12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3399 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð í sambandi við ræðu hæstv. ráðh. — Ég er þeirrar skoðunar og við margir fleiri, sem fáumst nú við þann starfa að stunda sjávarútveginn, að hér sé ekki um neinn misskilning að ræða um túlkun á þessum gjöldum, annars vegar útflutningsgjöldunum og þeirri kvöð, sem þeim fylgir, og hins vegar framlaginu í verðjöfnunarsjóð. Það eru tvö ólík sjónarmið, sem við túlkum. Það er ekki byggt á neinum misskilningi, hvorki af hans hálfu né minni. Verðjöfnunarsjóðurinn starfar eftir sérstakri stjórn, og hún metur aðstæðurnar við ákveðið viðmiðunarverð, sem hún setur, þegar verðhækkun kemur fram. Verðlagsráð sjávarútvegsins dregur frá ákveðin gjöld, sem eru staðreynd, þ. á m. útflutningsgjöld, og þetta nýja álag kemur inn í þá fúlgu. Það er dregin frá vinnslukostnaður, rafmagn, akstur, hafnargjöld o. s. frv. Svo er liður, sem heitir áhætta og afföll o. fl. Um þá liði er slegizt í verðlagsráðinu fyrst og fremst. Einnig er oft slegizt um nýtingartölu á afla, t.d. loðnunýtingu o. fl. Þessi skilningur verður ekki túlkaður sem misskilningur, það má kannske segja, að hann gangi á víxl eftir því, hvorum megin við borðið við sitjum, en það er ekki túlkað sem misskilningur, heldur sem ákveðið sjónarmið, eins og lögin eru. Við, sem höfum það sjónarmið, sem ég er hér að reyna að túlka, teljum, að þessu eigi engan veginn að reyna að blanda saman. Það hefur verið gengið frá ákveðnu viðmiðunarverði, sem kallað er. Ef verðlag hækkar fram yfir það, fer ákveðinn hluti í verðjöfnunarsjóð. Ef við vildum breyta l. um verðjöfnunarsjóðinn og láta ákveðinn hundraðshluta af þeirri hækkun, sem þar kemur fram, renna í fiskveiðasjóð, er ég alveg sammála hæstv. ráðh. um, að það kæmi vel til greina. En þetta eru önnur vinnubrögð, annað sjónarmið. Það er ekki um misskilning að ræða, alls ekki frá minni hálfu og okkar, sem túlkum þetta þannig. Við teljum aðeins, að framkvæmd málsins eigi að vera með öðru móti. Sitt sýnist hvorum í þessu efni, og það verður kannske aldrei skorið úr því, hvor hefur rétt fyrir sér. En við erum mjög margir, sem viljum hafa þetta þannig, og ég tel, að næstum hver einasti sjómaður telji, að hlutirnir eigi að vera þannig. Og um þetta gamla viðmiðunarkerfi, að sjómenn fái sambærilegar launahækkanir og í landi, er hægt að tala, þegar verðhækkun á sér stað, en það gleyma þessu allir, þegar verðlækkun á sér stað. Sem betur fer hafa ýmsar sjávarafurðir hækkað núna, og því er nú hægt að gera sér vonir um nokkuð til skipta fyrir báða aðila. Fiskvinnslan fær sannarlega sinn skerf, og ætli hún hafi ekki fengið sinn skerf hressilega á loðnuvertíðinni? Það er kannske svolítið óskylt að fara að tala um verðlagningu á loðnu, en það er upplýst nú löngu á eftir, að þeir, sem frystu loðnu, hafa 12–18 kr. nettó út úr kg, en við, sem eigum bátana, fáum 3.50 brúttó handa okkur. Verðlagsráðið vinnur þannig, að það fastsetur verðið fram í tímann, en hefur það ekki hlaupandi. Það væri líka sjónarmið að hafa það hlaupandi, en það hefur ekki verið gert. Það má vel athuga það og breyta því. Verðlag á loðnu og lýsi hækkaði gífurlega, en þá hækkaði verðið til öflunarinnar, þ.e.a.s. útvegsmanna og skipshafna, en mun meira rann í verðjöfnunarsjóðinn, af því að það eru sérstök lög, sem gilda um hann. Það er sett ákveðin viðmiðunartala, og það, sem fram yfir hana fer, skiptist til helminga eftir ákveðnu kerfi. Ég vildi aðeins undirstrika það, að ég tel ekki rétt að tala um misskilning. Við höfum hér tvö ólík sjónarmið, og það má vel ræða það við mig, að við breytum til varðandi verðjöfnunarsjóðinn. En ég tel þó nauðsynlegt að hafa hann vegna þeirrar staðreyndar, að sveiflur koma alltaf fram, bæði til lands og sjávar, og það er nauðsynlegt og skynsamlegt að hafa eitthvað til að mæta lággengi, þegar það kemur fram í sjávarútvegi. Við vitum, að það kemur fyrr eða síðar, bæði varðandi verðlag og aflabrögð. En ég vil ekki blanda þessu saman.

