12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3411 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

233. mál, Iðnlánasjóður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að segja nokkur orð um það, hvernig þetta frv. hefur borið að.

Á undanförnum tveimur þingum höfum við hv. 1. þm. Reykv. flutt frv. til l. um breyt. á l. um iðnlánasjóð, þar sem lagt er til, að framlag ríkissjóðs til iðnlánasjóðs hækki frá því, sem var á sínum tíma, miðað við þær verðlagshækkanir, sem orðið hafa. Þessi frv., sem lögð voru í bæði skiptin fram, að mig minnir, áður en fjárlög voru samþ., hlutu ekki hljómgrunn hjá hæstv. ríkisstj. En nú, þegar búið er að afgreiða fjárl. fyrir árið 1973, kemur fram frv. um þetta efni og bindur ríkissjóði bagga, eftir að fjárlög eru afgreidd, eins og raunar mörg önnur frv., sem hér hafa séð dagsins ljós á síðustu dögum.

Hér er um að ræða hin furðulegustu vinnubrögð, raunar ekkert einsdæmi um þetta mál, það mun svo um fleiri. En mér hefur stundum fundizt það dálítið einkennilegt, að margir hv. stjórnarsinnar hafa oft haft á orði, að það sé miklu meira gert með stjórnarandstöðuna núna á Alþ. en áður, hún fái svo og svo mikið af málum fram. En málsmeðferð eins og þessi sýnir, hvaða hugur fylgir máli í því efni. Hér er sem sagt komið fram með frv., sem er algerlega hliðstætt okkar frv. Það er að vísu hærri fjárhæð í þessu frv., sem sýnir, að okkar frv. voru á sínum tíma ákaflega hógvær og sanngjörn og ekki um nein yfirboð að ræða í þeim frv. Og það á að keyra frv. í gegnum þingið á örfáum dögum, þó að frv. um sama efni frá okkur stjórnarandstæðingum sé búið að liggja fyrir hv. Alþ. tvö þing.

Ég verð að ljúka máli mínu með því að segja, að það er betra seint en aldrei, og að sjálfsögðu mun ég styðja þetta frv., en mér finnst þetta hin fráleitustu vinnubrögð.