12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (2988)

Almennar stjórnmálaumræður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Vertíðarlok eru fyrir dyrum hér á Alþ. Við slík tímamót er vissulega ástæða til að staldra við, horfa um öxl og kanna, hvað gerzt hefur á liðnum vikum og mánuðum.

Fyrir röskum mánuði var útvarpað héðan frá hv. Alþ, umr. um þáltill. sjálfstæðismanna um vantraust á ríkisstj. Ég held, að vart hafi í annan tíma nokkur stjórnarandstaða staðið verr að vígi um flutning slíkrar till. Þessi tillöguflutningur þeirra sjáifstæðismanna er að mínu mati allrar athygli verður, ekki vegna þess, að þeir skyldu manna sig upp í slíkt, heldur vegna hins, að í þeim málatilbúnaði voru stjórnarandstæðingar sundraðir. Alþfl. fékkst nefnilega ekki til þess að standa að flutningi vantrauststill. með Sjálfstfl. Það eitt sýnir, að hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, og hans liði er ekki alls varnað. Hver var svo málflutningur stjórnarandstöðunnar í þessum umr.? Sjálfsagt hefur enginn búizt við því, að hún blessaði hæstv. ríkisstj. í bak og fyrir, enda kom annað á daginn. Ég minnist ekki neins, ekki eins einasta verks, sem þeir töldu ríkisstj. hafa vel unnið. Þetta heyrðuð þið, hlustendur góðir, endurtekið í kvöld af varaformanni Sjálfstfl. Ég spyr ykkur hv. tilheyrendur. Er slíkur málflutningur á borð berandi fyrir nokkurn viti borinn mann? Ég tel hann móðgun við þá, sem á hlýða, nema því aðeins að þessir aðilar ætlist ekki til þess, að mark sé á þeim tekið.

Þegar sjálfstæðismönnum var ljóst, að upphlaup þeirra með flutningi vantrauststill. hafði mistekizt, töldu þeir nauðsyn bera til annarra ráðstafana, og fyrir valinu varð allsherjar fundarboðun í flestum eða öllum kjördæmum landsins undir kjörorðinu: „Höldum vörð um þjóðarheill“. Ekki er mér gerla kunnugt um eftirtekjur þessarar fyrirhuguðu þjóðarvakningar, en þar sem ég þekki til, voru undirtektir hinar dræmustu. Varla kemur á óvart, þó að undirtektir almennings undir málflutning þeirra stjórnarandstæðinga séu dræmar. Ferill þeirra í viðreisnarstjórn í 12 ár er mönnum ekki gleymdur.

Eitt af árásarefnum stjórnarandstæðinga á ríkisstj. er, að hún skyldi beita gengislækkun til lausnar þeim efnahagsvanda, sem við blasti í efnahagsmálum á síðasta hausti. Vandlæting þeirra manna, sem framkvæmt hafa mestu gengisfellingar, sem gerðar hafa verið hér á landi, út af gengisfellingu, sem nemur 10,7%, hlýtur að stafa af því, að hún sé á einhvern hátt á annan veg en þær gengisfellingar, sem þeir sjálfir stóðu að. Það er einmitt staðreynd, að meginmunur er á síðustu gengisfellingu og þeim, sem þeir félagar Jóhann og Gylfi stóðu að. Þetta undirstrikaði líka varaformaður Sjálfstfl. hér áðan. Nú héldu launþegar fullum vísitöluuppbótum á laun, en í tíð viðreisnar var það viðtekin venja, að gengisfellingu fylgdi afnám vísitölubóta. Andstaða þeirra sjálfstæðismanna og Alþýðuflokksmanna við gengisfellinguna í des. s.l. hlýtur að byggjast á þessum mun.

