13.04.1973
Neðri deild: 88. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3514 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt, að það frv., sem hér er til umr., fjalli um viðamikil, viðkvæm og flókin mál. Ég efast ekki um það, að svonefnd fiskveiðilaganefnd, sem samið hefur þetta frv., hafi lagt sig verulega fram um að vinna starf sitt vel. Á hinn bóginn er alveg ljóst, að frv. er enn aðeins hálfunnið, ef svo mætti segja. Á því eru margir og augljósir agnúar, sem ég er viss um, að hv. nm. hefðu orðið sammála um að sníða af frv., ef betra tóm hefði gefizt til að athuga það. Sem dæmi um þessa agnúa mætti nefna, að ég held, að hvergi sé á það minnzt í frv., að ráðh. sé heimilt að leyfa spærlingsveiðar innan við 12 mílurnar, nema í tilraunaskyni, eftir því sem ég fæ bezt séð. Hér er þó um að ræða fisktegund, sem gæti orðið mjög hagkvæmt að nýta, sér í lagi vegna þess, að afkastamikil atvinnutæki eru fyrir hendi í landi, sem eru illa nýtt eftir síldarbrestinn, eins og menn vita. En þessi atvinnutæki gætu hæglega unnið þennan fisk.

Þá er eitt atriði við þetta frv., sem mér kemur spánskt fyrir, en það er hvergi minnzt á það í frv. að efla landhelgisgæzluna, til þess að hægt sé að koma við meira eftirliti með þeim veiðum, sem fjallað er um í þessu frv., og þeim reglum, sem settar eru um þessar veiðar. Þetta finnst mér óeðlilegt, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, að það eigi fyrst og fremst að efla landhelgisgæzluna, koma þar á fót sérstakri deild. Hún gæti unnið í tengslum við aðra aðila, t.d. ferskfiskeftirlitið og vísindastofnanir sjávarútvegsins. Ef slíku virku eftirliti væri komið á fót og það eflt mjög, væri í lófa lagið fyrir ráðh. að stöðva smáfiskadráp, ef það þykir keyra úr hófi á einhverjum svæðum landsins. En í stað þess, að það sé gert með þessum hætti, er í frv. ákveðið, hvaða svæði séu mestu ungfiskssvæðin og hver ekki. Þetta held ég, að sé alveg út í hött og í rauninni alveg grátbroslegt að ætla sér að kveða á um það hér á hinu háa Alþ., að ungfiskur skuli eiga eins konar lögheimili á ákveðnum svæðum á landgrunninu á ákveðnum tímum. Það er staðreynd, að það fer fyrst og fremst eftir straumum og hitastigi sjávar, hvar ungfiskurinn heldur sig á hverjum tíma. Þetta vitum við allir, sem höfum einhvern snefil af þekkingu á sjávarútvegi, og hér kemur alveg heim sú þekking, sem fiskifræðingar hafa á fiskigöngum. Ég held því, að það væri miklu æskilegra, að meginstefnan í þessu efni væri að efla mjög eftirlit með veiðunum og takmarka sóknina, eftir því sem með þarf á hverjum tíma. Og svo er eitt t.d., það er hvergi vikið að því í þessu frv. að takmarka sóknina, t.d. miðað við einhvern ákveðinn bátafjölda, heimabáta frá einhverjum ákveðnum byggðarlögum eða slíkt. Hv. þm. Guðlaugur Gíslason var hér að tala um þessa hluti, þ.e.a.s. hann var að tala um, að það þyrfti að hafa hliðsjón af því, hvernig útgerðarþættirnir væru í hverjum landshluta, og þetta er alveg rétt. En það er spurning, hvort eigi ekki að fara einhverjar slíkar leiðir til þess að takmarka sóknina á mið þessara báta og friða þá heldur meiri svæði en gert er núna. Allt eru þetta mál, sem ég held, að hefðu þurft að koma til miklu rækilegri skoðunar.

