13.04.1973
Neðri deild: 88. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3507 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég skal fúslega viðurkenna, að þetta frv. er óeðlilega seint á ferðinni. Ég hefði gjarnan fyrir mitt leyti viljað hafa það miklu fyrr á ferðinni. Það er ljótur siður að þurfa að vera með stórmál alveg á síðustu dögum þingsins, og ég undansel mig ekkert þeirri sök. En sem betur fer er þetta mál, sem hér liggur fyrir, tiltölulega einfalt. Hér er um hreint ákvörðunaratriði að ræða um það hvort eigi að leggja á tiltekið gjald og ríkissjóður að borga þar ákveðna fjárhæð á móti. Lög um fiskveiðasjóð voru á sínum tíma þannig uppbyggð, að megintekjustofn hans var ákveðinn hluti af útflutningsgjaldi og ríkissjóður átti að borga jafnhátt framlag á móti. En frá því var horfið, því miður, og ríkisframlagið var lækkað. Það er ekki rétt, að ég hafi verið sérstaklega andvígur því að afla fiskveiðasjóði tekna á undanförnum árum. Ef hv. þm. 10. þm. Reykv. vildi fara hér í þskj. og kanna það, mundi hann þvert á móti finna nokkrar till. frá mér á síðari árum um að auka framlag til fiskveiðasjóðs úr ríkissjóði, þannig að það haldist rétt hlutfall, það sé jafnmikið og útflutningsgjaldið.

En það er alveg rétt, að hér er um það að ræða að leggja á ríkissjóð allverulegan bagga, þar sem er um þetta hátt gjald að ræða, það er orðið 1%. En það á aðeins að standa í stuttan tíma, eða í 21/2 ár, vegna sérstakra átaka, sem hér er um að ræða. En þær álögur, sem lagðar verða á ríkissjóð samkv. þessu frv. á yfirstandandi ári eru ekki mjög miklar, einhverjar verða þær þó, því að hér er aðeins um að ræða þá framleiðslu sjávarafurða, sem verður til eftir 1. júlí, og að miklum meiri hluta ekki komin í greiðslu né búið að borga af henni útflutningsgjöld fyrr en eftir áramót. En eitthvað af þeirri framleiðslu verður þó flutt út og borgað fyrir áramót og mótframlag ríkissjóðs því fallið í gjalddaga. En hér er ekki um stóra fjárhæð að ræða, því að það er reiknað með því, að útflutningsgjald á síðari hluta ársins geti numið í kringum 50–55 millj. kr., og væri hugsanlegt, að kannske 15–20 millj. kr. af þessu væri raunverulega gjaldfallið á þessu ári.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. og ég þóttist líka hafa undirstrikað í mínum fáu framsöguorðum, að þessi skattur gerir í raun og veru ráð fyrir minni möguleikum til hækkunar á fiskverði til bæði útgerðarmanna og sjómanna en annars væri út af fyrir sig mögulegt. Ég býst við því, að 1% útflutningsgjald muni raunverulega nema 11/2-2% lækkun á fiskverði, nokkuð mismunandi eftir tegundum. En ég legg fram þetta frv. í fullu trausti þess, að eftir sem áður verði hægt að tryggja það, að hækkun á fiskverði verði, t.d. 1. júní n.k., svo rífleg, að sjómenn fái fyllilega jafnmikla launahækkun og aðrir launþegar í landinu fá eða hafa fengið, frá því að laun sjómanna voru síðast ákveðin.

Ég held, að það sé enginn vafi á því, að útflutningsverðhækkunin veitir okkur þennan möguleika, því að þannig er sem sagt nú orðið staðið að ákvörðun á fiskverði, að í meginatriðum er miðað við það, að sjómenn fái sambærilega launahækkun og aðrir og að útgerðin fái viðunandi rekstrargrundvöll. Það er það, sem gengið er út frá, að ætti að takast í þessu tilfelli.

Ég vil svo þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir undirtektir hans hér. Hann er í aðalatriðum samþykkur því, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að styrkja fiskveiðasjóð, og það kemur öllum þeim, sem starfa við sjávarútveg, að gagni. En ég er honum líka sammála um það, að slíkt verður að gera, þegar farið er inn á slíka skattlagningabraut, sem hér er farið inn á, með þeim fyrirvara, að það verði ekki til þess, að laun sjómanna geti ekki haldið fyllilega í við laun annarra stétta.