12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3405 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér fjölgun á dómurum í hæstarétti um einn, þannig að dómarar verði þar 6. Sú breyting gerir kleift að koma þar við deildaskiptingu og breyttum starfsháttum. Eru ákvæði um það í frv. Þetta frv. er flutt samkvæmt ósk hæstaréttar, samið af hæstarétti, aths., sem fylgja frv. eru samdar af hæstarétti. Ég hef engu þar við að bæta, en tek fram, að ég fellst á þau sjónarmið, sem þar eru sett fram.

Þetta frv. var með fyrri málum á Alþ. og hefur legið fyrir hv. Ed. í allan vetur. Þm. kvarta mjög um það, að síðustu dagarnir séu annasamir, en ég get ekki stillt mig um, þegar ég hef svona dæmi fyrir augum, að benda á, að stundum má rekja það til þm. sjálfra eða öllu heldur til starfa hjá þn., að störfin þjappast svo mjög saman á síðustu dögum þingsins.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.