Það er nú svo, að það eru miklu fleiri en ég, sem hafa þessa meginskoðun um það, að þetta frv. sé of einhliða, það sé slegið allt of miklu föstu og það sé betra að hafa aðra skipan á þessum málum. Ég er með hér í höndum bréf frá Fiskifélagi Íslands, þar sem þessum skoðunum er mjög haldið á lofti. Ég vil lesa hér hluta úr þessu bréfi fyrir hv. þm. Þótt þeir hafi allir fengið það, er ekki víst, að þeir hafi kynnt sér efni þess nema að litlu leyti, en bréfið er svo hljóðandi:

„Eitt megineinkenni þessa frv. er, að reynt er að koma á mjög fastmótaðri skipan togveiða. Ákveðnar eru stærðir skipa, sem nánast jafngildir lögfestingu á skipastærðum. Ákveðin eru svæði og ákveðin eru tímabil, sem veiðar má stunda á. Telja verður þetta óhyggilegt, ef hliðsjón er höfð af þeim óstöðugleika, sem einkennir sjávarútveginn. Breyttar fiskigöngur og fiskigengd geta valdið því, að nauðsynlegt getur verið að gera skjótar ráðstafanir, eigi ekki að tapast verulegur afli. Má á það benda, að t.d. mundi verulegur hluti kolaaflans við Vestfirði tapast og væntanlega verður ekki af spærlingsveiðum fram til 1976, verði lögin samþykkt í óbreyttu formi. Í till. sínum til fiskveiðilaganefndar lagði Fiskifélagið áherzlu á sveigjanleika, þannig að lögin væru rammalög, sem gæfu sjútvrn. vald til þess að ákveða um veiðisvæði, skipastærðir og annað, er máli skiptir, í Ijósi þeirra aðstæðna, sem ríkjandi verða á hverjum tíma. Fiskifélagið er enn á þeirri skoðun og telur, að það sé illa farið, ef löggjöf kemur í veg fyrir, að nýting nýrra auðlinda og frekari nýting vannýttra stofna verði möguleg“.

Ég vil bæta hér inn í þetta bréf, að mér sýnist, af minni fátæklegu þekkingu á staðháttum við Norðurland, að ef þetta frv. verður að lögum, verði sum mið fyrir Norðurlandi alls ekki nýtt, en þau eru nýtt með togveiðum. Það er alveg eins og hv. þm. Guðlaugur Gíslason sagði, að bátaflotinn er þannig samsettur á Norðurlandi, að það er mikið um litla báta, sem stunda net- og línuveiðar, en síðan er ekki mikið um miðlungsbáta og þeir stunda þá yfirleitt ekki þær veiðar, heldur togveiðar. Ef þessi togveiðifloti fer yfir þau mörk, sem er lagt til í frv., verða sum mið á Norðurlandi, sýnist mér, ekki nýtt með öðrum veiðarfærum a.m.k. ekki eins og bátaflotinn er samansettur í dag. Þá segir Fiskifélagið auk þess um þetta frv.:

„Annað einkenni þessa frv., sem Fiskifélaginu þykir ástæða til þess að gera aths. við, er það hlutverk, sem frv. ætlar Hafrannsóknastofnuninni. Í fyrsta lagi er henni ætlað allt eftirlit með því, að ákvæðum l. sé framfylgt. Með þessu er verið að gera stofnunina að lögreglu. Telur Fiskifélagið þetta vanhugsað og bendir á samþykkt fiskiþings frá 1972, þar sem lagt er til, að sérdeild hjá landhelgisgæzlunni annist nauðsynlegt eftirlit með framfylgd ákvæðanna um fiskveiðar. Auk þess má benda á aðra aðila, svo sem Fiskmat ríkisins, sem er í mun nánari tengslum við veiðarnar og hefur mun betri aðstöðu til að sinna ákveðnum þáttum eftirlitsins en Hafrannsóknastofnunin. Telja verður afar óæskilegt, að tími háskólamenntaðra sérfræðinga fari í einföld eftirlitsstörf, sem reyndir sjómenn væru jafnvel betur hæfir til þess að sinna.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir mjög aukinni tillögugerð Hafrannsóknastofnunarinnar. Í sjálfu sér er ekkert óæskilegt að fá fram vísindalega grundvallaðar till. En allur tillöguréttur útvegsins er borinn fyrir borð, ef undan er skilinn takmarkaður réttur til að óska eftir lokun svæða fyrir línu- og netaveiðar“.

