07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

262. mál, afkomu skuttogara

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 32 fsp. til hæstv. sjútvrh. um tvö meginefni, þ.e.a.s. um afkomuhorfur skuttogara og hraðfrystihúsa.

Eins og kunnugt er standa nú fyrir dyrum stórfelldar endurbætur og endurbygging hraðfrystihúsa vegna aukinna hreinlætiskrafna og hagræðingar í rekstri þeirra. Þá er einnig í smíðum mikill floti skuttogara. Það, sem fyrst og fremst vakir fyrir mér með því að bera fram þessar fsp., er að fá upplýst, hvernig horfir um afkomu þessara þýðingarmiklu atvinnutækja, þegar í þessa stórfelldu fjárfestingu er verið að ráðast og ekki síður eftir að í hana hefur verið ráðizt. Áætlanir um slík efni hljóta jafnan að byggjast að nokkru á óvissum forsendum, en eru þó eina hugsanlega leiðin til þess að mynda sér fyrirfram skynsamlega skoðun á því, hvernig afkomuhorfurnar eru. Þetta er vitanlega þeim mun mikilvægara, þar sem hér er um að ræða þá þætti atvinnulífsins, sem hafa grundvallarþýðingu fyrir allan þjóðarbúskapinn. Þá tel ég einnig brýna nauðsyn bera til þess að hafa niðurstöðu slíkra áætlana jafnan í huga, þegar ákvarðanir eru teknar um grundvallaratriði, sem varða afkomuhorfur sjávarútvegsins, þannig að ekki sé rennt blint í sjóinn um, að nokkur grundvöllur sé fyrir rekstri þessara atvinnutækja. Þetta gildir ekki sízt, þegar um er að ræða mótun almennrar efnahagsstefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Hún verður auðvitað að miðast við, að unnt sé að reka þessi atvinnufyrirtæki á eðlilegan hátt og þau geti endurnýjað sig. Því miður sýnist það vera svo, að á sama tíma sem fyrirhugað er að ráðast í svo mikla fjárfestingu í fiskiskipum og fiskíðnaði og raun ber vitni hefur sigið mjög á ógæfuhlið um afkomuhorfur sjávarútvegsins á landinu á undangengnu ári. Þrátt fyrir síhækkandi verðlag á fiskafurðum á erlendum mörkuðum og meira heildarverðmæti sjávarafurða en nokkru sinni hefur nú síðustu mánuði ársins orðið að grípa til þess ráðs að greiða úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins upphæð, sem nemur 88 millj. kr., áætlað, til þess að endar náist saman í rekstri útgerðar og fiskvinnslu, svo sem sjá má á stjfrv., sem liggur fyrir hv. Alþ. Hér er einungis um tíunda hluta ársaflans að ræða, þannig að miðað við svipuð aflabrögð og nú eru og líklegt útflutningsverð má búast við, að mörg hundruð millj. kr. skorti til þess, að sjávarútvegurinn nái endum saman á næsta ári. Benda má á í því sambandi, að samið hefur verið um 6% grunnkaupshækkun frá 1. marz n.k. og að búast má við öðrum verulegum tilkostnaðarhækkunum, auk þess sem flestir kunnugir telja, að meðalhækkun á útflutningsverði sjávarafurða verði mun minni en á yfirstandandi árí og miklu minni en varð á árunum 1970 og 1971.

Ástæðurnar fyrir því, að svo er komið um almennar afkomuhorfur í sjávarútvegi, eru fyrst og fremst tilkostnaðarhækkun, sem talin er nema allt að 40% á einungis tæpu ári, og að nokkru er hér um að ræða rýrari afla en á algerum metárum á nokkrum fisktegundum.

Að mínum dómi verður að horfa á þann vanda, sem nú blasir við í sjávarútveginum, frá þeim sjónarhóli, að verið er að ráðast í þá stórfelldu fjárfestingu, sem raun ber vitni. Sá vandi er vitanlega miklu meiri en verið hefði að öðrum kosti. Ekki dugir því að láta sem hann sé ekki til. Við verðum að horfast í augu við hann og leysa hann á einhvern hagkvæman hátt. Að öðrum kosti fáum við ekki nýtt til lengdar þau afkastamiklu grundvallaratvinnutæki, sem hér um ræðir. Ég vil því vænta greinargóðra svara frá hæstv. sjútvrh. við þeim spurningum, sem ég hef lagt fyrir hann á þskj. 32, þannig að þingheimur og þjóðin öll geti gert sér glögga grein fyrir því, hvernig horfir um afkomu þessa mikilvæga atvinnuvegar.