12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3389 í B-deild Alþingistíðinda. (2928)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. frv. flutti ég tvær brtt. önnur þeirra hlaut þá afgreiðslu, en hina tók ég aftur til 3. umr. Það var till. um að verja 8 millj. kr. til Ólafsfjarðarhafnar, en eins og ég skýrði frá þá, var Ólafsfjarðarhöfn ein af þeim höfnum, sem eru í hafnaþætti samgönguáætlunar Norðurlands. Af þessari ástæðu var ekki tekin nein fjárveiting til hafnarinnar í fjárlög, þar sem gert var ráð fyrir, að hún yrði fjármögnuð af þessari framkvæmdaáætlun. Það er ástæða til þess, að það er ekki óeðlilegt, heldur í fyllsta máta eðlilegt að taka málið upp við afgreiðslu framkvæmdaáætlunar, enda er þar beinlínis um að ræða fjárveitingar til þeirra hafna. sem gert er ráð fyrir að fjármagna með þessum hætti. Ólafsfjarðarhöfn verður ein eftir skilin. Við 2. umr. var gert ráð fyrir því, að þetta mundi ekki koma að sök, vegna þess að hin nýju hafnalög tækju ekki gildi fyrr en um næstu áramót, og því mætti þetta að skaðlausu bíða. Ég hef kynnt mér það síðar, að þetta er ekki rétt, vegna þess að verulegar framkvæmdir þurfa að vera við hafnargerðina, m.a. dæling, á þessu ári, ekki sízt vegna tilkomu nýrra togara. Þess vegna verður með engu móti annað auðið en ráðast í framkvæmdirnar í ár, a.m.k. að einhverju leyti. Það er ekki alveg víst, að nákvæmlega þurfi þessa fjárhæð, sem hér er um að ræða, en þessi tala hefur verið tekin, vegna þess að hún er í áætluninni, og því við hana miðað.

Ég hef tekið till. aftur upp nú við 3. umr., og ef ekki kemur fram nein ábending um, að hugsanlegt sé að leysa málið með öðrum hætti, sé ég mér ekki annað fært en láta hana ganga til atkv. og láta það þá ráðast, hvernig um hana fer.