Stjórnarandstaðan og málgögn hennar hafa gert sér mikinn mat úr því, að hv. 6. þm. Norðurl. e. og ég höfum verið ósammála ríkisstj. um ráðstafanir vegna jarðeldanna á Heimaey, svo og vegna frv. ríkisstj. um að breyta greiðslu verðlagsuppbóta á laun, þ.e. hins margumtalaða vísitölufrv. Ekki undrar mig, þó að það þyki tíðindum sæta í þeim herbúðum, að einstakir þm. lúti ekki í einu og öllu forskriftum forustunnar, burt séð frá þeirra eigin sannfæringu. Kjarni málsins er einmitt sá, hvort einstakir þm. eigi að hlíta ákvörðunum að ofan í hverju sem er. Brýtur það ekki í bága við þann eið, sem þm. gangast undir? Á því tel ég ekki nokkurn vafa. En það er rétt, að við Björn Jónsson vildum fara aðrar leiðir en hæstv. ríkisstj. til lausnar þess vanda, sem náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum valda. Við töldum eðlilegast, að landsmönnum væri gert að greiða það, sem þyrfti, án þess að brugðið væri gildandi kjarasamningum. Á þetta var fallizt, og ég tel, að afgreiðsla Alþ. á þessu máli, sem gerð var ágreiningslaust, hafi verið því til sóma.

Um vísitölumálið er það að segja, að efni þess frv. er það að nema brott úr kaupgjaldsvísitölu nokkur stig, sem verðhækkunum valda. Hér er efnislega um að ræða sama mál og rætt var hér á Alþ. haustið 1970. Þá stóðu núv. stjórnarandstöðuflokkar að vísitöluskerðingu á útborguð laun. Núv. stjórnarflokkar, sem þá voru í stjórnarandstöðu, börðust réttilega á móti því. Nú hafa orðið hlutverkaskipti. Það, sem núv. stjórnarandstaða taldi sjálfsagt 1970, telja þeir nú óverjandi og kalla öllum illum nöfnum. Hitt kemur mönnum kannske meira á óvart, að sumir þeirra, sem börðust gegn vísitöluskerðingu árið 1970, skuli nú telja hana réttlætanlega. Er furða, þó að mönnum þyki slík vinnubrögð tíðindum sæta? Ég er viss um, að þið, hlustendur góðir, ætlizt til annarra vinnubragða en þeirra, sem hér hefur verið lýst. Núv. forseti Alþýðusambands Íslands var einn þeirra, sem barðist gegn þessum vinnubrögðum haustið 1970, og verkalýðshreyfingin í heild snerist gegn málinu þá eins og ávallt. Það sama gerðist nú. Verkalýðshreyfingin hefur barizt og mun berjast gegn því, að stjórnvöld breyti gildandi kjarasamningum með lagaboði. Með því er vegið að samningsréttinum, sem er einn af hyrningarsteinum verkalýðshreyfingarinnar. En þetta gerði viðreisnarstjórnin undir forustu þeirra Jóhanns og Gylfa og ekki bara einu sinni, heldur oftar. Nú telja þessir stjórnmálaspekúlantar sig þess umkomna að deila á þessi sömu vinnubrögð. Fullyrðingar þessara manna um þetta mál falla dauðar og ómerkar, nema jafnframt fylgi syndakvittun þeirra vegna slæmrar fortíðar.

Telji stjórnvöld þess þörf að skerða laun, þá þarf það að gerast með öðrum hætti. Þá þarf að byrja ofan frá og minnka fyrst hjá þeim, sem hæstu launin hafa, og koma í veg fyrir spillingu í kerfinu, álíka þeirri, sem ríkir varðandi hæstaréttardómara, þar sem sú regla gildir, að þeir hafa í laun á þriðja hundrað þúsund á mánuði, eftir að þeir hætta störfum. Þótt þetta eina dæmi sé nefnt, mætti nefna mörg fleiri. Gegn þessu og öðru álíka ber að snúast fyrst, áður en farið er að tala um að skerða laun hinna lægst launuðu. Vissulega þarf að endurskoða vísitölukerfið. En slíka endurskoðun á að framkvæma í tengslum við gerð almennra kjarasamninga, fyrir því er verkalýðshreyfingin opin. Þá þarf einnig að lagfæra hið sjálfvirka kerfi, sem er þess valdandi, að þeir, sem hæstu launin hafa, fá margfaldar uppbætur á við þá lægst launuðu.

