07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

263. mál, afkoma hraðfrystihúsa

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hafa verið gerðar áætlanir um fjárfestingarþörf hraðfrystiiðnaðarins vegna endurnýjunar, stækkunar og aukinna hreinlætiskrafna?“ Að áætlanagerð um þetta efni er nú unnið í Framkvæmdastofnun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir því, að um meiri nákvæmni geti verið að ræða en í þeim frumdrögum að áætlun varðandi þessi efni, sem gerð hafa verið. En í þeirri athugun, sem fram hefur farið að undanförnu, hafa menn reynt að safna saman ýmiss konar upplýsingum varðandi kostnað í þessu sambandi, og þær upplýsingar, sem fyrir liggja, eru í aðalatriðum þessar, og vík ég þá að hverri spurningu út af fyrir sig.

Það er a-liður: „Hve mikla heildarupphæð er um að ræða næstu 3 ár“ — í sambandi við þessa fjárfestingarþörf hraðfrystiiðnaðarins í landinu? Það er ekki hægt að tilgreina sérstaklega fyrir næstu þrjú ár, því að það er aðeins um það að ræða, hve mikill þessi heildarkostnaður sé, hvort hann dreifist nákvæmlega á 3 ár eða 4, er enn ekki hægt að segja, það fer auðvitað eftir fjárhagslegri getu aðilanna. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að framkvæmdir í frystihúsum landsmanna, sem sérstaklega eru flokkaðar undir hollustuháttarframkvæmdir, geti numið 1500–1600 millj, kr. En það er tekið fram af þeim aðilum, sem hafa áætlað þetta, að hér getur verið um talsverðar skekkjur að ræða, því að hér er byggt á meira og minna ófullkomnum áætlanagerðum frá hverjum einstökum aðila, sem hér á hlut að máli, þar sem þeir hafa sjálfir ekki látið fullvinna áætlanir sínar um nauðsynlegar framkvæmdir.

Í öðru lagi er spurt: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til fjárútvegunar í þessu skyni?“ Það er gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður hafi árlega til fjármagn til þess að mæta lánsþörf þessara framkvæmda, og þannig hefur það verið á þessu ári og þannig er gert ráð fyrir því á næsta ári, en á Yfirstandandi ári er reiknað með, að lán til frystihúsanna, aðallega í þessu skyni, verði nokkuð yfir 300 millj. kr., en á næsta ári, er áætlað, að slík lán geti orðið um 400 millj. kr. En það verður að segja eins og er, að þarna blandast alltaf nokkuð saman lán út á framkvæmdir, sem eru flokkaðar beinlínis vegna- hollustuháttaframkvæmda, og lán vegna annarra meiri háttar endurbóta og stækkana, sem stundum eiga sér stað jafnhliða í húsunum. Rétt er að bæta við það, sem ég hér hef sagt um heildarkostnaðinn í sambandi við hollustuháttaframkvæmdir, sem ég nefndi 1500–1600 millj., þá hefur verið áætlað, að auk þess yrði um heildarkostnað að ræða, sem væri 600–700 millj. kr., sem rétt væri að flokka undir nýbyggingar og stækkanir, en fylgja með þessum framkvæmdum að talsverðu leyti. Og auk þess hefur verið lauslega áætlað, að framkvæmdir tilheyrandi þessum málum, sem mundu verða aðallega kostaðar af sveitarfélögum, gætu numið 500–750 millj. kr., þannig að heildarkostnaður í þessum efnum gæti verið samanlagt 2950 millj. kr.

Þá er spurt: „Hafa verið gerðar arðsemisáætlanir fyrir hraðfrystiiðnaðinn að þessum framkvæmdum loknum?“ Mér er ekki kunnugt um, að slíkar áætlanir hafi verið gerðar. Það hafa að sjálfsögðu verið gerðar áætlanir um rekstur hinna einstöku frystihúsa og rekstraraðstaða þeirra metin, þegar þau hafa sótt um lán til fiskveiðasjóðs, svo að varðandi þau hús, sem þegar hafa fengið afgreiðslu hjá fiskveiðasjóði og eru sumpart búin eða eru í framkvæmdum í sambandi við þessi mál, hafa verið gerðar áætlanir. En varðandi arðsemisáætlanir um rekstur hinna húsanna, sem enn hafa ekki sent inn lánbeiðni og enn hafa ekki að fullu ákveðið, hvernig þau vilja bregðast við þessum málum, hafa þær ekki verið gerðar, svo að mér sé kunnugt um, enda sýnist erfitt að gera slíkar áætlanir.

Og síðasta spurningin: „Ef svo er, hver er áætluð rekstrarniðurstaða hraðfrystihúsanna næstu 3 ár miðað við nýákveðið fiskverð, kaupgjald eftir grunnkaupshækkun á næsta ári og áætlað verðlag næsta árs?“ Hún fellur í rauninni niður með þessu, því að það er ekki hægt að setja þetta dæmi upp, fyrr en þá fyrir liggur, hversu kostnaðarsamar þessar framkvæmdir verða í hverju einstöku tilfelli. Mér er ekki heldur kunnugt um, að gerðar hafi verið neinar áætlanir um rekstur frystihúsanna á þeim grundvelli, að miðað hafi verið við nokkur ár fram í tímann. Þær áætlanir, sem gerðar hafa verið og hafa verið nánast úttekt á rekstri frystihúsanna, hafa verið miðaðar við yfirstandandi ár og næstkomandi ár. Slíkar áætlanir hafa verið gerðar eða spár um það hafa verið gerðar af hagrannsóknastofnuninni, en þær eru í rauninni ekki áætlanir af þeirri gerð, sem hér er spurt um.

Ég hef þá svarað því, sem í rauninni er hægt að svara í sambandi við þessa fsp.