16.10.1972
Neðri deild: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

5. mál, orkuver Vestfjarða

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi gera nokkuð að umræðuefni, ekki beint það frv., sem hér liggur fyrir, heldur raforkumál Vestfjarða og að nokkru leyti ræðu hæstv. iðnrh. ég vil taka fram í upphafi, að sjálfsögðu er ég mjög ánægður með, að skriður er kominn á framkvæmdir í raforkumálum Vestfjarða, og ég er mjög ánægður með, að ákvörðun hefur verið tekin um þessar framkvæmdir, því að ég verð að segja það eins og er, að við höfum orðið að bíða alllengi eftir ákvörðun um stórvirkjun á Vestfjörum, þó að þar hafi á undanförnum árum verið unnið að undirbúningi þessara mála, og vil ég í því sambandi nefna, að á sínum tíma var Almenna byggingafélaginu falið að kanna virkjunarmöguleika á Vestfjarðavirkjunarsvæðinu, og skilaði félagið ýtarlegri grg. um þessar athuganir í júní 1967 ásamt áætlun um virkjun Mjólkár II. Á þeim árum voru erfið ár í efnahagslífi þjóðarinnar, og þessum athugunum og áætlunum var haldið áfram. Yfirmenn orkumála töldu bezt séð fyrir orkuþörfinni á Vestfjörðum með því að setja sífellt upp fleiri dísilstöðvar í flestum kauptúnum Vestfjarða, og skilningur þeirra var nú ekki meiri en það, að í fundargerð, opinberu plaggi, sem ég hef hér undir höndum og greinir frá fundi forstöðumanna fyrirtækis, sem Virkir heitir, með fulltrúum Rarik á s.l. ári. Þar segir verkfræðingur Rarik, að hann telji, að það sé ekki aðkallandi þörf á að fara í virkjunarframkvæmd á Vestfjörðum vegna þess, að það sé hægt að anna eftirspurn eftir raforku þar með enn fleiri dísilstöðvum.

Til þess að sýna þingheimi betur fram á heldur en kannske kom í ljós í ræðu hæstv. iðnrh., þá þykir mér rétt að geta þess, að virkjunarsvæðið það, sem ráðh, gerði að umræðuefni, nær ekki til allra Vestfjarða vegna þess, að virkjunarsvæðin eru í raun og veru tvö aðalsvæði, þ.e. virkjunarsvæði hinnar svokölluðu Þverárvirkjunar í Strandasýslu, sem veitir raforku um þann hluta Strandasýslu, sem þegar hefur verið tengdur samvirkjun og sömuleiðis aftur Austur-Barðastrandarsýslu eða að verulegu leiti Austur-Barðastrandarsýslu, en vestustu hreppar Austur-Barðastrandarsýslu hafa ekki enn fengið raforku frá samveitum. Hitt svæðið er aftur Mjólkársvæðið eða Mjólkárvirkjunin, sem nær frá Patreksfirði og nú á þessu hausti um Barðastrandarhrepp og norður að Ísafjarðardjúpi utanverðu eða til Ísafjarðarkaupstaðar og kauptúnanna við Ísafjarðardjúp. Auk þess eru minni virkjanir, sem hefur verið ráðizt í Ísafjarðardjúpi að norðanverðu, í Snæfjallahreppi, sem er héraðsveita, sem nú er verið að stækka með annarri virkjun, sem nær til Nauteyrarhrepps, sem er þá annar hreppurinn af fjórum í Ísafjarðardjúpi, sem kemur til með að fá raforku frá minni virkjun. Á þessu stóra virkjunarsvæði Vestfjarða, sem nær frá Barðastrandarhreppi og að Ísafjarðardjúpi, hafa því fleiri en einn aðili þessa orkuöflun með höndum, því að orkuver sveitarfélaganna eru samtals með um 2300 kw. afl, en Rafmagnsveitur ríkisins eru að ég hef talið með 3700 kw. afl, en ég heyrði, að hæstv. ráðh. sagði, að það væru 3800. Í vatnsorkuverum er um 4000 kw. afl, en dísilaflið hefur verið um 2000 kw. Orkuvinnslan var 19.4 gígawattstundir árið 1969 og því 2 millj. gígawattstunda framleitt með dísilvélum.

Þróunin hefur orðið sú, að orkunotkun á Vestfjörðum hefur verið minni en víðast hvar annars staðar á landinu, þó sérstaklega á Suðurlandi og á Reykjanessvæðinu, en hins vegar er aftur atvinnulíf Vestfjarða með orkufrekan iðnað, sem eru frystihúsin, sem eru auðvitað fullkomlega til jafns og meiri en víðast hvar annars staðar, en þessi mikla dísilorka hefur gert það að verkum, að neyzla eða kaup á orku á hinum almennu heimilum hefur verið minni en víðast hvar annars staðar.