Það er ýmislegt fleira í þessu bréfi, en niðurstaðan í þessum þætti bréfsins er svo hljóðandi:

„Að öllu athuguðu virðist frv. færa Hafrannsóknastofnuninni meiri verkefni en hún fær við ráðið, eigi hún að sinna meginhlutverki sínu, sem eru vísindalegar rannsóknir, sem skyldi, og þar liggja fyrir ótal óleyst verkefni“.

Ég vil aðeins í sambandi við þetta ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég held, að hér sé komið að máli, sem er ákaflega veigamikið. Það er það, að í stað þess að hugsa sér, að Hafrannsóknastofnunin verði þarna lögregla, verði landhelgisgæzlan efld. Sérstakri deild landhelgisgæzlunnar verði falið að fylgjast mjög vel með veiðum, hagnýtingu landhelginnar, eftir lögum, sem um það verða gerð, jafnvel þó að þetta frv. verði ekki að lögum, sem ég vona, að verði ekki, ekki óbreytt a.m.k. þannig verði þá um hnútana búið, að gæzlan geti gert réttum aðilum viðvart, sé um brot að ræða á ákvæðum laganna, t.d. á ákvæðum laganna um smáfiskadráp eða eitthvað því um líkt. Á þann hátt verði reynt að koma upp virku, en öflugu kerfi, sem hagnýti landhelgina á hagkvæman hátt, en ekki eins bundnu og lagt er til í þessu frv. — Þá segir í bréfi Fiskifélagsins einnig:

„Í sambandi við 4. gr. ber að árétta þá hættu, sem skapazt getur við það að ákveða stærðarmörk skipa, eins og þar er um fjallað, með lögum. Benda má á ákveðnar till. frá samtökum útvegsmanna og sjómanna á svæðinu frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur og stjórnar Fiskifélagsins um stærðarmörk togveiðiskipa, sem heimild fengju til þess að veiða á sérstökum svæðum á vetrarvertíð“.

Ég vil í sambandi við þetta taka mjög undir þau orð, sem hér hafa fallið um þetta efni frá hv. 10. þm. Reykv., því að ég held, að þessi lögfesting á stærðarmörkum skipa sé afar hæpin. Við höfum raunar þegar reynslu af þessu, því að við höfum eignazt ótölulegan fjölda báta 105 tonna, síðan sú regla var sett í lög, að þeir mættu veiða á sérstökum svæðum á grunnu vatni. Og það hefur komið í ljós, að þessir bátar eru ekki heppilegir sem vertíðarbátar. T. d. hefur Einar Sigurðsson útgerðarmaður hætt að láta smíða þannig báta fyrir sig, en lætur smíða 150 tonna báta. Þessir 150 tonna bátar eru bæði hagkvæmari sem vertíðarbátar og eins eru þeir öruggari fyrir sjómenn, en þeir eru með ákaflega svipað vélarafl og 105 tonna bátar og ákaflega svipaðan veiðarfæraútbúnað. Þessi mörk, 105 tonn, virðast því vera hreinlega út í loftið og til þess fallin, að það verði smíðaðir óhagkvæmir bátar. Þegar togurum verður stuggað út fyrir 12 mílur að mestu leyti, — eftir þessu frv. á víst að gera það, — mundi að mínu viti aukast mjög eftirspurn eftir 349 tonna skuttogurum. Þeir skuttogarar yrðu áreiðanlega eins opnir og hægt væri, til þess að hægt væri að mæla þá sem mest niður, og með því væri öryggi og vinnuaðstöðu sjómanna kastað fyrir róða. Ég held því, að þessi lögfesting á stærðarmörkum skipa sé afar hæpin, svo að ekki sé meira sagt, og ég held, að menn ættu að athuga betur afleiðingarnar af þessu, áður en það verður samþykkt. Ég vil benda á reynslu Norðmanna í sambandi við þetta, en þar eru stærðarmörk, illu heilli, líka lögfest, og þar er ótölulegur aragrúi af 299 tonna togurum. Menn geta kannske getið sér til, vegna hvers það er, en það er vegna þess, að þar er stærðin afmörkuð við 300 tonn.

