12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu formanns fjh.- og viðskn., þessarar d., flytur n. sameiginlega brtt. á þskj. 691. Er hér um að ræða nokkrar hagsbætur til handa öldruðum og öryrkjum frá því, sem ákvæði brbl. gerðu ráð fyrir. Hér er um að ræða hækkun á hinum sérstaka frádrætti, sem þar er ákvarðaður, og auk þess er lagt til, að skattvísitalan verði látin ná til þessara upphæða eins og þeirra, sem skattalögin gera ráð fyrir.

Við 2. umr. þessa máls freistuðum við Sjálfstæðismenn þess að ná nokkru meiri hagsbótum til handa öldruðum og öryrkjum með því að leggja til, að ellilífeyrir og örorkubætur samkv. almannatryggingalögunum frá 1971 yrðu skattfrjálsar, en það náði ekki fram að ganga. Ég lýsti því þá yfir, að við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. mundum freista þess að ná samstöðu í n. um hækkun á þeim frádráttarliðum, sem brbl. gera ráð fyrir, auk þess sem við mundum freista þess að fá lögfest, að þessar upphæðir skyldu háðar þeirri skattvísitölu, sem ákveðin er hverju sinni. N. flytur brtt. þar að lútandi, og teljum við, að með því hafi náðst þó nokkur árangur, en við töldum, að gera þyrfti betur í sambandi við þessi brbl.

Varðandi brtt. Guðlaugs Gíslasonar o. fl. mælum við fulltrúar Sjálfstfl., ég og hv. 2. þm. Vestf., með henni, svo og með þeirri brtt., sem hæstv. sjútvrh. flutti við 2. umr. og var dregin til baka til 3. umr.