13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

134. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Nd., hlaut þar afgreiðslu fyrir skömmu. Í frv. er ráð fyrir því gert, að þau lagaákvæði, sem gilda eigi um byggingarsamvinnufélög, skuli verða sérstakur kafli í l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, við hliðina á köflunum um byggingarsjóð verkamanna og verkamannabústaði, og gildandi lagaákvæði um húsnæðismál verði þannig sameinuð í einum lagabálki. Frv. er samið af n., sem félmrn. skipaði á s.l. ári, og voru í þeirri nefnd m.a. fulltrúar fyrir byggingarsamvinnufélögin, menn kunnugir þeirri starfsemi.

Starfsemi byggingarsamvinnufélaganna hefur dregizt heldur saman á undanförnum árum og sum ákvæði gildandi l. orðið óvirk og lítið orðið um það, að þau önnuðust aðra þætti byggingar málanna en útvega ríkisábyrgðir fyrir byggingarsamvinnufélögin. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að þessi þáttur byggingarsamvinnufélaganna falli niður og verði ekki á þeirra vegum, heldur taki veðdeild Landsbankans að sér að útvega ríkisábyrgðir fyrir byggingarsamvinnufélög. Ég tel það óþarfa vafstur fyrir byggingarsamvinnufélögin sjálf að fást við það mál, en eðlilegt, að veðdeild Landsbankans annist þann þátt.

Að öðru leyti skal ég skýra frá því, að ég tel eftirfarandi atriði vera helztu breytingarnar frá gildandi löggjöf um starfsemi byggingarsamvinnufélaga. Það eru í fyrsta lagi í þessu frv. skýrari ákvæði um tilgang og afmörkun verksviðs byggingarsamvinnufélaganna. Í öðru lagi er kveðið nánar en áður á um réttindi og skyldur félagsmanna gagnvart byggingarsamvinnufélagi og í því efni stuðst við reglur og ábendingar forsvarsmanna byggingarsamvinnufélaga og annarra, sem n., sem frv. samdi, ræddi við. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að stofnsjóðsinnistæður verði ávaxtaðar í byggingarsjóði ríkisins, njóti þar vísitölutryggingar og veiti með tilteknum skilyrðum rétt til viðbótarlána úr sjóðnum. Í fjórða lagi er felld niður samábyrgð félagsmanna í sambandi við veðlán. Í þess stað er gert ráð fyrir, að hver félagsmaður sé ábyrgur fyrir sínum hluta af láni. Í fimmta lagi er stórlega dregið úr þeim kvöðum, sem á íbúðum félagsmanna hvíla í sambandi við sölu og leigu. Í sjötta lagi er gert ráð fyrir sérstöku varasjóðstillagi til eflingar fjárhag og starfsemi félaganna. Í sjöunda lagi er lagt til í frv., að ákvæðið um hluta ríkisábyrgðasjóðs sé fellt niður. Það var í frv. upphaflega, en það var ein af breytingunum, sem gerð var í Nd. Í áttunda lagi er svo kveðið á um skyldur Húsnæðismálastofnunar ríkisins til að veita byggingarsamvinnufélögum aðstoð í þeirra starfi og hafa eftirlit með starfsemi þeirra.

Þetta held ég, að séu meginefnisatriðin, sem í frv, felast, og tel ég, að þau séu öll mjög eðlileg og líkleg til þess að greiða fyrir starfsemi þeirra með eðlilegum hætti.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta frv., en legg til, herra forseti, að því verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. félmn.