11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég er dálítið undrandi á, hversu háværar og heitar umr. hafa orðið um þetta frv., þegar það liggur fyrir, að í raun og veru er n. öll sammála um að mæla með frv. Mér skilst, að eini ágreiningurinn í n. hafi verið um það, að málið kom seint fram, og ég harma, að það kom seint fram og n. hafði því skamman tíma til að athuga þetta mál. Þess vegna bar minni hl., stjórnarandstaðan, fram óskir um að fá meira svigrúm til að skoða málið betur, sem var ósköp eðlilegt, en tíminn hins vegar naumur til þingloka, og meiri hl. brá þá á það ráð að hraða afgreiðslu í n., til þess að það væri öruggt, að málið kæmist í höfn, svo sem var allra vilji. Mér skilst, að hv. 7. þm. Reykv. lýsi yfir stuðningi við frv. og vilji samþykkja það, og fulltrúar Sjálfstfl. í n. bera fram lítilvæga brtt., sem meiri hl. hefur að vísu ekki fallizt á og ég mæli ekki heldur með. Ég vil, að málið fái að reyna sig núna með sveitarstjórnirnar úti um landið sem framkvæmdaraðila.

Ég fagna þessum sameiginlega vilja um samþykkt frv. og lýsi því enn yfir, að ég legg mikla áherzlu á það, að frv. verði ekki grandað með brtt. nú, heldur göngum við frá því að samþ. það eins og það liggur fyrir. Meginatriði þess, sem öllu máli skiptir, er að heimila byggingu leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og það er engin smáræðis aðstoð, sem á að veita til þess samkv. frv. Ef íbúð kostar 2 millj. kr. og lagt er fram 80% af andvirði hennar sem lánsfé, þá þýðir það 1,6 millj. kr., sem þarna verða lagðar fram„ — tvöfalda venjulega lánsupphæð til íbúðar, sem þarna væri lögð fram til þess að greiða fyrir sveitarfélögunum, að þau geti orðið frumkvöðull að lausn íbúðavandans. Þetta er mikilsvert nýmæli og er alger hliðstæða við það, sem gert var um nokkurt árabil fyrir Reykjavíkursvæðið með Breiðholtsframkvæmdunum. Þess vegna eru þau sveitarfélög, sem hafa notið þeirrar löggjafar fram að þessu, undanskilin þessari löggjöf.

Þess vegna er um sáralítið að deila í þessu máli. Menn geta dregið alls konar atriði önnur inn í umr. varðandi húsnæðismálin, sem hefur verið, er og verður mikið þjóðfélagsvandamál að leysa, sérstaklega fjárhagshliðina. En hv. 7. þm. Reykv. talaði hér aðra stundina af allmiklum alvöruþunga og hina stundina með mikilli gamansemi og fyndni. Þegar alvörutónninn var á honum, lýsti hann því ekki aðeins yfir, að hann fylgdi þessu frv., heldur ætlaði hann að vera mér til góðrar aðstoðar við að útvega fjármagn, til þess að þetta frv. yrði ekki pappírsgagn eitt. Þar með hættir mér að sortna fyrir augum út af þessu og geri mér hinar beztu vonir um, að einhverjir góðir menn úr Sjálfstfl. verði mér hjálplegir líka til þess að leysa þennan vanda. Og þá verðum við allir samtaka um að gera þetta frv. að öðru og meira en pappírsgagni.

Það eru höfð hér stór orð um það, hvað vanti mikið fjármagn á árinu 1973. Ég er ekki eins svartsýnn á það og menn hafa hér verið með tölur um. Menn hafa verið að nefna 550 millj. kr. og 700 millj. kr. Það voru um þetta leyti í fyrra nefndar 500 millj. kr., sem vantaði, og núna 550 millj. kr. En í fyrra, þrátt fyrir meiri byggingar en nokkurt undanfarinna ára, bjargaðist það og var fullnægt öllum umsóknum, sem rétt áttu til lána úr húsnæðislánakerfinu, með lítilsháttar aðstoð yfir áramótin, að því er snertir Seðlabankann. Þetta fór því allt betur en á horfðist um líkt leyti í fyrra. Ég er vongóður um það, að líkt verði með árið 1973. Ég hef nýlega verið niðri í Seðlabanka að ræða þessi mál þar, og þar gerðum við áætlun, sem hagdeild Seðlabankans hefur gengið frá og sýndi, að það yrði mikil fjárþörf eftir fyrstu mánuði þessa árs og fjárþörfin byrjaði í aprílmánuði og stæði fram í september, en árið kæmi út með 38 millj. kr. jákvæðum niðurstöðum. Það er búið að ræða það við Seðlabankann, að hann hjálpi til að jafna tekjur kerfisins um miðju ársins, til þess að það geti komið slétt út. Ég hef að vísu ekki fengið skriflegt svar frá Seðlabankanum um þetta enn þá. Ég tel, að þetta muni leysast, að því er snertir fjárþörf ársins 1973. En við höfum miklar áhyggjur af árinu 1974. Þó er það svo, að eftir rúmt ár er lokið hinni miklu byggingaráætlun Breiðholts, en sú áætlun tekur, — því að nú eru byggingarframkvæmdirnar þar í fullum krafti, — á þriðja hundrað millj. í ár og um 300 millj. næsta ár, sem er lokaáfangi, en þegar því er lokið, þá losna um 400 millj. kr. hjá húsnæðismálakerfinu til annarra hluta í byggingarmálunum. Ég játa, að ég hef miklar áhyggjur af fjáröflun ársins 1974, en eftir það sýnist mér aftur birta yfir.