Sumir stjórnmálamenn virðast þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé, að verkalýðshreyfingin taki mismunandi afstöðu til mála eftir því hverjir sitja í stjórn landsins. Ég tel það fyrst og fremst ógreiða við stjórnvöld, ef verkalýðshreyfingin fer að reyna að gera þeim einhvern ímyndaðan greiða með því að hvika frá stefnu sinni í grundvallarmálum. Verkalýðshreyfingunni ber að marka sína stefnu og halda henni fram gagnvart stjórnvöldum og öðrum. Telji hreyfingin, að stefna stjórnvalda leiði til ófarnaðar, ber henni fyrst og fremst að reyna að beita viðkomandi stjóravöldum inn á réttar brautir.

Verkalýðshreyfingunni ber að viðurkenna þau verk hverrar ríkisstj., sem eru til hagsbóta fyrir félagsmenn hreyfingarinnar. En á sama hátt hlýtur hún að berjast gegn sérhverjum áformum ríkisvaldsins, sem beint er gegn sömu hagsmunum.

Það er vissulega fagnaðarefni fyrir launþega, þegar að völdum sezt ríkisstj., sem hefur að yfirlýstri stefnu að starfa fyrst og fremst með hagsmuni þeirra fyrir augum. En engin ríkisstj. verður betri eða verri en hennar verk eru, hvað sem allri stefnu líður. Vissulega hefur margt áunnizt í tíð núv. ríkisstj., sem ástæða er fyrir verkalýðshreyfinguna að fagna. Kaupmáttur hefur farið vaxandi og er ekki ástæða til annars en að ætla, að allir möguleikar séu á því, að hann geti enn aukizt á næstu missirum. Aflabrögð á loðnuvertíð og verð á sjávarafurðum eru með þeim hætti, að tilefni gefast til slíkrar ályktunar. Til þess að sýna, hver búbót þjóðarbúinu er að hinum mikla loðnuafla á yfirstaðinni vertíð samfara mjög háu útflutningsverðmæti loðnuafurða, nægir að nefna, að verðmætaaukning loðnuafurða frá fyrra ári svarar til tvöfalds verðmætis útfluttra sjávarafurða frá Vestmannaeyjum á s.l. ári. Verðlag á sjávarafurðum hefur einnig stigið mjög á síðustu mánuðum. Síðasta dæmið eru nýgerðir samningar um sölu á saltfiski, þar sem verðlagshækkun er allt að 35%. Umtalsverð hækkun hefur einnig átt sér stað á frystum fiski. Það virðist því fullkomlega ástæðulaust að missa kjarkinn að því er varðar varðveizlu kaupmáttar á næstu mánuðum og full ástæða til bjartsýni um hag alls almennings og þjóðarinnar í heild á næstu missirum.