Það er auðvitað augljóst mál, eins og hér hefur verið drepið á, einnig af síðasta ræðumanni, að þetta frv. leysir engan veginn hnútana. Fjármagnsþörfin fyrir þetta ár og næsta ár er mikið á annan milljarð, sem verður að brúa með lántöku. Og hæstv. ráðh. undirstrikaði, að það hefði verið skynsamlegt hjá fiskveiðasjóði að endurlána með sömu kjörum og hann tekur lánin. Þetta er rétt. En ef það fer að koma fram í vaxandi mæli, að hann taki lán á innlendum peningamarkaði, sem eru tryggð með vísitölu byggingarkostnaðar, og það er lánað út á skip, — en við, sem eigum skip, erum þannig höndlaðir af lánastofnunum, að þau eru engan veginn veðhæf, ekki nema með margföldum fasteignatryggingum á bak við, samt má setja vísitölu byggingarkostnaðar íbúða á skipin, — þá tel ég það óeðlilegt, á sama tíma og hæstv. ríkisstj. hrósar sér af því að fella niður þetta ákvæði varðandi byggingar í landi. Sannarlega ætti það þó fremur að fylgja þeim, en eignum, sem hafa ákveðinn líftíma, eins og bátur hefur, allt að því 20 ár í mesta lagi, ef vel er við haldið. Þarna er um mjög undarlega stefnu að ræða, sem ég veit ekki, hverjir bera ábyrgð á. Ég ætla ekki, að það sé verk hæstv. ráðh., síður en svo. Ég held, að bankamennirnir í kerfinu hafi miklu fremur komið þessu í gegn og hann orðið að samþ. það. Ég held, að það sé ekki hans hugmynd. En það er eðlilegt og er bæði hjá fiskveiðasjóði og öðrum sjóðum, að þeir verða að lána með alveg sömu kjörum og þeir útvega sér fjármagn. Annað er óeðlilegt og mundi rýra þann höfuðstól, sem fiskveiðasjóður á. Hann er þegar mikill, hátt í tvo milljarða, og það má ekki ganga á hann með óeðlilegum lánakjörum, það er alveg rétt.

En vandamál sjóðsins í dag er engan veginn leyst með þessu frv. Þó að yrði dokað við í bili og við tækjum þá fyrir í heild þær sjóðmyndanir, sem útvegurinn og fiskvinnslan sameiginlega standa undir, og færum í gegnum það í rólegheitum, hvernig við gætum fært fjármagn þaðan yfir til fiskveiðasjóðs, tel ég enga höfuðsynd, hvorki fyrir hæstv. ráðh. né neina aðra, að standa að því, — alls ekki. Það getur vel komið til greina, að menn meti það þannig í dag, að næstu 2–3 árin, vegna hás verðlags, sem hefur vissulega blessunarlega hækkað verulega, megi verðjöfnunarsjóðúrinn vel við því með breytingum á l. eða hlutfallsprósentu að sjá fiskveiðasjóði fyrir fjármagni, sem nemur nokkur hundruðum millj. kr. eða kannske 200 millj. Það væri þess virði að athuga málið á eðlilegan hátt. Það teljum við í minni hl.

Það er enn ein spurning, ef hæstv. ráðh. kemur upp og svarar mér og síðasta fyrirspyrjanda: Er ekki hugsanlegt að stokka upp þessi lánakjör, sem fiskveiðasjóður hefur lánað út á s.l. 15 árum, því að þau eru mjög misjöfn? Ég spyr í fávizku minni: Er það ekki hugsanlegt, því að bæði 1960 og svo núna síðar var það hreinni tilviljun háð, hvaða bátar fengju mjög góð lánakjör, t.d. með 4% og til lengri tíma en aðrir og einnig án gengisáhættu? Þá mátu spekingar fiskveiðasjóðs gengi íslenzku krónunnar það vel, að það væri ekki þörf á að gengistryggja lánin. Reynslan sýnir nú annað, og það liðu ekki nema tiltölulega fáir mánuðir, þar til þetta mat varð óraunhæft og varð að fella krónuna um helming. Ég segi hiklaust: Má ekki athuga þann möguleika, þótt það kosti lagabreytingu, að lánum fiskveiðasjóðs sé komið helzt í eina heild, á sama grundvelli, með sömu prósentu og til sama tíma? Er það óhugsandi? Það mundi tryggja fiskveiðasjóði auknar tekjur. Hitt vildi ég gjarnan fá tækifæri til að ræða í hópi útvegsmanna og fiskvinnslumanna, hvort ekki ætti að gefa verðjöfnunarsjóði möguleika á að lána, án þess að kvöðin komi einhliða á sjávarútveginn, þ.e.a.s. öflunina. Minn skilningur er nefnilega sá, að þegar við aukum útflutningsgjaldið, — og það er skilningur manna í mínum hópi og sjómanna líka, — lendi sú kvöð einhliða á öfluninni vegna þess, hvernig verðlagningin á sér stað. En hæstv. ráðh. undirstrikaði, að minna mundi fara í verðjöfnunarsjóð. Það getur vel verið, að það sé hægt að koma því þannig fyrir, en það fylgir því engin trygging og það getur ekki átt sér stað, þegar um verðlækkun á vörum er að ræða, því að við höldum gjaldinu og höfum þá engu til að skipta upp varðandi verðjöfnunarsjóð.