13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3490 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég lagði nokkrar spurningar fyrir hæstv. félmrh. hér áðan (Félmrh.: Þeim var svarað óbeint) — afmarkaðar og skýrar spurningar. Hæstv. ráðh. hafði slæma samvizku, því að hann kallar fram í, að þeim hafi verið svarað, en hann sagði óbeint. Þeim var ekki svarað. Hæstv. ráðh. taldi ástæðu til þess að hefja sína ræðu með skætingi í minn garð fyrir að hafa borið fram þessar fsp. Afsökunin, sem hann taldi, að væri fyrir því að svara ekki því, sem um var spurt, var, að hann væri ófáanlegur að munahöggvast við mig um þessi mál. Hann fór svo einhverjum lítilsvirðandi orðum um það, að ég hefði áhuga á húsnæðismálunum. Þetta er það, sem hæstv. félmrh. segir, þegar gerð er tilraun til þess að fá hann til að komast að kjarna málanna með því að svara einföldum og sjálfsögðum spurningum. Ekki hefði átt að þurfa að spyrja ráðh. um þetta, sem leggur fram það frv., sem hér er um að ræða. Hæstv. ráðh. hefði átt að sjá sóma sinn í því að skýra óbeðinn frá þeim hlutum, sem varða grundvöll þessa frv. og hvernig framkvæmdin getur orðið.

Ég hef í raun og veru ekki miklu að svara hæstv. ráðh., þegar hann í raun og veru segir ekkert, sem hönd er á festandi, víkur að nokkrum atriðum í óðagoti og af handahófi, svo að maður segi ekki á handahlaupum.

Hæstv. ráðh. sagði, að nú væri að lifna yfir byggingarsjóði verkamanna. Það er alveg rétt. Er það vegna hans tilverknaðar? Lög um byggingarsjóð verkamanna voru endurskoðuð og þeim var gerbreytt árið 1970. Síðan hæstv. ráðh. tók við stjórn húsnæðismálanna, hefur ekkert verið gert í þessum málum. Löggjöfin hefur verið framkvæmd, og svo virðist sem þessi löggjöf og þær miklu breytingar, sem gerðar voru 1970, ætli að reynast vel.

Varðandi möguleikana á að standa undir skuldbindingum, sem gert er ráð fyrir með aðstoð þeirri, sem felst í 2. mgr. 1. gr. frv., lét hæstv. ráðh. í það skína, að það væri ekki mikið að óttast í því efni, vegna þess að það tæki langan tíma að undirbúa þessi mál. Manni skildist, að það kæmi ekki til fjárútláta af þessum sökum fyrr en eftir marga mánuði eða á næsta ári. Kann að vera, að þetta séu rök í augum hæstv. ráðh., sérstaklega ef hann gengur út frá því, að það muni aldrei koma til þess, að hann beri ábyrgð á framkvæmd þessara mála á næsta ári. En það er nokkuð ábyrgðarlaust að segja þessi orð hér og ætlast til þess, að menn taki þau alvarlega sem rök í þessu máli.

