11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er raunar kærkomið tækifæri hér undir þessum dagskrárlið til þess að fara nokkru nánar einmitt út í húsnæðismálin og tala þar við hv. 7. þm. Reykv. sem fyrrv. ráðh. í viðreisnarstjórn í 12 ár, en það yrði allítarlegt mál, ef rekja ætti það, nema þá í stórum dráttum. En það er athyglisvert, að nú, þegar verið er að ræða um að veita landsbyggðinni hliðstæð kjör og viðreisnarstjórnin veitti á sínum tíma Reykjavíkursvæðinu, þá koma hér fram úrtölur frá þessum hv. þm.

Hver var viðskilnaður viðreisnarstjórnarinnar við húsnæðismálakerfið, þegar hún fór frá? Það vantaði nokkur hundruð millj. þá í það kerfi til þess að fullnægja þeim þörfum, sem þurfti, til þess að húsbyggjendur sæju til lands, eins og hann orðaði það. (Gripið fram í: Hver hefur sagt þér þessa vitleysu?) Hver var fjármögnun viðreisnarstjórnarinnar, þegar Breiðholtsævintýrinu var hrundið í framkvæmd? Hvaða tekjustofnar voru það, sem þá voru nýir umfram það, sem fyrir var í lögum? Þeir voru engir. Og þá voru ekki þessar úrtölur uppi hafðar hér á Alþ., að því er þetta varðaði, þegar það átti aðeins við Reykjavíkursvæðið eitt. Það kemur allt í einu hér nú.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í það mál hér hjá hv. 7. þm. Reykv. þó að þeir nm. í hv. félmn. hafi þurft að reikna á hné sér við nefndarstörfin, þá treysti ég prófessornum til að gera það ásamt öðrum nm. En það væri freistandi að fara frekar út í húsnæðismálin undir viðreisnarstjórninni, eins og þeim var þá stjórnað og háttað. Það var ekki aðeins, að viðreisnarstjórnin sæi Reykjavíkursvæðinu fyrir þessum forréttindum, sem það er búið að njóta núna í nærri 8 ár, — það var ekki bara það, heldur og hitt, að það var dregið úr framkvæmdum við byggingu íhúðarhúsnæðis í öðrum kerfum innan Húsnæðismálastofnunarinnar, og þar á ég fyrst og fremst við verkamannabústaðakerfið. Íbúum úti á landsbyggðinni var gert öldungis ókleift að notfæra sér það kerfi eftir þá breytingu, sem viðreisnarstjórnin gerði á árinu 1970. Og það skyldi nú ekki vera, að flokksbræður hv. 7. þm. Reykv. víðs vegar úti um landið hefðu þessa sömu sögu að segja og hér er verið að tala um? Það er þó ástæða til að fagna því, að hv. 7. þm. Reykv. lýsti sig samþykkan meginstefnu frv. og hnýtti því svo aftan við, að hann vildi fá ítrekaða áskorun til hæstv. ríkisstj. um, að hún sæi fyrir fjármagni til þessa þáttar. Ég get tekið undir þá ósk frá hv. þm., en það er gefið mál, að um leið og stjfrv. kemur fyrir Alþ. og ríkisstj. leggur áherzlu á, að það nái fram að ganga, þá ætlar viðkomandi ríkisstj. sér að standa við það, eða a.m.k. ætla ég ekki hæstv. núv. ríkisstj. annað en hún ætli sér að standa við þau mál, sem hún leggur áherzlu á, að hér fari í gegn. (Gripið frsm í: Hún ætti að fara frá fyrst.) Ekki held ég nú, að hv. þm. verði að þeirri ósk sinni. Hann má bíða talsvert lengur.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en mér finnast það athyglisvert, að þegar hér er til umr. mál, sem snertir alla landsbyggðina utan Reykjavíkursvæðisins, þá skuli koma hér upp á hv. Alþ. úrtöluraddir, sem ég vísa algerlega á bug, og ég held, að þeir menn úr viðreisnarstjórninni, sem þannig tala, ættu að líta í eigin barm, líta til fortíðarinnar.