14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð, vegna þess að ég hef skilað sérstöku áliti um þetta mál á þskj. 629. Mitt álit er efnislega punktað þarna niður í örfáum orðum, og aðalatriðið í því er, að ég sé enga knýjandi nauðsyn á því, að lögin um landshlutasamtökin verði samþ. endilega nú strax. Það er vitað mál, að þessi landshlutasamtök eru í gangi og starfa sem slík og sinna þeim verkefnum, sem þau hafa valið sér að starfa að, verkefnum, sem eru talin upp nánar í þessu frv. Það eru ýmsar athugasemdir og reyndar kannske margar athugasemdir, sem unnt væri að gera við þetta frv., en ég hendi þó aðeins á eitt atriði í 1. gr. frv., þar sem er fjallað um 111. gr. í sveitarstjórnarlögunum, þar sem er að mínum dómi um nauðungarákvæði að ræða, og hljóðar svo, með leyfi forseta: „Sérhvert sveitarfélag á aðild að samtökum sveitarfélaga í sínum landshluta“. Í þessari mgr. sýnist mér felast, að hvert einasta sveitarfélag sé skyldugt til að vera í þessum samtökum, og það finnst mér ákaflega ósanngjarnt.

Fleiri atriði mætti svo sem nefna í þessu frv., sem hægt er að finna að og votta að mínu viti, að ekki hafi verulega vel verið unnið að því að setja þetta saman. Það er heldur kastað til þess höndunum, og þótt ekki væri nema fyrir þau rök ein, að þarna er um nauðungarákvæði að ræða í 111. gr., hef ég lagt til, að frv. verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar.