12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Frsm. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það nál., sem ég hef frá mér skilað, er enn í prentun og hefur ekki verið útbýtt, en ég hef fúslega fallizt á það við forseta, að málið verði tekið fyrir þrátt fyrir það. Sú brtt., sem ég flyt nú við 2. umr., hefur þegar verið fjölrituð og henni útbýtt.

Þegar hv. frsm. meiri hl. hóf mál sitt og reyndar meðan hann flutti það, hefði mátt ætla, að hann væri að mæla gegn þessu frv., en ekki með samþykkt þess. Það verður að teljast í hæsta máta undarleg ræða hjá frsm. meiri hl., sem mælir með samþykkt þessa frv. og er jafnframt formaður sjútvn. hv. d., að hann skuli leyfa sér að mæla með samþykkt frv. eftir að hafa lýst vinnubrögðum n. og þingsins að þessu frv., eins og hann hefur réttilega gert. Í sjálfu sér, ef við samþykkjum frv. óbreytt, er það alveg hárrétt hjá honum, að það er ekki hægt að sjá annað en að við séum um leið að setja lög, sem taka úr gildi þá milliríkjasamninga, sem nýbúið er að gera við Belga og Færeyinga. Auk þess verður það að teljast undarlegt, að mat þessa hv. þm., form. sjútvn., á þessu einstæða frv. sé, að það sé engu líkara en landhelgisnefndin svokallaða hafi notað vegakort Shell, þegar hún var að ákveða friðunarsvæðin. Hann bendir líka réttilega á, að friðunarkjaftæði sumra manna er auðvitað bara í nösunum á þeim. Það er mokað upp smáfiski upp víð landssteina víðs vegar um landið, en hins vegar er Faxaflóinn tekinn út úr. Það er eins og það sé hvergi til ungfiskur eða smáfiskur annars staðar en í Faxaflóa. Þetta er auðvitað alrangt, eins og ég mun koma að síðar.

Hv. frsm. meiri hl. minntist nokkuð á þær umsagnir, sem hefðu borizt n., og sagði, að þær væru allar á eina lund. Þetta er líka rangt hjá hv. þm. Á fundi n., þegar málið var til umr., lágu fyrir þrjár umsagnir hjá okkur, og ein þeirra var efnislega meðmælt því frv., sem ég flyt og er 13. mál á dagskránni í dag. Borgarstjórn Reykjavíkur mælir efnislega með því frv. Það er líka rangt hjá honum að halda því fram, að sú brtt., sem ég flyt við þetta frv., sé efnislega hin sama og kom fram í frv. mínu. Þetta er rangt líka, þessi till. gengur miklu skemur en frv. Þessi till. heimilar ráðh. að veita aðeins 8 bátum leyfi til þess að veiða neyzlufisk fyrir þéttbýlissvæðið við Faxaflóa, og það svæði, sem þeim er ætlað að veiða á, ef ráðh. vill heimila þetta, er miklu minna en lagt var til í frv. eða eins og var áður samkv. lögum um veiðar með botnvörpu og dragnót í Faxaflóa sem féllu úr gildi með l. frá því í apríl 1971.

Þegar þessu frv., sem fjallar um, eins og frsm. meiri hl. gat réttilega um, stærsta hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar, var dreift á Alþ. á síðustu dögum þingsins, var orðið áliðið dags. Það var mikill meiri hl. hv. þm., sem þá sá þetta frv. í fyrsta sinn. En það kemur fram í frv. og er tvíendurtekið í grg. þess, að n., sem samdi frv., hafi reynt að koma jafnt til móts við þarfir allra hagsmunahópa, hafandi jafnan í huga heildarhagsmuni landsmanna, einkum að vernda fiskstofna með nauðsynlegum friðunaraðgerðum.

Svo mörg voru þau orð. Þennan dag, s.l. mánudag, sem þessu frv. var útbýtt, voru hér stöðugir þingfundir allan daginn og með sáralitlum hléum. Málið var tekið fyrir á kvöldfundi, þegar sárafáir þm. voru viðstaddir, en afbrigði höfðu fengizt um málið í atkvgr. fyrr um daginn. Það kom í ljós í framsöguræðu formanns landhelgisnefndar og máli sjútvrh., að báðir vildu þeir félagar, að frv. yrði að umr. lokinni vísað aftur til áður nefndrar 5 manna n., fiskveiðilaganefndar, en ekki til þeirrar n. þingsins, sjútvn., sem skilyrðislaust á um mál þetta að fjalla. Virtist mér þá strax sem hér ætti að taka upp nýja siði á Alþ., sem væru sambærilegir við það, að frv. ríkisstj. væri ekki vísað til fastanefnda þingsins, heldur til ríkisstj. aftur, sem þá væntanlega mundi mæla með samþykkt þeirra, nema einstökum ráðh. hefði ekki verið kynnt efni þeirra, áður en þau voru lögð fram, sem manni virðist á nokkrum málum, sem hafa verið til umr. hér undanfarið, að hafi verið. Það kom fram gagnrýni á þessi vinnubrögð, og formaður landhelgisnefndar féllst á það að síðustu, að málinu yrði vísað til sjútvn. Hafa hv. þm. heyrt, hvernig að því var unnið þar, og er sú lýsing hárrétt, sem kom fram hjá formanni n., þótt það verði hins vegar að teljast í hæsta máta undarlegt, eftir að hann hefur lýst vinnubrögðum að málinu á þann veg, sem hann gerði, að hann skuli samt mæla með samþykkt þess.

Þegar frv. kom fram fullbúið frá þessari landhelgislaganefnd, þótti engum í n. nema mér ástæða til þess að leita umsagnar þeirra hagsmunaaðila, sem hlut eiga að máli. En þeir sögðu sem var, að eigin mati hefði verið hlustað á alla, sem hefðu hagsmuna að gæta, og þeir hefðu tekið inn í frv. bæði vit og réttlætiskennd, sem þeir teldu, að þar ætti að vera. Nú stenzt þetta ekki alveg, enda koma nú mótmælin unnvörpum frá ýmsum hagsmunaaðilum. Við höfum í dag fengið aths. frá Fiskifélagi Íslands. Alþingi Íslendinga sýnir ekki Hafrannsóknastofnuninni, okkar vísindamönnum, sem að þessum málum vinna, þá virðingu að senda þeim málið til umsagnar. Eftir því sem ég fæ bezt heyrt, er vitnað rangt í fulltrúa ákveðinna hagsmunahópa, sem hafa talað við n., og á ég þar við togaraskipstjóra og fulltrúa togaraútgerðarinnar, sem halda öðru fram en a.m.k. sumir nm. hafa haldið fram við mig. En þegar þess er gætt, að gildandi lög falla ekki úr gildi fyrr en 1. júlí n.k. og þm. allir eru á launum allt árið, hefði ég talið, eins og ég benti á í n., að það væri óhætt að hittast aftur eftir páska og ræða málið, eftir að hafa sent þeim aðilum það til umsagnar, sem þyrftu að fá að skoða það nánar. En þessi till. mín fékk engan hljómgrunn. Ég tel rangt að þessu farið og ég tek þar hjartanlega undir orð frsm. og formanns sjútvn., sem benti réttilega á það varðandi þetta mál og mörg önnur, sem koma nú fyrir augu þm. í fyrsta sinn, að það væri ekki frambærilegt að haga vinnubrögðum svona í þessum málum. Þetta telst ekki lengur til þingræðis, heldur til æðis, hjá hæstv. ráðh.

