12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3402 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að svara því, sem til mín var beint, með örfáum orðum.

Hér hefur verið spurt um tekjur fiskveiðasjóðs og svo aftur lánaþörf. Ég hef ekki fyrir framan mig nákvæmar tölur yfir þetta, en þykist þó muna þær í öllum aðalatriðum. Gert er ráð fyrir því, að bein tekjuhlið hjá fiskveiðasjóði sé í kringum 580–584 millj. kr. og greiði hann allar sínar skuldir nákvæmlega upp, sé hreint ráðstöfunarfé 384 millj. kr. eða þar um bil. Síðan er gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður eigi kost á láni frá framkvæmdasjóði, samkv. þeirri grg., sem hér hefur verið lögð fram á Alþ., kringum 1150 millj. kr. Hér er um nokkru hærri upphæð að ræða, sem hann hefur yfir að ráða, en gert er ráð fyrir, að sjóðurinn lánaði út á árinu, en reiknað hefur verið með því, að það gæti verið í kringum 1600 millj. kr. En þó er þessi tekjuhlið aðeins of lítil, ef sjóðurinn ætlar að borga upp allar sínar skuldir, sem hann á jafnan einhverjar með yfirdrætti við Seðlabankann.

Þetta er í grófum atriðum tekjuhliðin annars vegar og útlánin hins vegar. Menn mega ekki blanda því saman. Það er auðvitað engin von til þess, að sjóður eins og fiskveiðasjóður hafi árlega tekjur sjálfur til þess að mæta öllum sínum útlánum. Slíkt væri auðvitað alveg ótrúlegt, ef um það væri að ræða. Hann verður því jafnan að starfa þannig, að hann tekur talsvert mikið af lánum og framlánar slík lán, eins og hann hefur gert um langan tíma og til þess er auðvitað ætlazt áfram. Meginstefnan er sú, að beztu lánakjörin hafa jafnan verið til nýrra fiskiskipa, og það eru hin vernduðu réttindi í sjóðnum. Hins vegar fara lánveitingar hjá sjóðnum í ýmislegt annað, eins og til ýmiss konar framkvæmda í landi, fasteigna eða jafnvel lána, sem er á algeru mati hjá sjóðnum, hvað skuli láta í hverju sinni, eins og til viðgerða eða meiri háttar breytinga á skipum. Lánakjör í þessum efnum eru miklum mun lakari en til nýbygginga, og það er einmitt svo, að þeim lánum, sem tekin eru með jafnóhagstæðum kjörum og vísitölubundin lán eru, er frekar beitt við slík lán. Enn sem komið er hefur sjóðurinn ekki þurft að taka mikið af þeim lánum, miðað við sína heildarumsetningu.

Ég vil benda á það, að fiskveiðasjóður á orðið eigið fé, sem nemur yfir 1700 millj. kr. sem hann er auðvitað með í lánum. Hann hefur því átt sjálfur mjög stóran hluta af sínum heildarútlánum, iðulega um 50% og þar yfir. Þetta hlutfall fer skiljanlega alltaf lækkandi, eigið fé hans í útlánum, vegna þess að beinar nýjar tekjur hafa verið tiltölulega litlar, en útlánin farið ört vaxandi. Nú ég get ekki gefið hér frekari upplýsingar um það, með hvaða kjörum þessi vísitölubundnu lán eru, en þau eru lánuð út með sömu kjörum og Framkvæmdasjóður ríkisins lánar fiskveiðasjóði þessi lán.

Hv. 5. þm. Reykn., Jón Árm. Héðinsson, minntist hér á, hvort ekki væru tök á því að taka upp þau lán, sem nú eru í gangi hjá fiskveiðasjóði, og samræma lánskjörin á öllum þessum lánum. Það er staðreynd, að hinir ýmsu aðilar, sem hafa fengið lán hjá sjóðnum, hafa fengið þau með misjöfnum kjörum, af því að þau hafa verið veitt á misjöfnum tímum. Ég hygg, að það sé mjög erfitt að koma þessu við. Ekki vil ég segja, að þetta sé útilokað, en um það hefur nokkuð verið rætt og það verður sjálfsagt athugað enn betur, hvort nokkur tök eru á að fara í slíkt. Venjulega hefur það verið svo hjá okkur, að það hefur ekki þótt fært að rífa upp gömul lánakjör og breyta þeim lánakjörum, sem í gildi hafa verið, og allajafna hafa verið veitt undir allt öðrum kringumstæðum, og fara að breyta þeim til samræmis við það, sem síðar kann að verða. En þetta má athuga eins og annað.