12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3407 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

235. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 552 er frv. til l. um breyt. á l. n. 59 28. maí 1969, um tollheimtu og tolleftirlit. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að lagt er til, að tekin verði inn ný málsgr. í 69. gr. l. um tollheimtu og tolleftirlit, sem heimili viðurlög við því atferli að upplýsa ekki um afdrif vara, sem samkvæmt staðfestum skýrslum tollyfirvalda erlendis hafa farið um borð í viðkomandi far. Við hefur borið, að tollyfirvöld erlendis hafa gefið hérlendum yfirvöldum nákvæmar upplýsingar um mikið magn hátollavara, sem hafa farið um borð í ákveðin íslenzk kaupför. Þessi varningur hefur svo ekki fundizt né hefur á nokkurn hátt verið gerð grein fyrir því, hvað af honum hafi orðið. Talið er, að heimild til ákvörðunar viðurlaga í slíkum tilfellum sé vafasöm, en jafnaugljóst, að nauðsyn ber til að upplýsa mál af þessu tagi til hlítar. Ákvæði þessi mundu einkum koma að notum, þegar um meiri háttar vörumagn væri að ræða.

Hitt atriðið í þessu lagafrv. er svo það, að lagt er til að hækka þær sektir, sem tollyfirvöld hafa mátt ákveða án þess að senda mál til dómstóla, þannig að tvöfalda þær upphæðir, sem fyrir eru. Með þessu móti mundi afgreiðsla hjá tollyfirvöldum verða meiri og flýta afgreiðslu mála, sem oft vilja tefjast, þegar þau fara til dómstóla.

Hér er um nauðsynjamál að ræða, sem hv. Ed. var fljót að afgreiða, og ég treysti því, að hv. d. verði einnig fljót að afgreiða það, með tilliti til þess, hvað á þingtíma er liðið.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.