Ég tók það fram við 1. umr. málsins, að ég teldi, að þau störf, sem fiskveiðilaganefnd hefði unnið, væru vandasöm, það verður að viðurkennast, og allir hljóta að viðurkenna það. Þau eru ekki aðeins vandmeðfarin vegna þeirrar þýðingar, sem málið sjálft hefur fyrir efnahag þjóðarinnar, heldur vegna þess, að þau hagsmunasjónarmið verða alltaf sterkust á metunum, sem ráða hjá einstökum byggðarlögum, einstaklingum og hópum, sem telja sínum hag bezt borgið með notkun ákveðinna veiðarfæra og nýtingu ákveðinna miða. Þar í blandast líka bæði venjur og hefðir, sem erfitt er að útskýra nema að undangenginni rannsókn, t.d. hvernig á því stendur, að sum veiðarfæri eru meira nýtt á einum veiðistað en öðrum. Ég hef heyrt suma telja, að skýringar á þessu væru einfaldar og þessu réði t.d. fólksfæð á einum stað, en ekki öðrum, gerð og stærð báta, samningar um kaup og kjör og vegalengd úr heimahöfn á fiskimið og kannske síðast, en ekki sízt sú staðreynd, að það eru mörg mið, sem eru gjöful á línu og færafisk, þó að þar fáist ekki bein úr sjó í önnur veiðarfæri, og svo er þetta að sjálfsögðu öfugt. Þetta kom reyndar fram hjá frsm. meiri hl. áðan. En þetta er líka tímabundið. En maður hefði getað ætlað, að þegar fiskveiðilaganefnd skilar frá sér jafnviðamiklum till. og hér er verið að ræða um, reyni hún að gera almenningi, að ég tali ekki um okkur alþm., grein fyrir forsendum sínum, bæði fyrir því, sem leyfa á, og þeim boðum og bönnum, sem koma fram í þessu frv.

Þá þykir mér rétt að draga það fram líka, að að sjálfsögðu blandast inn í þetta mál yfirstandandi deila við okkar þýðingarmiklu viðskiptaþjóðir vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Ég verð að segja það, að ég dreg mjög í efa, að þessi lagasetning verði nokkurt hjálpræði í deilu okkar, nema síður sé. Ég geri ráð fyrir því, að við fáum nú harða gagarýni og andstöðu erlendra þjóða við útfærslu okkar, er þær sjá svart á hvítu ætlun okkar um að hagnýta einir það hafsvæði, sem nær út að 50 mílna mörkunum. Ég hefði álitið, að það hefði verið betra að bíða með slík lagaákvæði, þangað til samningaumleitanir ríkisstj. við Breta og Vestur-Þjóðverja hafa annaðhvort náð höfn eða verið endanlega afskrifaðar.

Eitt af meginatriðum frv. er það, að togskipum, sérstaklega hinum stærri, sem eru flest frá örfáum byggðarlögum, en fjölmennum, er ætlað miklu minna athafnasvæði á grunnmiðum en áður og eru, ef þetta frv. verður samþ., sviptir mjög þýðingarmiklum miðum, sem þau hafa notað undanfarin ár. Forsendan fyrir þessari tillögugerð n. er sú, að athafnasvæði togskipa muni stóraukast ef og þegar tekst að friða það, eins og hv. formaður fiskveiðilaganefndar sagði við 1. umr, málsins. Nú liggur sú friðun ekki fyrir enn, og virðist mér þá, að um nokkurt bráðlæti sé að ræða, þegar við höfum í huga, eins og ég sagði, að forsendan, sem er gefin fyrir þessari þýðingarmiklu ákvörðun, er alls ekki fyrir hendi. Sýnist mér, að þessi ástæða, auk annarrar, sem ég hef bent á, bendi til þess, að það eigi að fresta þessu máli, því að ég tel mjög hæpið, að togaraútgerð okkar þoli svona náðarhögg til viðbótar við fyrra tap á mjög þýðingarmiklum miðum, eins og var við útfærsluna 1958 og er ómótmælanlegt. Þá þykir mér það líka merkilegt, að n. virðist hunza með öllu ábendingar allra hagsmunaaðila á því svæði, sem telur um helming íbúa þjóðarinnar og er jafnframt ein stærsta verstöð landsins. Eigendur og skipstjórar hinna stærri togskipa eru sniðgengnir, útgerðarmenn hinna smærri vélbáta í Reykjavík og Keflavík eru sniðgengnir og álit borgarstjórnar í Reykjavík er virt að vettugi. Ég hefði satt að segja látið þetta afskiptalaust, ef jafnt hefði verið látið ganga yfir alla. En með þessu frv. á að mismuna þegnunum stórlega, og eins og ég tók fram við 1. umr., virðist n. telja, að friðunarsjónarmiðin eigi að ríkja á miðum hinna smærri Reykjavíkurbáta, en hagsmunasjónarmiðið fyrir önnur byggðarlög. Þá þarf ekki að hugsa um friðunarsjónarmiðin.

