14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3552 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég vonast til, að þau orð, sem ég segi hér, þurfi ekki að valda neinum deilum og umr. Ég er ekki flm. að neinni till., en skrifa undir nál. ásamt öðrum meðnm. með þeim fyrirvara, sem þar er um, að við áskildum okkur rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram koma.

Ég skal strax taka fram, eins og raunar margir hafa gert hér, að ég tel þetta eitt merkasta mál þingsins. Og ég vil strax segja, að ég lít ekki á það sem neina tilraun, síður en svo, — tilraun Ed: manna, sem flutt hafa hér brtt., til þess að tefja málið, þótt þeir séu að flytja sínar till. Ég hins vegar harma það og tel það aðfinnsluvert, hve seint þessi hv. d. fær málið til meðferðar, fyrst verið er að hafa deildaskiptingu á Alþ. Frv., sem hér er til umr., var útbýtt í Nd. 15. febr., en hv. Ed. fékk það til afgreiðslu fyrir örfáum dögum. Það eru þessi vinnubrögð, sem ég tel aðfinnsluverð, og að það sé síðan ætlazt til þess, að hv. Ed. afgreiði málið á skömmum tíma. Menn deila kannske um það, hvort sé hægt að halda þingi lengur áfram, ég blanda mér ekki inn í þær deilur, en endurtek, að það eru þau vinnubrögð, sem Nd. viðhafði í málinu, þessi seinagangur, sem var á afgreiðslu jafnþýðingarmikils máls og hér er um að ræða, frá þeirri hv. d., sem ég tel aðfinnsluverð.

Ég gat þess við 1. umr. málsins í þessari hv. d., að ég fagnaði málinu. Ég endurtek allt, sem ég sagði þar, og mun stuðla að því, að það nái fram að ganga. Ég gat þess þá, að samtök sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi hefðu fjallað mikið og ítarlega um þetta mál og þau hefðu lagzt eindregið gegn II. kafla frv., eins og ég tók fram þá. Nú kemur hann ekki til framkvæmda, fyrr en Alþ. ákveður annað, þannig að það ágreiningsefni, ef svo mætti segja, samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi varðandi þetta frv. er ekki lengur fyrir hendi. Mér er og vel kunnugt um það, að landshlutasamtökin í landinu hafa lagt mikla vinnu í að ræða og kynna þetta mál. Þetta er eitt af stærstu hagsmunamálum allra héraðanna. Þróun síðari ára sýnir, að það er vaxandi áhugi og aukinn skilningur á sem fullkomnastri heilbrigðisþjónustu, og er það vel. Margt hefur þegar verið vel gert, en margt er eftir hjá okkur á því sviði sem öðrum, og þarf kannske ekki að undra, þó að við, sem búum á margan hátt við erfiðar aðstæður, stöndum í einhverju að baki milljóna þjóðum.

Frv. er að vonum yfirgripsmikið og spannar yfir marga þætti, og eflaust kostar það mikla fjármuni að ná þeim markmiðum, sem þar er stefnt að, hvort heldur er í húsnæðismálum, varðandi tækjakost og starfskrafta, sem þar þarf til. En þeim fjármunum, sem til þessa verður varið, er að mínum dómi vel varið.

Það er vissulega erfitt hlutverk fyrir mig að koma hér fyrirvaralítið inn í umr. um þetta mál í stað hv. þm. Odds Ólafssonar, sem býr yfir meiri reynslu og þekkingu í þessum málum en nokkur annar hv. þm., að þeim öllum ólöstuðum. Ég ætla að koma nokkrum atriðum á framfæri, sem skýra afstöðu mína til málsins, þó að þau komi ekki fram í tillöguformi, og kem ég að því síðar.

Ég tel, að í landinu skorti stórauknar félagslegar rannsóknir á mörgum sviðum. Slíkar rannsóknir gefa áreiðanlega bendingar um orsakir ýmissa okkar margþættu vandamála, sem tilheyra að vissu leyti nútíma þjóðfélagsháttum eða velferðarþjóðfélaginu svokallaða, lífsgæðakapphlaupinu eða hvað menn vilja nefna það. Ef slíkar rannsóknir yrðu gerðar og síðan væri hægt á grundvelli þeirra að gera till. til úrbóta, þá er ég trúaður á, að þær till., sem væru byggðar á könnunum sérfróðra aðila í þessum efnum, gætu sparað þjóðfélaginu stórfé með því að gera einstaklingana betur sjálfbjarga og þjóðfélagið fengi einnig sín laun, aukin afköst með fleiri vinnandi hendur. En — og á það legg ég höfuðáherzlu, — ég trúi því, að þetta geti stuðlað að því að ná því markmiði að gera æ fleiri hamingjusama. Það er kjarni málsins.

Þær athugasemdir, sem ég að öðru leyti vil gera við þessa umr., eru fyrst og fremst varðandi það, sem frsm. kom raunar inn á, þ.e. erindi yfirlæknanna um skort á skilgreiningu á starfi þeirra og yfirhjúkrunarkvenna og forstöðumanna. Í gildandi lögum er skilgreining á starfi yfirlækna, og miðað við, að í frv. er skilgreining á störfum margra aðila, sem ekkert er nema gott um að segja, þá væri að mínu viti eðlilegt, að þarna væri einnig kveðið á um skilgreiningu varðandi störf yfirlækna og því óeðlilegt, að það falli hér niður nú. Yfirlæknir gegnir ákveðnu hlutverki stjórnarfarslegs eðlis, og þar að auki ber honum að vera læknisfræðilega í fararbroddi til þess að tryggja, að störf deildarinnar, hvort sem er sjúkradeild eða rannsóknastofa, séu ætíð í samræmi við það, sem bezt er völ á hverju sinni. Yfirlæknir þarf því að fylgjast með nýjungum á mörgum sviðum og sjá til þess, að undirmenn hans, sérfræðingar, aðstoðarlæknar og annað hjúkrunarlið, viðhaldi og bæti menntun sína í samræmi við það. Embættisskyldur landlæknis, héraðslækna og héraðshjúkrunarkvenna eru tilgreindar í lögunum, en svo er ekki um yfirlækna, eins og ég áður greindi. Er þó í grg. getið um þetta, á bls. 17, með leyfi hæstv. forseta, rétt síðast í 4. lið segir:

