06.11.1972
Neðri deild: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég var meðflm. að þessu frv., sem lagt var fyrir Alþ. í fyrra og er endurflutt nú með nokkrum breytingum og liggur fyrir til umr. Eins og fyrsti flm. frv. tók í raun og veru fram í framsöguræðu sinni fyrir því, gerðum við nokkra breyt. á frv. frá því í fyrra í því augnamiði að koma til móts við óskir gagnrýnenda án þess að hverfa frá þeirri grundvallarbreyt., sem við viljum gera á mjólkursölumálunum.

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi mál hafi í raun og veru verið til athugunar í mörg ár, því að hvað sem segja má um 38 ára gamalt fyrirkomulag, sem deilt var um á þeim tíma, fer ekki hjá því, að það sölufyrirkomulag er fyrir löngu orðið úrelt, eins og auðvitað allt, sem verður gamalt, það þarf endurbóta við. Þeir, sem hafa farið með stjórn þessara mála, m.a. Mjólkursamsalan í Reykjavík eða stjórn hennar, hafa auðvitað viðurkennt í verki á síðustu árum, að hún hefur orðið að hverfa frá þeirri stefnu, sem sett var fyrir 38 árum, með því að veita heimild til mjólkursölu í allmörgum verzlunum á því svæði, sem Mjólkursamsalan nær yfir, þó að við og ýmsir aðrir teljum, að hún hafi verið fullsvifasein í þessum breyt. og hefði mátt ganga lengra í þessum efnum á þessu tímabili.

Hins vegar skal ég segja um Mjólkursamsöluna í Reykjavík og stjórn hennar til lofs, að hún hefur verið að mörgu leyti frjálslyndari í úrbótum á þessu heldur en sumar minni mjólkursamsölur úti um Íand, en þar er enn í dag — í árslok 1972 — boðið upp á það, að ein verzlun selji mjólkurafurðir og aðrar matvöruverzlanir, sem verzla einnig með allar landbúnaðarafurðir og líka mjólkurafurðir, svo sem osta, fá ekki að selja mjólk og verða að sækja mjólkina eins og hver annar neytandi inn í þá einu sölubúð, sem verzlar með mjólk.

Í bréfi, sem ég fékk í fyrra, rétt áður en við lögðum þetta frv. fram, frá einni verzlun í bæ úti á landi, þar segir: „Frá júníbyrjun til ársloka 1971, þá seldum við hér í verzluninni mjólk og mjólkurafurðir fyrir 534 688 kr. eða að meðaltali fyrir 76 384 kr. á mánuði.“ Þetta er fremur lítil matvöruverzlun, en fullkomin að öllu leyti hvað hreinlæti snertir. „Til þess að ná í þessar vörur,“ segir í bréfinu, „sendum við mann á bíl upp í sölubúð kaupfélagsins, staðgreiðum vöruna og dreifum síðan bæði beint úr búð op sendum heim. Fyrir þessa þjónustu fáum við ekki eyri, hvað þá meir. Auk þess vil ég taka fram og leggja áherzlu á, að hið sama gildir um útvegun mjólkurvara fyrir útgerðina, nema varan er skrifuð hjá viðkomandi útgerð. Á það skal bent, að þótt um sé að ræða 100 lítra eða meir fyrir bát í einu, þá fæst það ekki afgreitt úr mjólkurstöð, heldur gengur það eins fyrir sig, verzlunin verður að sækja það í þessa einu verzlun til þess að uppfylla pöntun þessara viðskiptamanna.“

Hv. 2. þm. Sunnl. sagði, að þessar óskir væru fyrst og fremst komnar frá kaupmönnunum sjálfum. Ég vil benda bæði honum og öðrum andmælendum þessa máls á, að mér barst einnig í hendur í fyrra áskorun, sem send var til Mjólkursamlags Ísfirðinga úr einu kauptúni Vestfjarða, Suðureyrarhreppi, og þar segir í formála þessarar, áskorunar til Mjólkursamlagsins: „Við undirritaðir íbúar í Suðureyrarhreppi óskum eindregið eftir því, að báðar matvöruverzlanir vorar fái heimild til að verzla með mjólk og aðrar mjólkurafurðir frá Akureyri og Reykjavík, þá sjaldan ferðir eru þaðan. Þar sem fyrirsjáanlegt er nú þegar, að Mjólkursamlag Ísfirðinga getur ekki annað þeirri mjólkur-, skyr- og rjómaþörf, sem verða mun hér í vetur, eins og sannazt hefur undanfarin ár, þá finnst okkur þetta lágmarkskrafa og svo sjálfsagt, að ekki þurfi að biðja um leyfi.“

Undir þessa áskorun rituðu á ekki stærri stað tæplega 150 manns. Ég á ljósrit af þessum áskorunum, sem ég vildi mjög gjarnan gefa hv. 2. þm. Sunnl. til þess að sýna, að þetta er ekki neitt einkamál nokkurra kaupmanna, sem vitaskuld í augum sumra eru aldrei neins góðs maklegir.

