12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Till. sú, sem ég hef flutt á þskj. 670, miðar að því að tryggja, að sjómenn hafi þau skattfríðindi, sem þeim voru ætluð með l., þótt um vissa breytingu sé að ræða við framkvæmd á greiðslu slysatryggingariðgjalda sjómanna, eins og nú hefur orðið. Í 1. málsgr. 14. gr. l. er ákveðið, að frádrátturinn sé 800 kr. á mánuði og miðast við þann vikufjölda, sem þeir eru háðir greiðslu slysatryggingariðgjalda sem sjómenn. Þetta hefur verið túlkað þannig í framkvæmd, að telja skuli saman þær slysatryggingarvikur sjómanna, sem greitt er iðgjald af til trygginganna, þ.e.a.s. eftir hæsta iðgjaldaskala. En nú hefur framkvæmdin orðið þannig víða við útgerð, að sjómenn eru afskráðir, þegar skipið kemur að landi, og eru ekki taldir formlega sem sjómenn, þó að þeir séu ráðnir hjá útgerðinni, í nokkra daga jafnvel í hverjum mánuði, og þá er annað slysatryggingargjald greitt af þeim þann tíma. Af þessum ástæðum verður það svo, þegar þessi háttur er hafður á um framkvæmdina, að viðmiðunartíminn verður miklu styttri en áður var og sjómennirnir ná ekki þeim tilskilda tíma, sem gert er ráð fyrir í l., til þess að njóta þeirra skattfríðinda, sem hér er um að ræða. Till. mín miðar að því að tryggja, að sjómennirnir tapi ekki þessum rétti frá því, sem áður var. Breytt er aðeins um orðalag, þannig að nú er sagt, að það skuli miða við greiðslu slysatryggingariðgjalda hjá útgerðinni, enda séu mennirnir ráðnir sem sjómenn til útgerðarinnar. Ég hef borið þetta orðalag undir ríkisskattstjóra, og hann telur, að það eigi að vera nægilega skýrt til þess að tryggja, að allan þann tíma, sem þessir sjómenn eru ráðnir hjá útgerðinni sem slíkir, eigi að leggja til grundvallar, þegar út frá því er gengið, hvort þeir eigi að njóta þess skattfrelsis, sem greinin annars gerir ráð fyrir.

Ég fagna því, að það er tekið undir þessa till. af öllum, og vænti ég þá, að þessi leiðrétting á framkvæmd l. nái fram að ganga.