„Eins og í gildandi lögum verður yfirlæknir við hvert sjúkrahús og auk þess yfirlæknir deilda. Þeir eru stjórnunarlega í forsvari fyrir starfinu gagnvart sjúkrahússtjórnum, heilbrigðisyfirvöldum, læknum og öðru starfsfólki“.

Það er vikið að þessu í grg., en það er hvergi vikið að því í lögunum sjálfum. Það má einnig segja, að þar sem um er að ræða deildaskipt sjúkrahús, sé staða yfirlæknis að nokkru leyti óþörf. Það er kannske miklu meiri nauðsyn á því að hafa sjúkrahússtjóra, og það færi vel á því, að það væri sérmenntaður læknir í rekstri sjúkrahúsa, sem slíkt annaðist. Því er kannske ekki til að dreifa enn, en það væri gott, að stefnt væri að því, og er vikið að því einmitt í grg. með frv.

Þá vil ég og taka undir það, sem frsm. sagði hér varðandi sjúkraþjálfarana. Það á víst við um báða þessa aðila, að þeir munu hafa komið ábendingum sínum of seint á framfæri, þrátt fyrir það, hve málið er búið að vera lengi til meðferðar í hv. Nd. Má vera, að þeir hafi að einhverju treyst á sinn kollega, hv. þm. Odd Ólafsson, í Ed. og ekki gert sér grein fyrir því, að það var mikilsvert atriði að koma ábendingum, sem hugsanlega geta verið samkomulagsatriði, fram við umr. máls í fyrri d. Sjúkraþjálfararnir eru alls góðs maklegir, og ég er sannfærður um, að þeir hljóta fljótlega aukna viðurkenningu í okkar löggjöf. Það er starfsstétt, sem nýtur í vaxandi mæli meiri og meiri viðurkenningar.

Þrátt fyrir þessar ábendingar mínar hef ég ekki, eins og ég áður sagði, flutt neinar brtt. Eins og ég áður gat um, tel ég, að málinu sé teflt í tvísýnu, ef það þarf að fara aftur til Nd., og vil því fremur ná því fram eins og það er, þó að ég viðurkenni vissulega réttmæti margra þeirra till., sem hér hafa verið fluttar, en tel það meira virði, að málið nái fram að ganga, en að stefnt sé í þá tvísýnu, að það fari til Nd., sem síðan hugsanlega samþ. ekki aðeins till., sem þm. þar lýsa sig reiðubúna til að samþ., en gætu komið með aðra í leiðinni. Miðað við, hvað langan tíma það tók hv. Nd. að skila málinu frá sér, vantreysti ég d. til þess að við sendum málið til hennar aftur. Það markar afstöðu mína til þess, að ég flyt ekki neina brtt. og tel, að það hafi hent sig, að brtt. við lög hafi verið fluttar ári síðar eða svo en þau voru samþ., ef í ljós kemur, sem ég efa ekki, að þörf sé á að gera hér breytingar á, eins og raunar oft og mörgum sinnum áður varðandi okkar ágætu lagasmíð. Og svo tek ég undir það, sem frsm. sagði, að ég leit svo á, að því aðeins kæmi hv. n. saman aftur, ef það lægi fyrir, að málið færi til Nd. eftir þessa 2. umr. Ég vænti þess hins vegar, að hv. þm. taki ekki þá áhættu, vil ég segja, að láta málið ganga til Nd. á ný.

Varðandi brtt. á þskj. 697, sem ég get á vissan hátt skilið, vil ég taka fram eftirfarandi, til þess að það geti alls ekki valdið neinum misskilningi, ef till. er felld, að á Reykjanessvæðinu er það svo, að starfskraftar flytjast mjög á milli, þannig að taka má sem dæmi, að við heilsugæzlustöð í Kópavogi getur verið starfandi starfskraftur að örlitlum hluta, þó að hann sé búsettur og með sitt meginstarf utan Kópavogs. Ég veit, að það vakir ekki fyrir neinum, sem að þessu standa, að hindra, að þetta sé eðlilegt og að svo geti verið áfram. En ég vil bara láta þess getið, að þannig er þetta á Reykjanessvæðinu, að búseta og vinnustaðir fara alls ekki saman, og ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu, því að við Reyknesingar vorum mjög óánægðir með það ákvæði í grunnskólafrv., að það var tengt saman, að fræðslustjóri skyldi vera búsettur þar, sem fræðsluskrifstofan væri. En það er nokkur sérstaða hér fyrir Reykjavík og Reykjanessvæðið í þessu efni, og því aðeins vek ég athygli á þessu.

Með tilvísun til þess, herra forseti, sem ég hef hér sagt, mun ég ekki og hef ekki flutt neina brtt. og mun greiða atkv. gegn öllum þeim brtt., sem fyrir liggja, ekki vegna þess, að ég sé efnislega á móti þeim, heldur vegna þess, hvernig vinnubrögðum hefur verið háttað, og því miður vantreysti ég því, að við náum málinu áfram, eins og ég veit, að við allir viljum, ef við teflum í þá tvísýnu, að það fari til Nd. og síðan kannske þaðan aftur til Ed., miðað við það að ljúka þingi eins og ætlað er.