13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3492 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

236. mál, launaskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 665 er frv. til l. til breyt. á l. nr. 14 frá 21. marz 1965, um launaskatt, sbr. l. nr. 104 31. des. 1972. Efni þessa frv. er það að undanskilja, auk þess sem áður var undanskilið launaskatti, tekjur sjómanna á íslenzkum fiskiskipum, sem aflað er í tengslum við úthald skipanna til fiskveiða. Þegar samið var um fiskverð fyrir síðustu áramót, var það einn þáttur í því samkomulagi, að útgerðarmenn greiddu ekki þennan launaskatt beint, heldur væri hann greiddur í verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Þetta varð á sínum tíma til þess að skapa lausn þess máls fyrir s.l. áramót, svo að útgerð gat hafizt strax upp úr áramótunum, eins og æskilegt var og allir óskuðu eftir. Efni þessa máls skýrir sig raunar sjálft, og ég sé því ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð. Það fékk góða afgreiðslu í hv. Nd. og ég treysti því, að það fái sömu meðferð hér og geti farið með hraða í gegnum þessa hv. deild.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.