14.04.1973
Sameinað þing: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3528 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

19. mál, olíuverslun

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þessu máli, sem hér liggur fyrir, upplýsa það, að þessi athugun, sem till. gerir ráð fyrir, verður látin fara fram. Það hefur verið unnið talsvert að þessu máli að undanförnu, m.a. með því að fá hæfa og duglega menn til þessarar athugunar, og mér hefur m.a. komið til hugar, að einn af þeim mönnum, sem ætti að vera í þessari n., væri sá hv. þm., sem hér hefur talað fyrir málinu og virðist hafa sérstakan áhuga á því. Ég tel brýna nauðsyn á því að fá hér fram till. um það, hvernig eigi að endurskipuleggja olíusöluna í landinu. Þetta er búið að vera umræðuefni á Alþ. í langan tíma. Það er eflaust ekkert einfalt verk að koma á nýju skipulagi, a.m.k. ekki svo að öllum líki vel. En þessi athugun verður gerð og væntanlega liggja till. fyrir Alþ. um það, hvernig megi koma á betra skipulagi í þessum málum, áður en langt um líður.