En nú skulum við líta á dæmið frá sjónarmiði landbúnaðarins, frá sjónarmiði mjólkurframleiðenda. Ég trúi því ekki, að bændur, mjólkurframleiðendur, séu svo þröngsýnir, að þeir viðurkenni það ekki, að verzlun, sem uppfyllir þau skilyrði, sem gerð eru frá heilbrigðissjónarmiði, og selur allar landbúnaðarafurðir, kjöt og osta, megi ekki einnig selja mjólk. Ég get ekki skilið, að það sé frjálslyndi, að í 3000 íbúa kaupstað megi aðeins vera ein mjólkurútsala, en 2 eða 3 aðrar verzlanir, sem verzla með allar aðrar landbúnaðarafurðir og allar matvörur, megi alls ekki selja mjólk. Ég trúi því ekki, að jafnsanngjarn og ágætur maður og Z. þm. Sunnl. er geti mælt þessu fyrirkomulagi bót.

Nú skal ég taka undir það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það geti um einhverjar aðrar till. verið að ræða til úrbóta frá því, sem nú er. Það er búið að ræða úrbætur á þessum málum í mörg ár og frv. flutt á síðasta þingi, svo að það hefur, eins og hann gat réttilega um, verið tækifæri til fyrir mjólkurframleiðendur sjálfa eða forustumenn þeirra að taka málið í sínar hendur, játa það alveg skilyrðislaust, að það þurfi hér úrbóta við, a.m.k. á sumum stöðum á landinu, og ráða þá ferðinni sjálfir í sambandi við úrbætur.

Ég vona, að ég megi segja það fyrir hönd okkar flm. þessa frv., að nú leggjum við mikla áherzlu og mikið kapp á, að þetta frv. liggi ekki mánuðum saman í þeirri n., sem fær það til afgreiðslu. Við leggjum á það höfuðkapp, að þetta frv. með þeim breytingum, sem n. kann að leggja til. fái fullnaðarafgreiðslu hér á yfirstandandi Alþ., þannig að það verði breytingar á þessum málum frá því, sem verið hefur.

Hv. 2. þm. Sunnl. taldi, að það hefði orðið verulegur samdráttur í mjólkurframleiðslu, og var ekki mjög bjartsýnn á framtíð þessa atvinnuvegar. Vitaskuld skiptast á skin og skúrir í allri starfrækslu og auðvitað einnig í þessum atvinnuvegi. Þeir, sem mestar áhyggjur hafa haft á undanförnum árum af offramleiðslu landbúnaðarafurða, geta nú farið að sofa rólegar fyrir sínum áhyggjum, því að ég held, að það verði ekki mesta vandamál okkar Íslendinga of mikil framleiðsla á landbúnaðarafurðum. En hitt vil ég segja við hv. 2. þm. Sunnl., að þó að veitt verði leyfi til að selja mjólk og mjólkurafurðir í fleiri verzlunum en nú er, þá mun það ekki verða til þess að draga úr mjólkurframleiðslunni í landinu. Ég er hræddari við, ef aftur skýtur upp hugmyndinni um fóðurbætisskattinn, að hann verði þyngri á metununum í sambandi við mjólkurframleiðslu, en því skal ég lofa hv. 2. þm. Sunnl. og öðrum andstæðingum fóðurbætisskattsins, að ég skal koma til liðs við þá með mínu atkv. hér á Alþ. til þess að drepa þann skatt á bændur.

Eins og fram hefur komið áður í þessum umr., hefur verzlunin breytzt mjög á síðari árum. Það eru starfandi verzlanir með mjög fullkomin tæki og í fullkomnu húsnæði, sem selja almennar matvörur. En það er mikið atriði fyrir landbúnaðinn, að þessar vörur séu á boðstólum sem víðast í hinum almennu matvöruverzlunum og á þeim stöðum, sem eru opnir lengur en venjulegar verzlanir. Ég vil t.d. benda á þann stað, sem ég er frá og þar sem er ein mjólkurverzlun í höndum eins aðila. Þar er önnur verzlun, sem hefur opið á sunnudögum fyrir hádegi, og þeir, sem hana eiga, bera mjólkina og borga hana frá deginum áður yfir í sína búð, og þeir neytendur, sem vantar mjólk á sunnudögum,

kaupa hana í þessari verzlun. Ég hygg, að þegar þessari þjónustu er hætt eða þessi verzlun liðin undir lok, vegna þess að aðrir vilja hafa einokun á ákveðnum tegundum vöru, sem þar seljast, þá dragi það töluvert úr mjólkursölunni.

Ég vona, að þrátt fyrir það að andóf hafi heyrzt í þessu máli, þá skoði menn betur og nákvæmar afstöðu sína til þess, því að hér er á ferðinni framfaramál fyrir landbúnaðinn, sem eykur og bætir dreifingarkerfið á landbúnaðarafurðum, og jafnframt er verið að kveða niður einkarétt ákveðinna verzlana til þess að selja ákveðnar vörur. Við erum fyrir löngu komnir út úr þeim tíma, og það eigum við að vera hvað snertir sölu á öllum vörum.