Við skulum segja, að þetta mál komi til fullra framkvæmda á árinu í ár. Nú er aprílmánuður. Einhvern undirbúning þarf nú til þess að hefja byggingu leiguíbúða úti um landið. Ég þykist vera bjartsýnn, þegar ég geri mér vonir um það, að þeim undirbúningi væri lokið í ágústmánuði. Þá er lítið eftir af byggingartíma þessa árs. Því miður verður því ekki mikið um, að þær leiguíbúðir, sem væri byrjað á nú síðsumars, kæmu til notkunar í ár, en á næsta ári kæmi þetta af fullum þunga, og úr því að gert er ráð fyrir 1.000 íbúðum á 5 árum, þá er þarna um að ræða að meðaltali 200 íbúðir á ári. Það yrðu því eitthvað á þriðja hundrað íbúðir á þessu ári, sem kæmust af stað, á þriðja hundrað íbúðir leiguhúsnæðis, sem þyrfti að sjá fyrir fjármagni til. Það getur farið upp í allt að 1,6 millj. kr. á íbúð, ef hver íbúð væri reiknuð á 2 millj. Það er rétt, að það heimtar aukið fjármagn úr byggingarsjóðnum. En þegar við ætlum allir saman að leggja okkur fram um að leysa fjárhagshliðina, þá er ég viss um, að hún leysist.

Það var talað um, að það væri glannalegt að kasta sér til sunds og sjá ekki til lands. En í húsbyggingarmálum á Íslandi hefur nálega enginn einstaklingur, sem hefur ráðizt í það stórvirki að byggja yfir sig og sína, séð til lands, þegar hann lagði af stað. Hann hefur venjulega verið með lítinn hluta þess fjármagns, sem til þess hefur þurft að koma upp íbúðinni, og komizt að landi samt. Það hefur verið margt Grettissundið innt af hendi á Íslandi, líka í húsbyggingarmálum.

Ég held, að reynslan verði nú sú, að þó að við séum hér að tala um eitthvað á þriðja hundrað íbúðir á ári sem leiguhúsnæði, þá komi það ekki alveg 100% í viðbót við íbúðarhúsnæði. Það mun þá draga eitthvað úr öðrum framkvæmdaþáttum húsnæðismálanna, svo að það eru óþarflega varfærnislegar áætlanir, sem byggja á því, að þetta komi algerlega í viðbót. Ég vænti þess samt, að þarna verði um einhverja aukningu að ræða, af því að þarna eru boðin vildiskjör.

Ég er andvígur því, að till. sjálfstæðismanna í n.samþ. Ég held, að við eigum til að byrja með að halda okkur eingöngu við, að þetta sé réttur handa sveitarfélögunum. Ég trúi ekki öðru, eins og tekið var hér fram í framsögu, en að sveitarfélögin geti haft samstöðu og samstarf við atvinnurekendur og félagssamtök í viðkomandi sveitarfélögum um, að þótt byggingarframkvæmdirnar séu á nafni sveitarfélagsins, þá geti þeir rétt þarna hönd, ef þeir hafa sérstaka þörf fyrir, að leiguíbúðarhúsnæði sé útvegað. En þetta húsnæði, sem fær svona mikla aðstoð, verður að vera húsnæði, sem ekki fer í brask. Það verður því að vera á félagslegum grundvelli, til að leysa félagsleg vandamál byggðarlaganna, og við það eigum við að halda okkur a.m.k. fyrsta sprettinn.

Það eru engar hugmyndir um að breyta þessu frv. að öðru leyti og ekki ágreiningur um frv. sjálft, að mér skilst, og þess vegna skulum við hætta háværum og heitum umr. um húsnæðismálin almennt og leggjast allir á eitt um að afgreiða þetta frv. sem lög og láta það komast undir próf reynslunnar.