07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

263. mál, afkoma hraðfrystihúsa

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti Mér þótti það alveg sýnt, þegar ég sá þær fyrirspurnir, sem hér lágu fyrir frá hv. fyrirspyrjanda, að það vakti annað fyrir honum en að fá svör við þessum einkennilegu spurningum beint. Hann segir nú, að þar sem ríkisstj, viti ekki nákvæmlega um það, hver muni verða rekstrarafkoma útgerðarfyrirtækja á komandi árum, þá sé sýnilegt, að hún geti ekki tekið neinar skynsamlegar ákvarðanir í efnahagsmálum. Hv. þm. veit það auðvitað ekki, þó að hann hafi stutt fyrrv. ríkisstj., að áætlanir af þeirri gerð, sem hann er að spyrja um, hafa aldrei verið gerðar, — aldrei. (LárJ: Það er ekki rétt.) Ekki rétt. Vill þá hv. þm, leggja fram þessar áætlanir? (LárJ: Já.) Vill hann sýna mér áætlanir um það, hvernig hefur verið hægt að reka hér skip og frystihús fram í tímann? Þetta er auðvitað ekkert annað en slúður. Hv. þm. er að reyna að bjarga sér á einhverju hundasundi í land út úr því öngþveiti, sem hann er kominn í. Slíkar áætlanir fram í tímann hafa ekki verið gerðar. Ég sé hér strax nafn Gylfa Þ. Gíslasonar. Já, hér er ekki um neinar áætlanir fram í tímann að ræða heldur, og þarf ekki langan tíma til að skoða það. Það er auðvitað furðuleg ósvífni hjá hv. þm. að rétta mér þetta plagg og telja, að hér sé um áætlanir fram í tímann að ræða. Hér er um að ræða samanburð í sambandi við árin 1965–1969. En Gylfi skrifar upp á plaggið 1970. (Gripið fram í: Það eru forsendur áætlana.) Forsendur áætlana? — Þetta plagg er alveg fullnotað og þarf ekki lengur að vera í mínum höndum. En það er alveg augljóst mál, að sérhver ríkisstj. leggur áherzlu á það að reyna að leggja þann grundvöll, að þýðingarmesta þætti framleiðslunnar, eins og útgerðin í landinu, geti haft rekstrargrundvöll. Það gerir núv. ríkisstj. einnig. Og hún miðar auðvitað sínar till. í efnahagsmálum nú við það, að eðlilegur grundvöllur sé fyrir útgerðina að starfa á komandi ári. En við mundum telja, eins og reyndar fyrrv. ríkisstj., að það væri nokkuð vel að verið, ef hægt væri að leggja þennan grundvöll sæmilega vel í áætlun fyrir næsta ár. En það verður svo að bíða þess tíma, að hv. þm. Lárus Jónsson fer að gera áætlanir, að menn viti um þetta nákvæmlega 3 ár fram í tímann.