12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, sagði hér um undirbúning þessa máls, vil ég aðeins upplýsa það, að sú n., sem rætt er um í grg. frv., að unnið hafi að undirbúningi þess, skilaði raunar störfum í tvennu lagi. Fyrst skilaði hún breytingum á l., sem lagðar voru fyrir Alþ., ef ég man rétt í lok ársins 1969, og síðan skilaði n. öðru áliti sínu. Hið fyrra var um þá kafla l., sem nm. voru að miklu leyti sammála um, að skjótrar breytingar þyrftu við, og var l. breytt samkv. því. Hins vegar var sá hlutinn, sem þessar breytingar byggjast á, nokkru vandasamari og menn voru ekki jafnsammála um, hvernig breyta skyldi l. að því leyti. Engu að síður skilaði n. till. sínum, ef ég man rétt, á árinu 1970 og þó frekar fyrri hluta árs en seinni. Álitinu var skilað til þáv. félmrh., hann hafði sett n. á laggirnar. Frv. að breytingum lá hjá fyrrv. stjórn frá þeim tíma, að n. skilaði sínu frv. Það er þess vegna ekki við núv. stjórn að sakast. Hún tók þetta mál til athugunar mjög fljótt. Hins vegar má segja, að sú athugun, sem hún lét fram fara, hafi dregizt fulllengi. Ætlunin var, að þetta frv. kæmi fljótlega fyrir það þing, sem nú er að Ijúka, en því miður varð ekki af því. Ég vildi taka það fram, sem ég hef nú sagt um störf þessarar n. Það er rétt, að auðvitað eiga þm. rétt á að vita, hverjir það voru, sem störfuðu í þessari n. Formaður n. var Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, en aðrir nm. voru Björgvin Sigurðsson þáv. framkvstj. Vinnuveitendasambandsins, Magnús E. Guðjónsson framkvstj. sveitastjórnasambandsins og ég.

Varðandi frv. hv. 3. landsk. þm., sem hefur legið fyrir þessari hv. d. og er ekki mjög frábrugðið þessu frv. að öðru leyti en því, að hv. þm. Bjarni Guðnason hefur lagt til að breyta stjórninni allverulega. Vil ég aðeins taka það fram, að allt frá upphafi hefur æðimikið verið rætt og deilt um, hvernig stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs skyldi vera. Það varð að samkomulagi milli aðilanna á vinnumarkaðinum og þáv. ríkisstj., að hún skyldi skipuð nokkurn veginn á þann hátt, sem hún er nú, og stjórnin hefur verið nær óbreytt að samsetningu til. Ein breyting var gerð á árinu 1958, en að öðru leyti hefur stjórnin verið óbreytt, þ.e.a.s. skipuð af Alþ. og aðilum vinnumarkaðarins. Ég gæti út af fyrir sig vel hugsað mér aðra samsetningu á þessari stjórn og var í upphafi með aðrar till. En það verður að segjast, að þetta byggist á samkomulagi milli höfuðaðila, og það er ekki óeðlilegt út af fyrir sig, að hlutur Alþ. sé sæmilegur í þessu efni, og aðilar vinnumarkaðarins hafa núna æðilengi ekki verið með neinar sérstakar till. um breytingar. Ef ætti nú að fara að rífa upp þetta viðkvæma atriði, þá er það nokkurn veginn ljóst, að það yrði til þess, að l. fengju ekki afgreiðslu á þessu þingi, svo vel þekki ég deilurnar um þetta atriði málsins. En það táknar hins vegar ekki, að þetta eigi endilega að vera óumbreytanlegt. En ég vara mjög við því, að á þessu stigi verði farið að fjalla um breytingar á stjórn sjóðsins. Það er svo flókið og viðkvæmt mál, að það mundi áreiðanlega koma í veg fyrir afgreiðslu málsins á þessu þingi, sem ég tel mjög nauðsynlega.