13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3484 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur oft verið að því innt hér á Alþ. og till. verið uppi um það, að opnaðar væru leiðir frekar en er í húsnæðismálalöggjöfinni til að greiða fyrir sveitarfélögum um byggingu leiguhúsnæðis. Það er meginefni þessa frv. að bæta aðstöðu sveitarfélaga til þess að standa fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis til leigu.

Aðalefnið er, að heimilað verði að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og megi lánin nema allt að 80% af byggingarkostnaði, enda hafi þá hlutaðeigandi sveitarfélag ekki byggt íbúðir samkv. 1. gr. l. nr. 97 frá 22. des. 1965 og íbúar sveitarfélagsins ekki átt kost á íbúðum, sem þar um ræðir. Það eru því öll önnur sveitarfélög á landinu, sem öðlast rétt samkv. þessu frv., en Reykjavík og nágrenni, sem notið hefur lagaákvæðanna um byggingar þær, sem framkvæmdar hafa verið í Breiðholti.

Þessi lán skulu vera veitt til 33 ára og vera afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en eiga síðan að endurgreiðast á 30 árum. Þetta eru nákvæmlega sams konar kjör og gilda um lánveitingar vegna Breiðholtsframkvæmdanna, og má líta á þetta mál sem jafnréttismál landsbyggðarinnar, miðað við þá aðstöðu, sem Reykjavík og Reykjavíkursvæðið hafa notið á undanförnum árum í sambandi við byggingarframkvæmdirnar í Breiðholti. Að öðru leyti skulu lánskjörin vera hin sömu og hjá byggingarsjóði ríkisins. Þetta frv. er þó þeim takmörkunum háð, að hér er heimilað, að þessi lánskjör nái til allt að 1000 íbúða, og byggingartíminn, sem reiknað er með innan ramma frv. næstu 5 ár. Reglugerðarákvæði skulu svo sett um nánari útfærslu þessa.

Þetta er meginefni frv., en einnig er ákvæði um það, að fastar lánsupphæðir skulu hækka úr 600 þús. í 800 þús., en nema þó aldrei meira en 3/4 hlutum verðmætis íbúðar. Ég býst við, að menn geri sér það ljóst, að hér er um mjög ríflegar auknar fjárveitingar að ræða til fyrirgreiðslu þess, að byggt verði íbúðarhúsnæði til leigu á vegum sveitarfélaga, þar sem slíkt húsnæði er talið vanta. Væri um íbúð að ræða, sem kostaði 2 millj. kr., yrði þarna veitt lánsfé samkv. frv., sem næmi tvöfaldri lánsupphæðinni 800 þús., þ.e.a.s. 1600 þús. kr. Þannig er mjög auðveldað að komast af stað með húsnæðið, en ætlunin er, að sveitarfélagið leigi síðan húsnæðið ágóðalaust, en væri að sjálfsögðu, þegar menn hefðu ákveðið sig um það að verða kaupendur að slíkum íbúðum, að mínu áliti heimilt að selja slíkt leiguhúsnæði íbúum sveitarfélagsins. Þetta er til þess að bæta úr því, að hægt sé að fara af stað í sveitarfélagi með byggingu íbúðarhúsnæðis, þó að einstaklingar hafi ekki gefið sig fram til þess að ákveða sig sem kaupendur að íbúð þegar í stað.

Önnur efnisatriði eru ekki í þessu frv. Þau eru þessi tvö, sem sé hækkun á lánsupphæð úr 600 þús. upp í 800 þús. og heimild fyrir sveitarfélög að njóta lánskjara samkv. 1. gr. frv. til þess að koma upp íbúðarhúsnæði til leigu.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.