Ég fagna því mjög innilega, að ákvörðun hefur verið tekin um þessa virkjun, en ég vil benda á það, að við þm. Vestf, fluttum á Alþ. till. til þál. og við stóðum þar að þeirri till. allir Vestfjarðaþm., sem þá voru, en það voru fulltrúar frá 4 stjórnmálaflokkum, Sjálfstfl., Alþfl., Framsfl. og Alþb. En þá áttu þessir flokkar allir fulltrúa á Alþ. frá Vestfjörðum. Þessi þáltill. var samþ. á Alþ. 5. apríl 1971, og í henni segir, að „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að taka hið fyrsta ákvörðun um aukningu vatnsaflsvirkjana á samveitusvæði Vestfjarða og stefna að því, að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og framast er auðið. Stærð fyrirhugaðra virkjana verði miðuð við, að nægileg orka fáist frá vatnsaflsvirkjunum til þess að fullnægja raforkuþörf á orkusvæðinu, og þá tekið tillit til sennilegrar aukningar á raforkuþörf næstu 10 ár og jafnframt séð fyrir nægilegri raforku til upphitunar húsa. Jafnhliða þessum athugunum verði kannaðar óskir sveitarfélaga um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna á samveitusvæðinu: Þessi till. var samþ. shlj. hér á Alþ. 5. apríl 1971. En ég varð mjög var við það, að eftir að við fluttum þessa till., var mjög brugðið við um það að hraða undirbúningi að framkvæmdum í þessum málum og eftir samþykkt þessarar till. lét þáv. iðnrh. mjög reka á eftir því, að till. kæmu frá þeim embættismönnum, sem hér áttu hlut að máli.

En áður en lengra er haldið vil ég geta þess, að í nokkur ár hefur verið starfandi rafvæðingarnefnd Vestur-Barðastrandarsýslu, sem hefur haft mikinn hug á virkjun Suðurfossár á Rauðasandi og látið gera undirbúningsathuganir í sambandi við þá virkjun og áætlanir um virkjunarkostnað, sem Virkir h.f. hefur gert. Álit Rafmagasveitna ríkisins var sent þáv. iðnrh. að mig minnir 5. maí 1971 eða nákvæmlega mánuði eftir að þessi þáltill. var samþ. í áliti Rafmagnsveitna ríkisins kemur fram, að þær halda mjög fram, að það sé hagkvæmara að virkja Mjólká II heldur en fara út í virkjun Suðurfossár á Rauðas., og skal ég ekki gera það mál að umræðuefni hér, því að það yrði of langt mál, en eins og raunar kom fram hjá hæstv. iðnrh. hér áðan, þá var sumarið 1970 byrjað á vegalagningu upp að fyrirhugaðri miðlun við Langavatn, sem hann gerði hér að umræðuefni, og á s.l. ári eða í tíð fyrrv. iðnrh. var tekin ákvörðun um að byggja miðlunarstíflu við Langavatn og þessi miðlun átti strax að auka framleiðslugetu Mjólkárvirkjunar þeirrar, sem fyrir er, um 1.2 millj. kwst, á ári. Það má því segja, að eftir þeim athugunum var talið, að hægt yrði, ef fjármagn væri fyrir hendi, að ljúka byggingu á Mjólká II árið 1973, og þá var talið, að aflið mundi aukast um 2800 kw. og framleiðslugetan um 24 millj. kwst. á ári. Eftir að þetta bréf kom í hendur þáv. iðnrh. 5. maí 1971, þá skrifaði það fyrirtæki, sem hafði með athuganir að gera á virkjun Suðurfossár, iðnrn. og gerði ýmsar aths. við útreikninga og skýrslu Rafmagnsveitna ríkisins, og þar bar mönnum ekki saman, þótt sérfræðingar séu. Þessar áætlanir og þessar aths. hafa legið fyrir. Rafvæðingarnefnd Vestur-Barðastrandarsýslu og m.a. þá sýslunefnd Vestur-Barðastrandarsýslu, en hún er nú svo lánsöm að eiga einn af sýslunefndarmönnum sínum hér á Alþ., hafa gert samþykktir, ég held fleiri en eina, um virkjun Suðurfossár og hafa hent á það, að könnun á Mjólkársvæðinu og þar af leiðandi líka á Dynjandisvæðinu væri ekki nógu langt á veg komnar og miðlunarstífla ásamt byggingu Suðurfossárvirkjunar mundi verða lausn á raforkumálum Vestfjarða næstu 2–3 árin.

