07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

273. mál, reglugerð samkvæmt útvarpslögum

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Meðan ég veitti menntmrn. forstöðu, fól ég þáverandi formanni útvarpsráðs Benedikt Gröndal, þáverandi og núverandi útvarpsstjóra Andrési Björnssyni og dr. Þórði Eyjólfssyni fyrrv. hæstaréttardómara að semja frv. að nýjum útvarpslögum. Jafnframt fól ég þeim að semja nauðsynlegar reglugerðir, og var það nýmæli varðandi lagaundirbúning. Frv. þetta var samþ. á Alþ. vorið 1971 með tiltölulega mjög litlum breyt., enda mjög vandlega undirbúið. Í framhaldi af því þurfti auðvitað að gera smávægilegar breyt. á reglugerðunum, en höfundar Frv. höfðu samið vandaðar reglugerðir um útvarpsreksturinn almennt, um fréttir og auglýsingar. Ég taldi ekki rétt, að gefa þessar reglugerðir út skömmu fyrir kosningar, heldur væri, rétt, að fyrst yrði kosið nýtt útvarpsráð, svo sem gera átti að loknum kosningum samkvæmt nýju lögunum, en reglugerðirnar yrðu síðan gefnar út. Nú er hins vegar liðið hálft annað ár síðan nýju útvarpslögin komu til framkvæmda og meira en ár, síðan nýtt útvarpsráð var kosið, en reglugerðirnar hafa ekki verið gefnar út enn. Þessar reglugerðir mundu hins vegar auka mjög öryggi í starfsháttum Ríkisútvarpsins. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um, hvað valdi drættinum á útgáfu þeirra.