Það má benda á það, að þessi hv. n. virðist loka báðum augum, þegar á að drepa í dragnót og troll ýsuna, sem elst upp við Suðausturlandið og gengur vestur með landinu, eða þegar þessi sömu veiðarfæri drepa ungþorskinn, sem elst upp í kalda sjónum bæði norðanlands og austan. Þá kemur aftur að hinu sama, þá er allt í lagi með friðunarsjónarmiðin.

Þá hef ég áður bent á það, og rétt er að draga það fram enn einu sinni, að n. virðist líta á bann við notkun þessara veiðafæra í Faxaflóa sem trúaratriði. Hún tekur meira mark á blaðaskrifum gamalla útgerðarmanna, sem aldrei gátu gert út nema með tapi og gátu aldrei rekið sín frystihús skammlaust nema með afla dragnóta- og togveiðibáta, — hún tekur meira mark á blaðaskrifum slíkra manna en okkar vísindamanna. Og það má segja sem svo, að það sé oft og tíðum þannig með þessa hv. n., að hún taki meira mark á þeim mönnum, sem hafa mest vit á fiski með því að horfa á hann á eigin matardiski, en ekki eftir að hafa fengizt við að veiða hann. Það má líka taka það fram, að þessum sömu mönnum væri gott að hafa í huga, að það voru einmitt togveiðarfærin, sem komu íslenzku þjóðinni fyrst og fremst af því, sem einu sinni var kallað af einum af okkar vísindamönnum á þessu sviði steinaldarstig veiðimennskunnar, og inn í það, sem við búum við í dag, sem er nútímaleg og vísindaleg notkun bæði nýrra tækja og búnaðar á skipunum og veiðarfæra. Það er auðvitað orðinn mikill munur á þessum veiðarfærum í dag og var fyrir nokkrum árum, að ég tali ekki um áratugum.

Það vita auðvitað allir, og það situr sízt á mér að viðurkenna ekki þá staðreynd, sem hlýtur að blasa við öllum, að Faxaflóinn er þýðingarmikil uppeldisstöð. En það er ekki þar með sagt, að Faxaflóinn sé eldisstöð fyrir allt landið. Í því kemur fram mikill misskilningur, enda eru, eins og ég hef margoft tekið fram, bæði hrygningarsvæði og uppeldisstöðvar okkar nytjafiska í kringum allt land, þótt í misjöfnum mæli sé. Það eru fyrst og fremst okkar vísindamenn, sem hafa viðurkennt það, að um áhrif sjálfra togveiðarfæranna á viðgang fiskstofnanna sé ekki mikið vitað. Þó er það vitað, sem ég vitnaði í fyrir ekki mörgum vikum hér á Alþ., að í Norðursjó og Eystrasalti, þar sem nær eingöngu eru notuð togveiðarfæri til veiða á ýmsum tegundum þorskfiska, hefur á undanförnum árum orðið vart við stærri árganga þorsks og ýsu en nokkru sinni fyrr og veiði á þessum fisktegundum þar hefur verið með afbrigðum góð. Líka er viðurkennt, að mikið magn af þorsk- og ýsuseiðum veiðist í þau smáriðnu síldartroll, sem eru einmitt svo mikið notuð á báðum þessum hafsvæðum.

Ég vil endurtaka enn einu sinni, að bann við notkun á þessum veiðarfærum getur ekki á nokkurn hátt verið ráðandi um það, hver styrkleiki þessara stofna er, t.d. um klak þeirra eða uppvöxt. En það kemur auðvitað fram, að ef eitt stórvirkt veiðarfæri er bannað, hlýtur að veiðast meira í önnur veiðarfæri, eins og línu. En það er að sjálfsögðu vegna þess að sóknin með öðrum veiðafærinu minnkar eða hverfur alveg. Heildarsókn og heildarafli er auðvitað meginatriðíð, en ekki tegund veiðarfæra.

Svo kemur að því stóra máli, sem er eilíft bitbein hjá okkur. Það er um það, hvaða veiðarfæri eigi að meta mest, hvað sé hagkvæmast. Ég held, að það fáist ekkert svar við þeirri spurningu með því að telja slík veiðarfæri aðeins hættuleg á Faxaflóa, en ekki annars staðar í kringum landið. Það held ég, að sé alrangt.