Nú ætla ég ekki að gerast dómari um það, sem ég hef ekki kunnugleika á. Ég segi nú eins og hæstv. iðnrh., að ég hef nú verið svona heldur líka stór í sniðum í sambandi við, í hvaða framkvæmdir eigi að fara, og ég hygg, að um það verði ekki deilt, að við Vestfirðingar viljum fá það mikla aukningu á raforku, að við þurfum ekki að búa við raforkuskort. En það er eitt mjög mikilvægt atriði, sem þeir Vestur-Barðstrendingar hafa bent á, að fallvötnin öll á Vestfjörðum eða á þessu virkjunarsvæði eru norðan Arnarfjarðar og rafmagnið er leitt með sæstreng yrir Arnarfjörð, sem er mjög breiður og mikill flói, og það hefur sýnt sig, að þar hafa orðið bilanir og þar hefur því verið mikið öryggisleysi í raforkumálum þeirra, sem búa sunnan Arnarfjarðar, og það hefði ég talið vera nokkuð þungt á metunum. En þetta eru auðvitað ákvarðanir, sem sérfræðingar yrðu að taka og síðan iðnrh. og ríkisstj. og höggva á þann hnút, og það hafa þeir gert með útgáfu þeirra brbl., sem hér eru nú lögð fram til staðfestingar á Alþ. Hitt er annað mál, að ég tel, að samþykkt þáltill. okkar þm. Vestf. á árinu 1971 er í fullu gildi, henni hefur ekki verið breytt með nýrri samþykkt, en þar segir, að jafnhliða þessum athugunum verði kannaðar óskir sveitarfélaga um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna á samveitusvæðum. Ég vil t.d. minna á till. og grg., sem Samband ísl. sveitarfélaga samþykkti í jan. 1970 í sambandi við raforkumálin, en þar segir með leyfi forseta:

„Í raforkumálum virðist eðlilegt að stefna að neðangreindu skipulagi:

1. Orkuöflun og höfuðdreifing verði í höndum sameignarfélaga ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga.

2. Smásöludreifing raforku verði í höndum sveitarfélaganna, ýmist einstakra sveitarfélaga eða í sannvinnu tveggja eða fleiri sveitarfélaga eftir atvikum. Óski sveitarfélag eða félög í tilteknum landshlutum ekki eftir því að annast sjálft raforkudreifingu í smásölu, virðist eðlilegt, að Rafmagnsveitur ríkisins hafi slíka dreifingu með höndum, enda verði tryggð aðild viðkomandi sveitarfélaga að stjórn fyrirtækisins á viðkomandi svæði.

3. Með beinum framlögum úr ríkissjóði og sérstöku verðjöfnunargjaldi mætti bæta aðstöðu þeirra orkuveitusvæða, sem búa við erfiðar ytri aðstæður.“

Með tilliti til samþykktar þessarar þáltill. okkar Vestf., þá hefði ég talið, að hæstv. iðnrh. hefði átt að kanna til hlítar, hvort ekki væri möguleiki á að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna á þessu samveitusvæði. Það liggja fyrir áskoranir í þessum efnum og samþykktir, og það sem ég kvarta um er það, að mér finnst, að hæstv. iðnrh. hefði átt að hafa samráð við þessar sveitarafveitur á Vestfjörðum og við okkur þm. Vestf., áður en þessi ákvörðun var tekin. Hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, að þetta hefði ekki legið fyrir við þinglok. Hitt má segja, að þessar tili. hefðu auðvitað mátt liggja fyrir fyrir þinglok og ríkisstjórnin getað aflað sér lagaheimildar, áður en þing lauk störfum á s.l. vori. Ég vil t.d. nefna það, að í samhandi við framkvæmdaáætlun ríkisstj., þegar það frv. var lagt hér fram seint á síðasta þingi, var ekki ætluð króna til framkvæmda á þessu orkusvæði, en hins vegar var tekið upp í till. fjhn. Nd. 11 millj. kr. framlag til Mjólkárvirkjunar, sem Alþ. samþykkti ásamt öðrum brtt. við framkvæmdaáætlun ríkisstj. Ég hefði talið, að það hefði verið miklu skemmtilegri og eðlilegri leið að hafa fund með þessum aðilum, áður en þingi lauk og leggja frv. þá fyrir Alþ., því að það hefði auðvitað fengizt afgreitt á einum eða tveimur dögum, og það hefði verið heppilegra og skynsamlegra og líka að svara þeim aðilum, sem hafa sent ákveðnar óskir og áskoranir til ríkisstj. í þessum efnum, lofa þeim að sjá og heyra þau endanlegu rök sérfræðinganna fyrir þessari ákvörðun, sem hæstv. iðnrh. hefur tekið og ríkisstj. hefur samþ. með því að gefa út þessi brbl. Þó að ég láti þessar aths. koma hér fram, þá auðvitað vil ég taka það fram til þess að fyrirhyggja allan misskilning, að þær eru í raun og veru ekki það mikils virði á við það að fara út í stóra og mikla framkvæmd. En það hefði verið, eins og ég sagði áðan, eðlilegra og viðfelldnara að hafa þennan hátt á að lófa þessum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, að sjá þessi gögn, áður en þessi ákvörðun var tekin um að gefa út þessi brbl.