13.04.1973
Sameinað þing: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

239. mál, varnargarður vegna Kötluhlaupa

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Við allir þm. Suðurl. höfum leyft okkur að flytja hér till. til þál., um varnargarð vegna Kötluhlaupa, og er till. prentuð á þskj. 574 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera á þessu ári áætlun um gerð og kostnað við byggingu varnargarðs til að verja þorpið Vík í Mýrdal fyrir Kötluhlaupum. Þegar er slíkar áætlanir liggja fyrir, skal ríkisstj. heimilt, í samráði við fjvn., að láta hefja framkvæmdir, sem kostaðar verði að 7/8 hlutum af ríkissjóði“.

Eins og segir í grg. með þáltill., er hún flutt að beiðni hreppsnefndarinnar í Hvammshreppi, og ritaði oddviti hreppsnefndarinnar þm. Suðurl. bréf, þar sem hann óskaði eftir því, að þessi þáltill. yrði flutt í því formi, sem við höfum gert.

Það er öllum kunnugt, að þegar gos verða í Mýrdalsjökli, í gígnum Kötlu, koma mikil hlaup úr jöklinum og steypast niður yfir Mýrdalssand, breiða þar úr sér, flytja til mikinn jarðveg og ryðja öllu á brott, sem fyrir verður. Um leið og þessi hlaup lenda í hafinu, myndast mikil flóðbylgja, sem gengur á land vestur með ströndinni og er mest og hæst næst hlaupinu. Þessir atburðir hafa oft gerzt, og eru til um þá heimildir, sem skýra ljóslega frá því, hvað skeður í þessum tilfellum.

Á ströndinni austan undir Reynisfjalli stendur þorpið Vík í Mýrdal. Það er lítið þorp, íbúar eru þar um 380 að tölu, og er fjárhagslega veikt. Það er að vísu í sveitarfélagi með hinum forna Hvammshreppi, en það sveitarfélag verður að teljast mjög veikt fjárhagslega. Á árinu 1964, ætla ég að það hafi verið, sem fyrst var hafizt handa um varnaraðgerðir af því tagi, sem ég hef hér verið að lýsa. Ragnar Jónsson hafði flutt hér á Alþ. þáltill. um, að byggður yrði varnargarður frá Víkurklettum að Höfðabrekkujökli. Höfðabrekkujökull er mikill framburður af jökulhlaupum, sem myndazt hefur þarna á sandinum, og er þar allveruleg hæð, sem er örugg vörn, en skarð á milli. Alþ. samþ. þessa þáltill., og varnargarður var síðan gerður þarna á árinu 1964. Það hefur ekki reynt neitt á þennan garð, en talin er mikil þörf á því, að hann verði styrktur enn frekar og að síðan yrði byggður annar miklu meiri garður og traustari vestar á sandinum, austan við þorpið Vík, til sjávar og jafnvel með sjávarströndinni. Það hafa verið fengnir til rannsókna og ráðuneytis um þetta mál ýmsir sérfræðingar, þ. á m. þeir Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, Jón Jónsson jarðfræðingur og þar að auki verkfræðingur, Þorbjörn Karlsson að nafni, til þess að gera áætlanir um þetta mannvirki. Umsagnir og skýrslur þessara sérfræðinga eru prentaðar með þáltill. á þskj. 574, til þess að hv. alþm. geti kynnt sér þær. Af þeim má verða ljóst, hversu þýðingarmikið mannvirki er um að ræða fyrir þetta byggðarlag því til varnar, ef svo illa færi, að jökulhlaup bærist frá Kötlugosi og flóðalda kæmi á sama tíma af sjó, sem gera má ráð fyrir.

Nú veit að vísu enginn um það, hvort Katla gýs, en hún hefur haft samkv. heimildum eins konar fastan meðgöngutíma á liðnum öldum. Hún hefur gosið, að ég hygg, oftast nær með 30—50 ára millibili, og nú eru liðin 54 ár, því að það var 1918 sem stórgos varð í Kötlu. Að vísu varð árið 1955, að mig minnir, nokkurt hlaup úr jöklinum, en það olli ekki neinu tjóni í Vik þá og var það lítið, að ekki varð vart við eldsumbrot, en sennilega hafa þau þá átt sér stað í jöklinum eða undir honum. Íbúar á þessu svæði, sérstaklega íbúarnir í Vík, þessir 380 íbúar, óttast mjög um byggðarlag sitt, ef slíkir atburðir kæmu fyrir sem ég hef hér verið að lýsa. Það er búið að byggja alImikið af húsum niðri á sléttlendinu undir brekkunum þar, og í ráði er að reisa þar iðnaðarhúsnæði og hótelbyggingu, sem gert er ráð fyrir að byrjað verði á þegar í sumar. Hins vegar hefur verið stöðvað að byggja íbúðarhús á svæðinu, fyrr en slíkar varnaraðgerðir eru komnar til framkvæmda, sem ég hef hér verið að lýsa.

Ég má nú ekki, og vil ekki vera að eyða lengri tíma frá hinu háa Alþ. til þess að gera frekari grein fyrir þessu máli en ég hef þegar gert. Ég vona, að mönnum hafi orðið ljóst af þessum orðum mínum, hvað þarna er í húfi, og vil þá ljúka máli mínu með því að óska eftir, að það verði samþ., að fjvn. fái þessa till. til athugunar og henni vísað til síðari umr. Ég held, að það hafi verið ákveðnar tvær umr., og fjvn. fái þá till. til athugunar milli umr.