Því hefur verið haldið nokkuð fram upp á síðkastið, að ýsustofninn við Faxaflóa hafi farið minnkandi á undanförnum árum, sérstaklega þegar bæði var leyft að veiða með trolli og dragnót. En öllum vísindamönnum ber saman um það, sem hafa rannsakað málið, að það hafi nú um langt árabil enginn sterkur ýsuárgangur komið fram. Það verður auðvitað alltaf að hafa í huga að reyna að fyrirbyggja, að það geti orðið um of mikla veiði að ræða, og það getur auðvitað verið á öll veiðarfæri. Og eins og ég hef margoft sagt, tel ég hættulegasta veiðarfærið skilyrðislaust vera netin á hrygningartíma og á hrygningarsvæðum. En þessari eiflífu spurningu um hagkvæmni veiðarfæranna verður að sjálfsögðu ekki svarað með því að mismuna mönnum eftir því, hvar þeir eru búsettir, heldur með því að skipta veiðisvæðunum eftir veiðarfærum, eða hafa ákveðin svæði fyrir ákveðin veiðarfæri. Þannig að ekki þurfi að koma til árekstra þar og hver aðili, sem að þessu þarf að vinna og vill vinna, geti nýtt það veiðarfæri, sem hann telur hagkvæmast.

Auðvitað mætti fara út í einstakar gr. í frv. hv. frsm. meiri hl. tók af mér það ómak að minnast á ákvæði 1. gr., sem hann telur jafnvel að komi í veg fyrir það, að samningarnir við Belgi og Færeyinga séu í gildi, eftir að frv. hefur verið samþ. En það er eitt atriði, sem mig langar til að fara um nokkrum orðum við þessa umr. Ég skal, herra forseti, stytta mál mitt eins og ég get, því að ég veit, að það eru mörg fleiri mál, sem þurfa að koma fyrir og tími orðinn naumur. — Það eru stærðarmörk skipanna, sem koma fram í frv., og að sjálfsögðu eru þessi stærðarmörk fiskveiðilaganefndar algerlega út í bláinn. Það væri í sjálfu sér verðugt rannsóknarefni að kanna, hvort nm. hafi hallazt að þessum stærðarmörkum ekki aðeins vegna flota ákveðinna verstöðva, heldur kannske líka vegna ákveðinna skipa. Það væri full ástæða til þess að láta fara fram nokkra könnun á þessu atriði. Þá tel ég rétt að benda þessari hv. n. á, að það er hægt að mæla skip niður fyrir 350 brúttórúmlestir, þó að það sé, skv. eldri mælingu kannske 600–700 brúttórúmlestir. Og auk þess er stærðin á þeim sjálfum auðvitað ekkert mark um veiðimöguleika togveiðiskipa. Auðvitað hefur stærð nokkuð að segja og er þýðingarmikið atriði, það skal ég viðurkenna. En það eru kraftur vélarinnar og stærð veiðarfærisins, sem hafa kannske miklu meira að segja, ef bátur eða skip er það vel búið vélarafli, að það geti farið á góðum botni með stórt veiðarfæri yfir stærra svæði en hið stærra skip. Það má segja líka um 105 brúttórúmlesta markið, að það er líka algerlega út í hött. Það var mitt mat, þegar það var sett inn í l. á sínum tíma, að það mundi valda stórtjóni í þróun byggingar okkar fiskveiðiflota, og er enginn vafi, að svo er. Hefði þá verið betra að hlíta ráðum þeirra, sem betur þekktu til úr röðum sjómanna á þeim tíma, þegar verið var að ákveða þetta.

Mér hefur þótt það nokkuð merkilegt, að skv. frv. er hægt að færa þessi einu og sönnu mörk, sem í frv. er lagt til að gildi fyrir togveiðar, til með ráðherrabréfi, ef t.d. hafís hamlar veiðum á leyfðu svæði. En þótt þetta sé leyft, hefur ráðh. enga heimild til þess að leyfa takmarkaða veiði með takmörkuðum fjölda skipa í takmarkaðan tíma á neyzlufiski hér fyrir höfuðborðarsvæðið. Það er alveg forboðið.

