14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

200. mál, róðrartími fiskibáta

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var samþ. samhljóða frá Nd. Breytingar þær, sem þetta frv. felur í sér frá núgildandi lögum eru í aðalatriðum þær, að í 1. gr. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi heimild til að ákveða með reglugerð brottfarartíma allra þeirra báta til fiskiróðra, sem sækja til fiskjar, — að setja reglugerð, eftir því sem þurfa þykir, og verður sú heimild almenn, en ekki eingöngu bundin við Faxaflóa, eins og nú er. Ósamræmis hefur gætt í reglugerðum um róðratíma, t.d. sumra verstöðva á Suðurnesjum, Grindavíkur og annarra verstöðva þar, og hafa orðið tíðir árekstrar og missætti milli bátasjómanna á þessum svæðum. Sökum þessa misræmis hafa bátarnir misjafna aðstöðu til að stunda þau fiskimið, sem hagnýtt eru til línuveiða sérstaklega, svo sem á svo á svokölluðu skerjasvæði eða Eldey og Eldeyjarboða. Þetta má kalla aðalbreytingu þessa frv., að gera heimildina almenna, en ekki hinda hana við takmarkað landssvæði. Skipstjórnarmenn á Suðurnesjum hafa mjög óskað eftir því, að þessu yrði breytt, og eftir þeirra óskum er farið með því að flytja þetta frv. N. hefur sem sagt orðið sammála um að mæla með þessu frv. óbreyttu.