12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 8. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðssyni, fyrir þau orð, sem hann sagði hér og grg. fyrir þróun þessa máls. Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á eitt eða tvö atriði í sambandi við stjórn atvinnuleysistryggingasjóðsins, að þetta er fyrst og fremst mál vinnumarkaðarins og á Norðurlöndum, sem við munum einkum hafa til hliðsjónar í sambandi við slíka löggjöf, koma þm. hvergi nærri. Þar sitja eingöngu aðilar vinnumarkaðarins í stjórn. Það er dálítið hjákátlegt, að fjórir skuli vera kosnir af Sþ. í stjórn þessa sjóðs, því að það er oft fremur flokksleg trygging. Miklu nær er að veita stórum aðilum vinnumarkaðarins hlutdeild í stjórn sjóðsins, eins og ég hef gert ráð fyrir með Farmanna- og fiskimannasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufél. Ég þykist vita, að hv. 8. þm. Reykv. fari með rétt mál, að þetta sé viðkvæmt og þessu verði trauðla breytt á svo skömmum tíma sem nú er eftir af þinginu.

Þá kem ég að því, sem olli mér töluverðri gremju, en það er hin þinglega meðferð málsins, sem ég fékk enga skýringu á og Eðvarð Sigurðsson getur að sjálfsögðu ekki skýrt á neinn hátt, geri ég ráð fyrir. Það er hið furðulega athæfi að senda þetta mál yfir í Ed. og girða þannig gersamlega fyrir það, að unnt sé að taka við afgreiðslu málsins nokkurt tillit til frv., sem fjallar um sama efni, þar sem eftir eru örfáir dagar þingsins. Það er þetta, sem ég fæ ekki skilið.