Þá hef ég aths. að gera við 9. gr.; en samkv. henni á ráðh. að ákveða með reglugerð eitt og annað, eins og þar er upp talið, og þ.á.m. möskvastærð slíkra togveiðarfæra. Ég hefði talið, að þetta ætti að vera bundið lögum og það mundi kannske vekja verðuga eftirtekt erlendis. Ég held, að við Íslendingar höfum gengið hvað lengst í þessu efni og vakið eftirtekt, þ.á.m. þeirra vísindamanna, sem þessi mál rannsaka erlendis og fylgjast með.

Þá er ráðh. heimilt skv. 10. gr. að leyfa dragnótaveiði á tilteknum svæðum, nema Faxaflóa, í tiltekinn tíma, og eru dragnótalögin frá 1971 felld úr gildi, um leið og þessi lög taka gildi. Með þessari ákvörðun, ef frv. verður samþ., eru áhrif frá sveitarstjórnunum þurrkuð út. Þær hafa ekki neitt um það að segja lengur, hvorki til meðmæla né mótmæla, hvort þessar veiðar eigi að leyfast. Hins vegar ber ráðh. að leita álits Hafrannsóknastofnunarinnar þar um. Þessi hv. n., fiskveiðilaganefndin, virðist í samræmi við hljóðan þessarar gr. hafa ofsatrú á viti og þekkingu hæstv. sjútvrh., bæði í veiði- og verndunarmálum okkar. Ég ætla ekki að draga í efa, að svo sé, og það er þess vegna, sem ég hef leyft mér að bera fram þessa brtt., sem hefur verið útbýtt og hefur verið lýst, á þskj. 684. Þar legg ég til, að við 2. gr., E-lið, Reykjanes- og Faxaflóasvæði, bætist, að þrátt fyrir ákvæði þessarar gr., sé ráðh. heimilt að veita 8 bátum, sem eru af takmarkaðri stærð, eða ekki stærri en 70 brúttórúmlestir, leyfi til þess að veiða neyzlufisk fyrir þéttbýlissvæðið við Fasaflóa um takmarkaðan tíma á hverju ári með þessum botnveiðarfærum og að þau megi veiða á þeim svæðum, sem var leyft að veiða á eftir eldri l., sem féllu niður við samþ. l. um bannið hér í Faxaflóa vorið 1971. Það er þá í hans hendi að meta þetta eins og annað, sem honum er falið að meta í sambandi við framkvæmd l., og hann mundi að sjálfsögðu leita til þeirra vísindamanna, sem um þetta mál eiga að tjá sinn hug.

Herra forseti. Í ljósi þess, sem ég hef sagt hér, og þeirra raka, sem ég hef dregið fram, hefði ég talið, að það væri engin goðgá, þótt frv. væri frestað fram á haust, og það sent til umsagnar allra þeirra hagsmunaaðila, sem hlut eiga að máli og vilja gjarnan fá að tjá sig þar um. Gildandi lög falla ekki úr gildi fyrr en 1. júlí, og ef hæstv. ráðh. og aðrir teldu, — og ég er einn af þeim, — að það þyrfti að gera einhverja beturumbót á þeim l., má gera það á þessum tíma, sem eftir er af alþ., en taka málið fyrir aftur í haust, eftir að búið er að kanna það ítarlega, og samþ. það fyrir næstu áramót. Við þyrftum þá ekki annað en að framlengja l., sem falla úr gildi 1. júlí, til 31. des., því að það er ekkert, sem kallar á að samþ. þetta frv. nú. Auk þess er það þinginu til stórvansa að samþ. það í því formi, sem það er lagt fyrir hv. Alþ, að þessu sinni. Auk þess teldi ég ærna ástæðu til þess, að sjútvn. d. kæmi aftur saman til þess að skoða þær ábendingar, sem hafa komið fram frá Fiskifélagi Íslands.

Ég endurtek þá skoðun mína, sem ég lét koma fram í n. á þeim eina stutta fundi, sem þar var haldinn til að ræða málið, að það mundi a.m.k. ekki saka, þótt þm. kæmu saman eftir páska til þess að ganga frá þessu máli, sem ég hef löngum sagt, að sé þýðingarmesta mál íslenzku þjóðarinnar.