14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3533 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

214. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og kom fram við 1. umr. þessa máls, er hér um að ræða samræmingu á l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum við þær breytingar, sem gerðar voru á l. um Stýrimannaskólann í Reykjavík með lögum frá 3. maí 1972. Vegna þeirra breytinga, sem þar voru gerðar, þótti nauðsynlegt að gera ýmsar orðalagsbreytingar og minni háttar samræmingarbreytingar á gildandi l. um þessi efni. Það hefur þótt eðlilegra að leggja fram um þetta sérstakt heildarfrv. en gera einstakar breytingar á l., sem þegar eru í gildi.

Meginbreytingin frá eldri l. er sú, eins og hv. þdm. mun reyndar vera kunnugt um, að gert er ráð fyrir samræmingu á námsefni 2. bekkjar farmannadeildar og 2. bekkjar fiskimannadeildar. Þeir, sem ljúka prófi úr 2. bekk stýrimannaskólans, fá því sömu réttindi, en það var ekki eftir eldra fyrirkomulaginu.

Ég held með tilliti til þess, að mál þetta er allrækilega skýrt í grg. og var einnig skýrt af hæstv. félmrh., þegar hann hafði framsögu fyrir því fyrir stuttu í d., að ég sjái ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. Það var athugað í sjútvn., og mælir n. einróma með því, að það verði samþ.