12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3411 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

237. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 554 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 29 frá 1963, um lifeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Frv. miðar að því að setja skýrar reglur um, hvenær lífeyrisgreiðslur til ríkisstarfsmanna hefjast. Einnig á það að koma í veg fyrir, að starfsmenn, sem njóta óskertra launa, eftir að þeir hafa látið af stöðu sinni, geti jafnframt átt kröfu til lífeyris. Verður það að teljast óeðlilegt og getur haft misrétti í för með sér.

Í 1. gr. frv. eru settar slíkrar reglur um, hvenær lífeyrisgreiðslur til starfsmanna hefjist, og enn fremur það ákvæði, að enginn geti tekið lífeyri, á meðan hann heldur óskertum launum.

Í sambandi við þetta frv. vil ég geta þess, að lög um lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hafa verið í endurskoðun á vegum fjmrn. og sérstaklega það ákvæði, að margir eru þannig settir, að þeir taka laun úr mörgum lífeyrissjóðum, og er ætlunin að setja um þetta ákveðnar reglur. Enn fremur er til í landi okkar, að menn haldi embættislaunum sínum, þótt þeir séu farnir úr embætti, eins og t.d. hæstaréttardómarar, en eigi jafnframt rétt á lífeyri. Þetta frv. var tekið út úr þessari endurskoðun vegna þess, að henni var ekki lokið, til þess að taka af öll tvímæli um, að ekki væri unnt hvort tveggja í senn að halda fullum launum og lífeyri, eftir að þegn léti af starfi.

Um þetta frv. varð fullt samkomulag í hv. Ed., og það gekk í gegnum d. með miklum hraða. Ég vona, að svo verði einnig í þessari hv. deild.

Ég legg til, herra forseti, að af lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.