12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3446 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. áheyrendur. Nú er rúmlega hálft ár liðið síðan við færðum út fiskveiðilögsöguna í 50 mílur. Flestar þjóðir hafa í reynd viðurkennt útfærsluna, ýmist með því að halda skipum sínum utan markanna eða með því að gera við okkur sérstaka fiskveiðisamninga, er heimila þeim veiðar innan landhelginnar samkv. íslenzkum leyfum hverju sinni. Aðeins tvær þjóðir, Bretar og Vestur-Þjóðverjar, hafa haldið uppi ólöglegum fiskveiðum á Íslandsmiðum. Enda þótt við íslendingar viðurkennum engan sérstakan rétt einmitt þessara þjóða öðrum fremur til fiskveiða hér við land, ályktaði Alþ. þó hinn 15. febr. í fyrra, að áfram skyldi haldið þeim tilraunum til samninga, sem þá höfðu staðið yfir nokkra hríð við þessar þjóðir um bráðabirgðasamkomulag. Ástæðan til þessa er óefað sú, að mikill fjöldi Íslendinga skilur þá aðstöðu, sem fiskimennirnir í hafnarbæjum Englands, Skotlands og Vestur-Þýzkalands komast í, þegar hluti af fiskimiðum, er þeir hafa stundað, lokast snögglega, og vill, að þessu fólki sé gefinn aðlögunartími. Það er hins vegar misskilningur þessara manna, að þeir geti með endurteknum landhelgisbrotum skapað sér samningsaðstöðu gagnvart okkur. Rétta leið þeirra hefði verið sú, sem Færeyingar og Belgar fóru, að halda skipum sínum fyrir utan landhelgina, meðan samningaviðræður fóru fram um bráðabirgðalausn. En þrátt fyrir þessa framkomu hefur ríkisstj. þó haldið öllum samkomulagsdyrum opnum og gert ríkisstj. Vestur-Þýzkalands og Bretlands tilboð um bráðabirgðalausn, sem enn stendur.

Nýlega er lokið embættismannaviðræðum hér í Reykjavík um þessi mál og ráðherraviðræður standa fyrir dyrum. Það er einlæg von mín, að samkomulag geti náðst, samkomulag, sem sé sæmandi og hagstætt fyrir Ísland á allan hátt og gefi jafnframt þessum þjóðum tíma til að laga sig að breyttum aðstæðum. Af okkar hálfu hefur verið miðað við 2ja ára tímabil, og verður að vona, að innan þess tíma hafi þær breytingar orðið á skipan landhelgismálanna í heiminum, að sjónarmið okkar um frjálsari tilhögun en hingað til hefur gilt hljóti brautargengi. Er þar einkum horft til hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Við Íslendingar bindum miklar vonir við þessa ráðstefnu, og jafnframt sjáum við þess vaxandi dæmi, að einstakar þjóðir taka sér fiskveiðilögsögu einhliða út frá þeim kringumstæðum, er gilda á hverjum stað. Við höfum því ríka ástæðu til þess að vona, að niðurstaða ráðstefnunnar verði okkur í hag, og nefni ég bara t.d. um þróunina síðustu ályktun utanrrh. fundar Norðurlanda um daginn, en þar var þeirri eindregnu ósk lýst, að Ísland og önnur strandríki fengju vilja sínum framgengt, að því er fiskveiðilögsögu varðar.

Þungamiðja þessa máls fyrir okkur liggur í samstöðu þjóðarinnar, sem allir góðir Íslendingar vona að geti haldizt, svo sem verið hefur, og endist okkur alla leið til sigurs, og í þessu efni tek ég mjög undir orð Benedikts Gröndals hér áðan.

Um málaferlin fyrir Haag-dómstólnum vil ég á þessari stundu aðeins segja, að íslenzka ríkisstjórnin hefur fylgt þeirri stefnu í samræmi við ákvörðun Alþ., að samningarnir frá 1961 eigi ekki lengur við og séu því ekki skuldbindandi fyrir Ísland. Samkv. þessum skilningi höfum við neitað að mæta fyrir dómstólnum, bæði þegar hann fjallaði um bráðabirgðaúrskurð og eins um eigin lögsögu.

Þriðja atriði málaferlanna er eftir, sjálf efnismeðferðin. Það er skoðun mín, að við eigum enn að undirstrika það, að við getum ekki fallizt á dómsvald erlends dómstóls í lífshagsmunamáli okkar, með því að mæta ekki heldur við þann kafla málaferlanna. Um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir. En við verðum með hliðsjón af hinni mikilvægu samstöðu þjóðarinnar að reyna að skoða einnig þetta mál rólega og yfirvegað og gera það, sem að beztu manna yfirsýn þjónar raunverulega hagsmunum Íslands á tryggilegastan hátt.

