12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3440 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

Almennar stjórnmálaumræður

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Um langt árabil, áður en núv. ríkisstj. komst til valda, var hér um að ræða verulegt atvinnuleysi. T.d. var tala atvinnulausra hátt á þriðja þúsund í janúar 1970, svo að dæmi sé nefnt. Þetta ástand átti alveg sérstaklega við um ýmis byggðarlög úti á landsbyggðinni, þar sem atvinnuleysi í stórum stíl var landlægt. Á þessu hefur nú orðið og er að verða alger breyting. Nú er ástandið þannig, að aldrei hafa verið færri á atvinnuleysisskrá, Frá því að skráning hófst. Í stað atvinnuleysis vantar nú víðast hvar starfsfólk í ríkum mæli.

Það er rétt, að menn geri sér ljóst hvað hefur skipt svo sköpum. Stefna ríkisstj. í atvinnumálum hefur alger úrslítaáhrif. Stærra og öflugra átak hefur verið gert í atvinnumálum okkar en nokkru sinni alveg sérstaklega í þeim byggðarlögum, þar sem áður ríkti lakast ástand. Þau byggðarlög hafa nú verið og eru að eignast atvinnutæki, stórvirkari en þau hafa áður átt. Einmitt þessa dagana eru sum þeirra að fagna komu þessara glæsilegu atvinnutækja. Hér á ég að sjálfsögðu við þau stórfelldu skuttogarakaup, sem gerð hafa verið af stórhug og framsýni. Ég nefni það, að á Austurlandi verða gerðir út á næstunni 8 skuttogarar í eigu jafnmargra byggðarlaga, á Norðurlandi 12 skuttogarar í eign 7 byggðarlaga og á Vestfjörðum 6 skuttogarar í eigu 4 byggðarlaga. Þessi atvinnutæki eru beinlínis keypt með það fyrir augum að tryggja atvinnu árið um kring einmitt á þeim stöðum, sem fólk hefur flúið frá áður sakir ónógrar atvinnu. Það er fyllilega rétt að undirstrika það einnig, að til sumra þessara byggðarlaga hefur því aðeins verið kleift að kaupa þessi skip, að heimaaðilar hafa við kaupin notið verulegs aukastuðnings frá byggðasjóði, en eitt fyrsta verk ríkisstj. var að koma á þeim sjóði í stað atvinnujöfnunarsjóðsins. Og haldi menn, að hér hafi aðeins verið um nafnbreytingu að ræða, eru um viðhorf ríkisvaldsins til þessara mála skýrar tölur, er sýna mismuninn nú og undir viðreisn. Ríkissjóður lagði atvinnujöfnunarsjóði beint til 15 millj. kr. síðasta ár viðreisnar, til byggðasjóðs fara á þessa árs fjárlögum 100 millj. kr. beint úr ríkissjóði. Tölurnar tala sínu máli.

En skuttogararnir eru aðeins önnur hlið þessa máls. Samhliða þessum kaupum er verið að gera stórátak í frystihúsabyggingum víðs vegar um land, svo að frystihúsin séu fær um að taka við hinum auknu verkefnum. Ég nefni sem dæmi, að á Austurlandi hefur verið ákveðin nýbygging fjögurra frystihúsa, og svipaða sögu er að segja víða frá Norðurlandi. Auk þess er um að ræða stórframkvæmdir víða um land í endurnýjun og fullkomnun frystihúsanna. Öll þessi nýju verkefni kosta eðlilega mikið fjármagn, en núv. stjórnvöld hafa þá trú á okkar innlendu atvinnuvegum, að þau trúa því fullkomlega, að það fjármagn skili sér margfallt til baka í aukinni verðmætasköpun, aukinni atvinnu fólks í órofa tengslum við endanlegan sigur okkar í landhelgismálinu.

Það dylst engum, að hér er um hreina byltingu í atvinnumálum landsbyggðarinnar að ræða. Hér er verið að leggja grunn að því margumtalaða byggðajafnvægi í reynd, í verki. Í kjölfar þessa hafa svo fylgt stórkostlega auknar framkvæmdir í hafnarmálum hinna ýmsu staða landsbyggðarinnar, uppbyggingin þar hlýtur að haldast í hendur við aukningu atvinnutækja og bætta vinnslumöguleika. Ný hafnalög munu hér einnig valda gerbreyttri aðstöðu sveitarfélaga og tryggja fjárhagslegan grundvöll framkvæmdanna enn betur en verið hefur.

Framkvæmdir í vegamálum landsbyggðarinnar hafa aldrei verið meiri en nú, og til viðbótar við veigamikil verkefni á Austurlandi, Norðurlandi og á Vestfjörðum er svo stórframkvæmdin við hringveginn. Séu framkvæmdir í vegamálum í heild athugaðar, kemur það einnig áberandi í ljós, að nú er einmitt meginþunginn í vegaframkvæmdum úti á landsbyggðinni, þveröfugt við það, sem oft hefur verið. Einnig hér hafa orðið ánægjuleg straumhvörf.

