02.11.1972
Sameinað þing: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

28. mál, kennsla í fjölmiðlun

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Tvær aðalástæður eru til þess, að ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um kennslu í fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Önnur er sú, að stúdentum fjölgar mjög með ári hverju og nauðsynlegt er fyrir þjóðina að beina hinum vaxandi fjölda menntamanna inn í starfsgreinar, þar sem er þjóðfélagsleg þörf fyrir þá. Hin ástæðan er sú, að áhrif fjölmiðlunartækja, sjónvarps, útvarps og blaða, eru greinilega vaxandi hér á landi og er því aukin þörf fyrir, að starfsfólk þessara stofnana hafi sem haldbezta menntun.

Kennsla í fjölmiðlun er þegar viðurkennd háskólagrein víða um lönd og hefur þróazt úr því, sem áður var kennsla í blaðamennsku einni. Er fengin fyrir því reynsla í mörgum löndum, að fólk með háskólamenntun af þessu tagi er ekki aðeins eftirsótt við fjölmiðlunartækin sjálf, heldur og til hinna margvíslegustu starfa annarra.

Ég tel, að hér á landi séu nú 150–200 stöður, þar sem sérmenntun á sviði fjölmiðlunar mundi henta mjög vel. Við dagblöðin starfa um 100 manns við ritstjórn, að ég áætla, við hljóðvarp og sjónv. 20–50 manns við dagskrárgerð, — það getur verið matsatriði, hverja eigi að telja í þessum hóp, en allt starfsliðið er að sjálfsögðu um 200, — en við þetta má bæta vaxandi fjölda af auglýsingaskrifstofum, blaðafulltrúum, sem eru að verða fjölmenn stétt hér á landi, starfsmönnum hugsjónastofnana (Rauða krossins, Landverndar og slíkra), svo og starfsmönnum stjórnmálaflokkanna. Ég tel líklegt, að stöðum á þessu sviði muni fjölga ört á næstu árum og verði fljótlega orðnar 200–300.

Rétt er að gera sér grein fyrir því, að nám í fjölmiðlun mundi án efa verða með þeim hætti, að t.d. rúmur fjórðungur námstímans færi í fjölmiðlunargreinarnar sjálfar, annar fjórðungur námstímans þyrfti að fara í íslenzkt mál og e.t.v. eitthvert erlent mál, en um það bil helmingur námsins mundi verða í öðrum greinum, sem eiga að gefa þessu fólki almenna undirstöðu, í greinum svo sem þjóðfélagsfræðum, í þekkingu á atvinnulífi og ýmsu öðru, sem hefur almennt gildi.

E.t.v. kunna menn að spyrja, hvort það sé ekki mikið álag á Háskóla Íslands að leggja á hann að taka upp slíka kennslu. Ég vil geta þess, að svo er ekki, einmitt vegna þess, að aðeins fjórðungur kennslunnar yrði nýr. Háskólinn kennir nú þegar þær greinar, sem myndast af náminu. Er þetta því ekki eins þung byrði og ætla mætti. Ég tel að sjálfsögðu ekki, að þetta yrði sjálfstæð deild, heldur gæti hún mjög vel verið t.d. með þjóðfélagsfræðum.

Ég vil benda á það, að kennsla í þessum greinum gæti orðið undirstaða fyrir tvær nýjar stofnanir við háskólann, sem kæmu þar að góðu gagni. Annars vegar væri, að gefið yrði út með reglulegu millibili, hálfsmánaðarlega eða vikulega, blað í háskólanum, sem nemendur í þessum greinum mundu bera þungann af, en gæti komið jafnstórri og dreifðri stofnun að góðum notum. Hins vegar, að háskólinn fengi til afnota sína eigin útvarpsstöð, t.d. á örbylgjum. Stöðin yrði að sjálfsögðu vegna landslaga að vera eign Ríkisútvarpsins og starfa á ábyrgð þess, en stúdentar gætu unnið að nokkurra klukkustunda dagskrá í viku sjálfum sér og öðrum til gagns og ánægju. Ríkisútvarpið gæti þarna sem bezt fundið ágæta, nýja starfskrafta. Þetta hvort tveggja er til í háskólum um allan heim, og mundi ekki heyra til neinna nýjunga, þótt Háskóli Íslands, sem nú hefur hátt á þriðja þús. stúdenta, eignaðist sitt eigið blað og fengi afnot af lítilli útvarpsstöð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa till., en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.