Annar þáttur þeirra mála, sem ég hef fengizt við að undanförnu, eru hin svonefndu varnarmál. Það skal játað, að í þeim hefur ekki svo mikið gerzt sem vert væri. Koma þar fyrst og fremst til störf og annir vegna landhelgismálsins, er frá upphafi hefur haft algeran forgangsrétt hjá ríkisstj. og þá utanrrn. alveg sérstaklega. Nokkuð hefur þó verið að málinu unnið, og skal ég nefna það helzta. Allítarleg könnun hefur farið fram á efnahagslegum áhrifum þess fyrir okkur, að varnarliðið færi brott af landinu. Þessi könnun hefur verið gerð tvívegis með árs millibili. Þá hefur álits NATO verið leitað um mikilvægi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli fyrr varnir Atlantshafsbandalagsins, og hefur svar ráðsins borizt og verið kynnt utanrmn. Alþ. Allmiklar tilraunir hafa verið gerðar til þess að fá umsögn hlutlauss aðila um þýðingu Keflavíkurstöðvarinnar, en á því eru mikil vandkvæði, þar eð hlutlausir aðilar eru mjög ófúsir til að taka slíkt verk að sér. Þó hefur sænskur sérfræðingur gert á máli þessu nokkrar athuganir, og hafa niðurstöður hans legið fyrir nú um hríð. Þá fór ég ásamt embættismönnum utanrrn. í ferð til Washington í janúarmánuði s.l. og ræddi um varnarmálin við utanrrh. Bandaríkjanna og fulltrúa frá hermálaráðuneytinu, og hefur skýrsla mín um þá för einnig verið afhent ríkisstj. og utanrmn. Alþingis.

Næsta skref í þessum málum verður að taka ákvörðun um það, hvenær endurskoðun varnarsamningsins skuli hefjast, og vænti ég þess, að það geti orðið bráðlega. Hvað sem skoðanamun líður um það, til hvers sú endurskoðun eigi að leiða, virðist svo sem allflestir séu sammála um, að hún skuli fara fram, enda fullkomlega eðlilegt, að 20 ára gamall samningur, sem gerður var við gjörólíkar aðstæður því, sem nú er, þurfi endurskoðunar við.

Samningurinn við Efnahagshandalag Evrópu hefur verið fullgiltur, og koma ákvæði hans um iðnaðarvöru því til framkvæmda, en vegna fyrirvara bandalagsins um það, að tollaundanþágur fyrir fiskafurðir okkar verði háðar því, sem þeir kalla viðunandi lausn á landhelgismálinu, frestast þau ákvæði enn um skeið. Það er auðvitað mikils virði fyrir okkur að njóta tollfríðinda bandalagsins gagnvart helztu útflutningsafurðum okkar, og er það því viðbótarástæða við það, sem ég áðan sagði um það, að takast mætti að komast að hagstæðum samningum um landhelgismálið.

Um utanríkismálin að öðru leyti ætla ég ekki að ræða í þessum stutta tíma hér í kvöld, enda mun ég alveg á næstunni flytja Alþ. skýrslu um þau mál í samræmi við ákvæði þar um í málefnasamningi ríkisstj.

Ýmsum mönnum hér á hv. Alþ. gerist nú mjög tíðrætt um hið einstæða góðæri, er Íslendingar búi við um þessar mundir, eins og t.d. hv. þm. Geir Hallgrímssyni hér áðan. Það er auðvitað bæði rétt og satt, að verðlag á ýmsum útflutningsafurðum okkar er hátt og loðnuaflinn er meiri en nokkru sinni fyrr. En að fleiru þarf að hyggja. Aflabrögð á vetrarvertíð hafa t.d. verið léleg, um 25% minni en í fyrra. Og skyldi það ekki einhvern tíma hafa hlotið að teljast til meiri háttar áfalla, að stærsta verstöð landsins, þar sem milli 5. og 6. hluti allrar útflutningsframleiðslu landsins var unninn, hefur í einu vetfangi verið gerð óvirk og algerlega kippt úr sambandi? Og skyldi það ekki einhvern tíma hafa þótt auka byrðarnar og það verulega að þurfa að leggja á þjóðina nýja skatta, sem nema hvorki meira né minna en 2000 millj. kr. á einu ári, vegna þessa áfalls? Menn verða að hafa þetta í huga, þegar þeir eru að draga upp mynd af efnahagsástandinu og bera saman við það, sem áður var, annars verður myndin skrumskæld. Dýrtíðaraukningin er mikil hér og öllum áhyggjuefni og þá okkur í ríkisstj. ekki síður en öðrum. En gleymum því samt ekki, að hluti hennar er til kominn vegna þeirra sérstöku ástæðna, sem ég var að nefna.

