14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3555 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

221. mál, aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Nd., þar sem það var afgr. einróma og full samstaða var ríkjandi um málið. Það er ákaflega einfalt að gerð, efni þess er ekki annað en það, að ríkissjóður skuli árlega leggja fram 10 millj. kr. á árunum 1974-1983, sem ríkisstj. er síðan heimilt að endurlána kaupstöðum og kauptúnum til að kaupa lönd og lóðir innan takmarka hlutaðeigandi sveitarfélaga. Á undanförnum árum hefur þessi upphæð aðeins verið 3 millj. kr., svo að hér er um talsverða hækkun að ræða, en hvort tveggja er, að verðlag fer hækkandi og þarfir ýmissa kaupstaða og kauptúna fyrir lönd undir byggingar og skipulögð svæði fara vaxandi, þannig að það er skiljanlegt, að allir, sem um þetta mál hafa fjallað, séu á einu máli um, að hér sé um þarft mál að ræða, sem samþ. beri.

Félmn. hefur athugað frv. og orðið ásátt um að mæla með því, að það verði samþ. án breytinga.