar. Við gerum það í von um, að hæstv. ríkisstj. manni sig nú upp í að útvega það fjármagn, sem þarf, til þess að heimildir þessar verði annað en pappírsgagn eitt.