Ég ætlaði svo, herra forseti, að koma hér sérstaklega að málum okkar Norðlendinga út af þessu frv. Við höfum fengið send hér inn á hv. Alþ. mótmæli frá ýmsum aðilum í sambandi við þetta. Við höfum fengið mótmæli frá útgerðarmönnum togveiðiskipa á Norðurlandi og skipstjórum. Þau eru efnislega þannig, að þeir benda á það ósamræmi, sem fram kemur í veiðum botnvörpuskipa norðanlands og sunnan, þar sem veiðar eru leyfðar sunnanlands á allt að þriggja mílna belti, — það má bæta því við, að það er frá fjöruborði, en ekki frá grunnlínupunktum, eins og fyrir norðan, — en norðanlands hvergi nær en að 9 mílna belti. Margar aðstæður styðja að því, að það sé með öllu óviðunandi, að þessu frv. verði flaustrað í gegnum þingi að þessu sinni, segja þessir aðilar.

Mér var líka að berast skeyti frá bæjarráði á Akureyri. Þar var gerð svo hljóðandi ályktun í gær:

„Bæjarráð Akureyrar telur varhugavert að afgreiða á yfirstandandi þingi frv. til l. um veiðar með botnvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni. Frv. þetta er nýlega fram komið, og bendir margt til þess, að þetta þurfi mun meiri athugunar við en ráðrúm er til nú“.

Mér er ekki grunlaust um, að það séu fleiri erindi sem þessi, sem liggja fyrir hv. þm. Það gefur auðvitað auga leið, að á þeim fáu dögum þingsins, sem eftir eru, úr því að hæstv. ríkisstj. vill láta senda okkur heim fyrir páska, gefst ekki kostur á að endurskoða þetta mál, svo sem vert væri. En það er alveg ljóst, að á því eru margir agnúar, sem þyrfti að kanna miklu betur.

Ég vil taka það fram að lokum í sambandi við þetta mál, að ég mundi að mörgu leyti geta sætt mig við þetta frv., eins og frá því er gengið fyrir Norðurland, þ.e.a.s. þær friðunaraðgerðir, sem þar eru gerðar, svo fremi að um hliðstæðar aðgerðir væri að ræða á öðrum svæðum í kringum landið. En það er því miður langur vegur frá því. Og eins og ég sagði áðan, er eiginlega eins og menn vilji með þessu frv. kveða á um það, að ungfiskurinn eigi lögheimili á Norðurlandi eða við Norðurl. e., sem er algerlega út í bláinn, eins og ég sagði áðan, en ákvæðum um veiðar í kringum Hvalbak, þar sem er mjög mikið ungfiski, og fyrir Austurlandi er haldið óbreyttum. Fyrir Austurlandi eru miklu minni friðunarráðstafanir ákveðnar en við Norðurland, jafnvel þótt vitað sé, að ungfiski sé þar ekki síður en við Norðurland, a.m.k. við sumar aðstæður, þ.e.a.s. þegar svo háttar til með strauma og sjávarhita.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt um þetta veigamikla mál, en ég vil beina því til þeirra aðila, sem að þessu máli vinna, að þeir skoði það gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt að líta betur á málið, endurskoða þetta frv. í heild og halda áfram þeirri ágætu vinnu, sem í þetta hefur verið lögð. Það hefur verið lögð í þetta mikil vinna. Mér segir svo hugur um, að ef þetta frv. verður samþ. núna, og fólk fær alls ekki að segja hug sinn um það, verði algert uppreisnarástand í landinu í sjávarplássunum, ef þessu verði flaustrað af, án þess að við fólk verði a.m.k. talað. Það liggur alveg ljóst fyrir, að þótt núgildandi lög um bann við veiðum með botnvörpu og flotvörpu hafi gildistíma til 1. júlí, er mjög auðvelt að framlengja þau lög, t.d. til áramóta, annaðhvort með því að láta þau ganga greiðlega í gegnum hið háa Alþ. á síðustu dögum þess eða þá með brbl. Þetta er mjög auðvelt að gera, og því ber enga brýna nauðsyn til að samþykkja þetta frv. eins og er. Ég vil því enn einu sinni beina því til þeirra aðila, sem um þetta mál hafa fjallað, bæði fiskveiðilaganefndarinnar, hæstv. forseta og hæstv. ríkisstj., að þetta frv. verði skoðað betur og það lagt fyrir á haustþinginu.