Þá var önnur rúsínan í pylsuendanum hjá hæstv. ráðh. Hann sagði, að það væru takmörk fyrir því, undir hve hárri upphæð lántakendur gætu staðið. Jú, auðvitað eru alltaf takmörk fyrir því. En eru það rök í þessu máli, að það sé hyggilegt að lækka raungildi hinna almennu íbúðalána vegna þess, að þá standi lántakendur undir minni skuldbindingum? Ég hef aldrei heyrt teflt fram slíkum rökum í þessum málum, aldrei. Ég hef aldrei heyrt það, hvorki í hv. Alþ. né á mannfundum. Ég hef alltaf heyrt, að menn legðu áherzlu á það, hvar í flokki sem þeir standa, að við þyrftum að hækka íbúðalánin, þar væri ekki nærri nógu mikið að gert. Minnumst þess, að íbúðalánin voru 1970 um 40% af byggingarkostnaði miðað við meðalíbúð, en þau fara núna, miðað við sömu útreikninga, niður undir 30%. Svo ætlast hæstv. ráðh. til þess, að þessi hv. d. taki það alvarlega, að þetta sé bara af hinu góða að því leyti, að það séu minni byrðar, sem lántakandi standi undir, þar sem það séu takmörk fyrir því, hvað lántakandi geti staðið undir miklu. En þessum hæstv. ráðh. kemur ekki til hugar að benda á, a.m.k. sem fjarlægt markmið, ef hann treystir sér ekki sjálfur til þess að gera neitt í því efni, að bæta þarf lánskjörin, lengja lánstímann, lækka vextina. Það er eins með þessi atriði og lánsupphæðina, að ég hef engan heyrt, sem neitar því, að það sé ekki þörf á því að vinna að því að bæta lánskjörin að þessu leyti, lengja lánstímann, lækka vextina. Það er leiðin til þess að þjóna lántakendum, en ekki að lækka lán þeirra. Svo sjálfsögð grundvallaratriði sem þessi ætti hæstv. ráðh. að sjá sóma sinn í að skilja og viðurkenna.

Hæstv. ráðh. hélt sér við það, að það væri rétt, að fyrirgreiðsla varðandi leiguíbúðir ætti einungis að varða sveitarfélögin. Hann er ákveðinn í því. Hann er ákveðinn að virða að vettugi vilja hv. Alþ., eins og hann kom fram í þáltill. á síðasta þingi og honum bar að vinna eftir. Rökin eru þau, að það sé svo hættulegt að veita slíka aðstoð öðrum aðilum, vegna þess að það séu braskarar, sem væntanlega selja íbúðirnar eða hagnazt á leigu. Er þetta ekki nokkuð langsótt, hæstv. ráðh.? Er þá ekki rétt að útfæra þessa hugsun alveg til enda og hætta að lána einstaklingum íbúðalán, vegna þess að þeir gætu braskað með íbúðirnar. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að vera sjálfum sér samkvæmur í þessu efni.

Þá kom hæstv. ráðh. að lokum biðjandi, biðjandi um það, að ekki verði nú lagðar fram brtt., að sjálfsögðu dauðhræddur um, að þær yrðu samþ., því að ekki veitir af að reyna að betrumbæta þetta verk hæstv. ráðh. Hvers vegna hræddur, og hvað er hann að segja? Það er þá verið að stofna málinu í voða, segir hann. Ég fer að halda, að hæstv. ráðh. komi með þessi þýðingarmiklu mál alltaf á síðustu dögum þingsins til þessarar hv. d. til þess að geta borið fyrir sig annan eins málflutning og þennan og komið fram biðjandi um það, að ekki verði nú hreyft við neinu, sem hann komi með, því að þá sé málinu stefnt í hættu. Og í hvaða hættu er þá málinu stefnt? Ekki í neina hættu varðandi upphæð hinna almennu íbúðarlána, því að það er, eins og ég sagði, staðfesting á ákvörðun, sem búið er að taka og þarf ekki að breyta lögum til. Þetta er því sýndarmennska. En hitt atriðið, ef ætti að taka eitthvert mark á rökum hæstv. ráðh., á ekki að koma til framkvæmda fyrr en á næsta ári, og þá sé ég ekki að miklu sé hætt. Ég held, að þessi hv. d. ætti einmitt, þó að tími sé naumur, að taka málið til gaumgæfilegrar athugunar og freista þess að koma einhverri mynd á þessa ómynd, sem hæstv. ráðh. leggur hér fram. Þess vegna held ég, að hæstv. ráðh. eigi ekki að gera sér neinar gyllivonir um, að það verði ekki lagðar fram brtt. við þetta frv. En þegar að því og 2. umr. kemur, er tækifæri til þess að ræða málið nánar.