14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3546 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. ásamt þeim hv. 4. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf. Till. þessi er á þskj. 725 og er við 16. gr. Suður- og Suðvesturlandshérað, þ.e. H 1 í upphafi b-liðs 12. tölul., þar skuli verða H 2.

Það hefur mikið verið rætt um heilbrigðisþjónustuna og þetta frv., sem hér liggur fyrir. Því er ekki heldur að neita, að staða læknisins er þannig orðin, að læknar treysta sér ekki til þess að vera einir, en vilja vera í félagi við aðra, þ.e.a.s. fleiri saman til þess að geta tekizt á hendur þá miklu ábyrgð, sem fylgir starfi þeirra, og uppfyllt þær háu kröfur, sem til þeirra eru gerðar. Það er oft erfitt úti á landsbyggðinni að fara langan veg og það í mjög misjöfnum veðrum. Því er það, að við höfum flutt þessa brtt., að því að Búðardalur er þannig staðsettur, að þegar búið er að sameina hann öðru læknishéraði, Reykhólalæknishéraði, þá er um allmiklar vegalengdir að ræða. Í mörg ár hefur héraðslæknirinn í Búðardal orðið að þjóna Reykhólalæknishéraði, og þetta hefur m.a. leitt til þess, að það hefur verið miklu erfiðara að fá lækni í Búðardal en annars hefði verið. Þessir læknar hafa haft mikið að gera og vetrarferðirnar erfiðar, svo að þeir verða sjaldnast lengi á sama stað sakir annríkis. Frá Búðardal til Reykhóla er 94 km. vegalengd og mun lengra til þeirra staða innan læknishéraðsins, sem fjær eru en Reykhólar. Oft verður á veturna að fara fyrir Klofning og Strandir, sem kallað er, þ.e.a.s. út með Hvammsfirði og inn með Gilsfirði. Þá bætist þarna við 80 km. vegalengd, þannig að þetta eru ekki neinar smávegis ferðir, sem héraðslæknir verður að fara oft og einatt til þess að geta sinnt skyldum. Því er það, að ef heilsugæzlustöð í Búðardal á að koma að notum, þá er útilokað annað en þar séu tveir læknar til þess að tryggja, að fólkið fái þá þjónustu, sem til er ætlazt. Og til þess að slíkt takist, þá treysti ég því, að hv. þm. samþykki brtt. á þskj. 725.