Á þingi því, sem nú er að ljúka, hafa vissulega mörg merkileg mál verið lögð fram. Ég nefni hér nokkur dæmi um mál, sem hafa verið afgreidd sem lög frá Alþ. eða ætla má að verði afgreidd á þinginu. Ég nefni fyrst orkuver á Vestfjörðum. Samkv. því er heimiluð frekari stækkun Mjólkárvirkjunar, sem var orðin mjög brýn, og verða raforkumál Vestfjarða þar með leyst um sinn. Ég nefni lög um dvalarheimili aldraðra. Þar er viðurkennd þátttaka ríkisins í stofnun og rekstri dvalarheimila fyrir aldraða. Má vænta, að samþykkt þess verði til að ýta undir það, að sveitarfélög byggi dvalarheimili, en þörf fyrir þau er víða brýn. Ég nefni hafnalög. Frv. til nýrra hafnalaga hefur verið afgreitt, en samkvæmt því er þátttaka ríkisins í byggingu hafna stórlega aukin. Er þess að vænta, að með samþykkt þess frv. dragi úr því ófremdarástandi, sem verið hefur í hafnamálum víða um land. Ég nefni heildarlöggjöf um heilbrigðismál, þar sem m.a. er nýskipan læknishéraða, ákvörðun um heilsugæzlustöðvar og ákveðið, að ríkisframlag til byggingar þeirra og sjúkrahúsa verði 85% af kostnaði. Bindur landsbyggðarfólk miklar vonir við, að þetta frv. komi til með að breyta ástandi heilbrigðisþjónustu mjög til betri vegar, og er ekki vanþörf á. Löggjöf um fjölbrautskóla er stórt skref í þá átt að tengja betur en verið hefur skóla og atvinnulíf, og er það liður í heildarendurskoðun fræðslukerfisins. Að síðustu vil ég svo nefna frv. um húsnæðismál, sem væntanlega kemur til með að breyta ófremdarástandi í húsnæðismálum í hinum dreifðu byggðum landsins. Frv. gerir ráð fyrir hækkun lána húsnæðismálastjórnar úr 600 í 800 þús. kr., og í frv. felst einnig sú breyting að veita lán til byggingar leigubúða á vegum sveitarfélaga, sem nemi 80% af byggingarkostnaði. Hér er um að ræða útvíkkun á hinu svokallaða Breiðholtskerfi, sem ætlað er að nái nú til þeirra sveitarfélaga, sem ekki byggðu íbúðir samkvæmt því kerfi. Á næstu fimm árum verði veitt lán til byggingar 1000 íhúða, en það svarar til þess, að hvert bæjarfélag geti byggt eina íbúð á hverja 8 íbúa, eða að sveitarfélag með 1000 íbúa geti byggt 12 1/2 íbúð á þessum kjörum.

Þegar Breiðholtsframkvæmdirnar voru ákveðnar árið 1965, var það hreint hnefahögg framan í íbúa landsbyggðarinnar, þar sem samkvæmt því voru höfuðborgarbúum veitt sérstök hlunnindi í lánum fram yfir aðra landsmenn. Á tíma viðreisnarstjórnar var einnig gerð önnur breyting í sömu átt. Þar er átt við breytingu á lögum um verkamannabústaði, sem gerði það að verkum, að í reynd gátu hin fámennari sveitarfélög aðeins byggt 1/2 til 11/2 íbúð á ári og framlög þeirra vegna byggingar verkamannabústaða voru stórhækkuð frá því, sem áður var. M.ö.o. sú stefna, sem viðreisnarstjórnin innleiddi í húsnæðismálum, var sérstakt kerfi fyrir Reykjavík með hagstæðum lánum, en mun lakari kjör fyrir aðra landsmenn, auk þess sem þeim var gert erfiðara um vik með byggingu verkamannabústaða.

Með áðurnefndu frv. ríkisstj., sem verður vonandi samþ. á þessu þingi, er stigið stórt skref í jafnréttisátt í húsnæðismálum milli landsmanna. En rétt er að benda á, að meira þarf til, ef tryggja á búsetu um landið. Það þarf að snúa byggðaþróuninni við. Ég skora á ykkur, hlustendur góðir, alls staðar á landsbyggðinni að þrýsta svo á stjórnvöld, að þeim verði fullljóst, að alvara er á ferðum. Vissulega hefur rofað til, en miklum mun meira þarf að gerast til þess að fullbjart verði.

Herra forseti. Ég hef hér í stuttu máli drepið á aðeins nokkuð af því, sem verið hefur að gerast hér á Alþ. Að sjálfsögðu er miklu fleira, sem ástæða væri til að nefna, en tími minn leyfir það ekki.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. Góða nótt.