Þá hefur gengisfelling dollarans verið okkur þung í skauti, eins og eðlilegt er, þegar þess er gætt annars vegar, að meginhluti útflutningstekna okkar er greiddur í þeim gjaldeyri, en þorri innflutningsins keyptur fyrir þann gjaldeyri, er stórlega hefur hækkað í verði. Einnig á þennan hátt vex dýrtíðin og aðstaða útflutningsframleiðslunnar versnar, án þess að við fáum þar nokkra rönd við reist. Þá er það á allra vitorði, að dýrtíð í helztu viðskiptalöndum okkar hefur vaxið óðfluga undanfarin ár, og langar mig því til staðfestingar að nefna hér örlítið dæmi. Ég var á ferð í Noregi um daginn og þá sagði mér kunningi minn þar sögu, sem hann taldi táknræna fyrir þróunina í því landi. Hann sagði, að fyrir þremur og hálfu ári hefðu póstburðargjöld verið fyrir einfalt bréf 60 aurar norskir, nú væru þau komin upp í eina krónu. Þannig hefur þessi opinbera þjónusta í Noregi hækkað um hvorki meira né minna en 87% á rúmum þremur árum. Og sá, sem sagði mér, taldi, að hliðstæðar hefðu hækkanirnar verið einnig á öðrum sviðum. Þessarar dýrtíðaraukningar í viðskiptalöndum okkar gætir auðvitað einnig hér á landi. Við verðum að mæta henni án þess að fá á nokkurn hátt við hana ráðið.

En hvað sem þessu líður, er það þó staðreynd, því miður, að dýrtíðin er of mikil hér, síðastur manna skal ég neita því, og við henni verður að snúast með öllum tiltækum ráðum. Ríkisstj. hefur hamlað gegn verðhækkunum, eins og kostur hefur verið, en allir vita, að þegar hún tók við, voru faldar margs konar hækkanir í kerfinu vegna verðstöðvunar viðreisnarstjórnarinnar, sem hlutu að brjótast fram, þegar þeirri verðstöðvun var aflétt. Kauphækkanir opinherra starfsmanna voru umsamdar og hlutu að leiða til hækkunar annarra launa, eins og líka kom á daginn í samningunum 1971, og einnig það hlaut að leiða til hækkunar á vöruverði. Það er því ljóst, að leita verður nýrra ráða til að hamla gegn verðbólgunni, og að mínu mati er helzta leiðin til þess sú að hafa samráð við atvinnustéttirnar í landinu og freista þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu í vísitölumálunum, því að með þau mál öll í þeim rígbundnu skorðum, sem nú eru, verður fátt til varnar. Verðlagsuppbót á laun er öryggisventill launþegans, og honum þýðir ekki að fórna. Fyrrv. ríkisstj. reyndi að kippa víxlverkunum kaupgjalds og verðlags úr sambandi 1963. Sú tilraun mistókst, og dýrtíðaraukning varð sjaldan eða aldrei meiri en einmitt það ár. En núgildandi vísitölureikningur stendur á gömlum merg og e.t.v. er hann úreltur orðinn. Vonir standa til, að með samvinnu við launastéttirnar geti tekizt að finna eðlilegri grundvöll. Að þessu verður að vinna og nota tímann vel.

En hvað þá um kjör manna og afkomu um þessar mundir? Er ástandið slæmt í þeim efnum? Þessu getur hver bezt svarað fyrir sjálfan sig. Viljið þið ekki, hlustendur góðir, gera úttekt á þessu? Líður ykkur efnahagslega illa? Getið þið ekki fengið nóg að vinna? Er kaupið lágt? Er kaupmáttur launanna lítill? Er skortur á nauðsynjavörum? Þessu svarar auðvitað hver fyrir sig, og að sjálfsögðu eru kjörin eitthvað misjöfn. En þegar á heildina er litið, blasa nokkrar staðreyndir við. Ég nefni þær helztu:

Útreikningar hagrannsóknanefndar Framkvæmdastofnunarinnar sýna, að einkaneyzla á mann nam árið 1972 um 202 þús. kr. og hefur aldrei verið hærri. Fyrra hámark einkaneyzlu var árið 1967 og var þá 168 þús. kr., reiknað á sama verðlagi. Þessi hækkun nemur 20%. Að þessu leyti erum við sambærilegir við flestar þjóðir í Vestur-Evrópu og margfalt hærri en meiri hluti þjóða heims.