Á næsta ári á rafvæðingu sveitanna að ljúka samkvæmt þeirri þriggja ára áætlun, er ríkisstj. setti í upphafi valdaferils síns. Sú áætlun verður látin standast, og þar með verður einu mesta hagsmunamáli sveitanna komið í örugga höfn.

Þessa dagana er verið að fjalla um eitt stærsta og þýðingarmesta hagsmunamál okkar úti á landsbyggðinni, heilbrigðisþjónustuna. Við það frv. eru miklar vonir margra bundnar. Það skal vonað, að með því skipulagða kerfi heilbrigðisþjónustu, sem upp á að koma, megi takast sem allra fyrst að leysa þann örðuga þátt í lífsbaráttu fólks úti í hinum dreifðu byggðum, sem fallizt hefur í öryggisleysi læknaskortsins. Til framkvæmda á þessu sviði hefur á stjórnarárum núv. ríkisstj. verið varið stórkostlega auknu fjármagni. Til framkvæmda í heilbrigðismálum utan Reykjavíkur var varið 56 millj. árið 1971, á þessu ári er upphæðin 135 millj. Hvað sem öllum verðhækkunum líður, er hér um hreina byltingu að ræða.

Þess er sannarlega rétt að minnast, þegar stjórnarandstaðan er að ærast út af aukningu ríkisútgjaldanna, að þá eru þessir sömu herrar að mæla á móti þessum auknu framlögum til hafna, til vega, til heilsugæzlustöðva, að ekki sé nú talað um hina gífurlegu stökkbreytingu, sem orðið hefur í framlögum til tryggingamála og ýmislegra félagslegra umbóta. Hér hefur sannarlega verið brotið blað. Í stað áratuga orðræðna um byggðastefnu og byggðajafnvægi er nú af stórhug verið að framkvæma byggðastefnu, koma á byggðajafnvægi. Að þessu lýtur einnig sú stefna ríkisstj. að freista þess að flytja sem mest af starfsemi ríkisins út á landsbyggðina, stuðla að stóraukinni valddreifingu í ríkiskerfinu, en um það munu væntanlega lagðar ítarlegar till. fyrir næsta þing.

Byggðastefna í verki er fólki ólíkt dýrmætari en fjálglegar orðræður um þessi efni. Öll stór orð og hávaði stjórnarandstöðunnar fær ekki haggað þessari staðreynd. Það er því rík ástæða til þess fyrir landsbyggðarfólk til sjávar og sveita að slá skjaldborg um þessa ríkisstj., því að stjórnarandstaðan er sannarlega hávaðasöm og sparar ekki stór orð um hrun og auðn. Menn hafa í kvöld fengið að kynnast nokkrum tilbrigðum í þeirri strandsinfóníu.

En stjórnarandstöðunni er sannarlega nokkur vorkunn, henni er af eðlilegum ástæðum dimmt fyrir augum. Þrátt fyrir ýmiss konar gagnrýni almennings, sem reyndar er hverri ríkisstj. holl og nauðsynleg, er ein staðreynd ofar öðrum. Hún er svo sannarlega ljós þeim, sem nú una utan garðs. Það er ekki óskað eftir því, að þeir taki við stjórnartaumunum. Svo mikill er máttur mannlegrar gleymsku ekki, að íslenzk alþýða hafi ekki rækilega í minni athafnir þeirra og afglöp, af þeim fékk hún dýrkeyptari reynslu en svo, að hún vilji kalla slík örlög yfir sig á ný. Fólkið í landinu vill, að þessi ríkisstj. haldi áfram forustu í landhelgismálinu og leiði það til fulls sigurs. Það styður heilshugar þá innlendu atvinnuuppbyggingu, sem hvarvetna sér glæsileg merki. Ríkisstj. er sannarlega treyst til þess að halda áfram þeim stórfelldu verkefnum í félagslegum efnum, sem við er fengizt. Allt launafólk treystir því einnig, að þessi ríkisstj. tryggi því áfram þann aukna kaupmátt launa, sem er staðreynd í dag. Þessari ríkisstj. er einnig treyst til þess, ekki hvað sízt af æskunni í landinu, að hún losi okkur við óþrifin á Miðnesheiði. Til varðstöðu um þessi mál er Alþb. treyst fyrst og fremst af eðlilegum ástæðum sem róttækasta og framsæknasta aflinu innan stjórnarinnar. Já, stjórnarandstöðunni er því vorkunn að heyra í eyrum sér bergmála rödd fólksins í landinu, er það jafnhliða þessu hefur uppi þá heitstrengingu dýrasta: Aldrei aftur viðreisnarstjórn ! — Góða nótt.