12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3398 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls, lét ég þess getið, að mér þætti nokkuð skorta á um upplýsingar varðandi fjárþörf fiskveiðasjóðs. Ég gerði ákveðnar fsp. um þetta efni til hæstv. sjútvrh., en hann svaraði þeim ekki. Hann vék að vísu nokkrum orðum að mér í sæti mínu og kvað upplýsingar mundu koma til n., sem fjallaði um málið. En ég verð að segja það, þegar málið kemur nú aftur til 2. umr., að mér þykir enn nokkuð á skorta um það, að málið sé fyllilega upplýst að þessu leyti.

Það er gert ráð fyrir í grg. frv., að sú tekjuaukning, sem það felur í sér, muni nema á ársgrundvelli um 360 millj. kr. Sagt er í nál. minni hl. sjútvn., að fjármagnsþörf sjóðsins sé yfir 1300 millj. kr. umfram eigin ráðstöfunarfé. Ég er ekki að rengja þessar tölur, þær gætu staðizt báðar. En mér þykir rétt að fá að heyra af munni hæstv. ráðh., hvað hann segir um það, sem ég spurði um við 1. umr. Ég vil leyfa mér að endurtaka það. Ég spurði um, hverjar væru áætlaðar útborganir sjóðsins á árinu 1973, bæði áætluð útlán og áætlaðar afborganir og vextir af skuldum sjóðsins á þessu ári. Ég spurði Iíka um innborgunarhliðina, hvað áætlað væri að kæmi inn í sjóðinn: í fyrsta lagi vextir af lánum og öðrum kröfum sjóðsins og í öðru lagi útflutningsgjöld, sem renna til sjóðsins samkv. gildandi l., auk þeirra tekna, sem sjóðurinn hefur af ríkisframlagi, 35 millj. kr.

Mér sýnist, að þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, sjáum við, hver munurinn er á áætluðum innborgunum og útborgunum, og þá sjáist ótvírætt, hver er áætluð fjármagnsþörf sjóðsins. Ég hef ekki fengið þessar upplýsingar enn og óska eftir því að fá þær.

Hæstv. ráðh. ræddi nú um, að það þyrfti að taka enn þá meira af erlendum lánum og innlendum lánum fyrir sjóðinn. Mér skildist, að það væri, þó að þetta frv. yrði samþ., en ef það yrði ekki samþ., mundi þurfa að taka enn þá meira af lánum. Nú þykir mér, að það sé nauðsynlegt að upplýsa, hvað þetta bil er mikið, sem kemur til greina að þurfi að brúa með lántöku, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki.

Í þessu sambandi þykir mér enn fremur rétt að spyrja um hin vísitölutryggðu lán, sem sjóðurinn hefur þegar tekið, að því er upplýst er að upphæð 125 millj. kr., og hæstv. ráðh. upplýsti hér í sinni ræðu, að líkur væru til, að sjóðurinn þyrfti að taka meira af. Mér finnst, að það þurfi að gefa nánari upplýsingar um þessi kjör, því að þótt sagt sé, að lán séu vísitölutryggð, segir það ekki allan sannleikann. Það er spurningin, hvort í lánakjörunum á að gæta allra áhrifanna af breytingu á byggingarvísitölunni eða kannske, eins og var í mörg ár varðandi íbúðalánin, að vísitölunnar gætti að helmingi, eða þá hvort vísitölubindingin er með þeim hætti, eins og ákveðið var á síðasta þingi um íbúðalánin, að sett var sérstakt hámark, sem áhrif vísitölubindingarinnar gætu náð. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um svo þýðingarmikil grundvallaratriði málsins sem þessi, og ég hef leyft mér að ítreka fsp. mínar og bæta að gefnu tilefni nokkrum við.