12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3398 í B-deild Alþingistíðinda. (2935)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Axel Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. tók það nú raunar fram, að nál. minni hl. væri það ítarlegt, að þar þyrfti ekki um að bæta, og skal ég því vera stuttorður varðandi það atriði. Ég vil aðeins víkja að því, sem hv. frsm. sagði, að það væri bezt að fara varlega í að spá um afkomu komandi tíma. Ég skal taka undir það, og þar sem talað er um vísitölu byggingarkostnaðar nú í 708 stigum, veit ég, að það er ekki fyllilega raunhæf tala. Ef einhver vill semja við byggingarverktaka í dag, veit ég, að það þýðir lítið að tala um þá tölu, heldur er hún að nálgast áttunda hundraðið. Og hvað verður næst? Ég get ekki tekið undir, að það er vafasamt að vera með spádóma, en mér sýnist þó augljóst, að sú stefna að binda lán fiskveiðasjóðs við vísitölu byggingarkostnaðar, sem er komin á skrið óðaverðbólgu, hlýtur að hafa sínar afleiðingar til lækkandi fiskverðs. Það er einnig aðfinnsluvert, að þarna hefur ekki verið haft það samráð við hlutaðeigandi aðila, svo sem vert væri.

Hæstv. sjútvrh. var bjartsýnn á horfurnar vegna hækkandi markaðsverðs. Það er gott, að við getum verið bjartsýnir hvað það snertir. Það heyrast einnig á stundum raddir um, að minnkandi afli sé áhyggjuefni fyrir okkur, ásamt öðrum áföllum, sem við höfum orðið fyrir. Þarna stangast kannske eitt á annars horn, ef farið væri að bera það saman, sem sagt er í þessum efnum. Ég gæti hins vegar tekið undir það, að það sé að einhverju leyti ámælisvert fyrir minni hl., að hægt sé að bera honum það á brýn, að hann beri það traust til ríkisstj. til að leysa málið, að hann leggi til að vísa málinu til hæstv. ríkisstj.