Þá er það atvinnuöryggið. Staðreyndin, sem við okkur blasir, er sú, að það hefur aldrei verið meira að gera hér á landi en einmitt nú. Að vísu verður staðbundið atvinnuleysi hér alltaf við lýði og seint með öllu útilokað, en yfirleitt er ástandið þannig, að hér vantar alls staðar fólk, og eitt helzta vandamálið í útvegi og iðnaði í dag er einmitt vinnuaflsskorturinn. Og vinnustöðvanir hafa verið með minna móti, þótt verkfallið á togaraflotanum bregði þar nokkrum skugga á.

Og kaupmáttur launanna, hvað er að segja um hann? Það kom fram í skýrslu, sem flutt var á þingi Alþýðusambands Íslands í nóv. s.l. að kaupmáttur launa verkafólks fyrir hverja greidda vinnustund í almennri vinnu í Reykjavík hafði hækkað í valdatíð núv. ríkisstj. um 28% á 11/2 ári og farið úr 107,2 stigum á öðrum ársfjórðungi 1971 upp í 137,6 stig á fjórða ársfjórðungi 1972. Í báðum tilvikunum var miðað við grunntöluna 100 á fyrsta ársfjórðungi 1968 og vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta segir alveg afdráttarlausa sögu um þær breytingar, sem orðið hafa á kaupmætti launanna að undanförnu. Og ekki þarf heldur lengi að ganga um götur Reykjavíkur til þess að sannfæra sig um það, að vöruskortur er hér enginn. Allar búðir eru sneisafullar af varningi. Þrátt fyrir þetta batnaði gjaldeyrisstaða þjóðarinnar um 700 millj. kr. á s.l. ári og vörukaupalán hækkuðu aðeins um 97 millj. kr., sem er miklu minna en undanfarin ár.

Fjármál ríkisins eru jafnan mjög til umr., og s.l. ár spáði stjórnarandstaðan þar verulegum greiðsluhalla og taldi útlitið svart. Benedikt Gröndal var áðan að gefa í skyn, að staða ríkissjóðs væri mjög bágborin. Nú liggja staðreyndir fyrir. Ríkisreikningurinn 1972 hefur verið lagður fram, og er hann fyrr á ferðinni en nokkru sinni fyrr. Reikningurinn sýnir, að nettógreiðsluafgangur er 689,6 millj. kr., og ef ekki hefðu komið tíl framlög til vegamála, landhelgisgæzlu og þess háttar, sem ákveðið var af Alþ. utan fjárlaga með sérstökum lögum, en fært á rekstrarreikning ríkissjóðs, hefði rekstrarjöfnuðurinn orðið enn hagstæðari eða sem numið hefði 984,8 millj. kr. Þetta segja staðreyndirnar um hag ríkissjóðs við s.l. áramót.

Ef við lítum á stöðu þjóðarinnar með sanngirni, eigum við Íslendingar því að geta horft hjörtum augum til framtíðarinnar. Alls staðar blasir uppbyggingin við. Við erum að stækka landhelgina. Við erum að eignast góðan húsakost fyrir alla þjóðina, fyrir 50 árum áttum við varla nokkurt hús. Við erum að eignast togara og fiskiskip í áður óþekktum mæli. Við erum að eignast öflugan útflutningsiðnað og eigum þegar verksmiðjur í öðrum löndum. Við erum að umbylta hraðfrystiiðnaðinum. Sveitirnar eru ræktaðar, uppbyggðar og óþekkjanlegar, frá því að ég var ungur maður. Við erum að eignast tröllaukin raforkuver, sem eru undirstaða stóriðju. Skólakerfi okkar er meðal þess, sem bezt þekkist annars staðar, heilbrigðisþjónustan einnig. Tryggingamál aldraðra eru að komast í heilbrigt horf. Og við erum að eignast hringveg um landið okkar, sem er forsenda eðlilegrar landnýtingar, svo að vitnað sé til orða annars manns.

Já, alls staðar blasir uppbyggingin við, eins og ég áðan sagði, og stórfelldari en nokkru sinni fyrr. Við skulum halda sókninni áfram, Íslendingar, og skapa á þann hátt niðjum okkar bjarta framtíð í þessu blessaða landi.

Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.