14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum nota þetta tækifæri til þess að lýsa andstöðu við þá skoðun eða beiðni, sem mér virðist hafa komið fram hjá hæstv. sjútvrh., að við frestum afgreiðslu þessa frv. á þessu þingi. Um frv. almennt má segja, að það inniheldur ákvæði, sem ganga mjög í friðunarátt á fiskimiðunum umhverfis landið frá gildandi reglum, og ég lít á það sem mjög verulegt framlag af okkar hálfu í landhelgisbaráttu okkar Íslendinga á erlendum vettvangi, ekki sízt í þeim samningum, sem reynt er að ná við Breta og Vestur-Þjóðverja nú á næstu mánuðum.

Til viðbótar þessu vil ég taka það fram, að ég er afar vantrúaður á, að frestur á frv. um 6 mánuði þýði það endilega, að meiri samstaða fáist um það hér á hv. Alþ. eða meðal þeirra landsmanna, sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við fiskveiði við landið. Ég þykist um þetta geta talað af nokkurri reynslu, því að ég átti sæti í fiskveiðilaganefnd, þeirri hinni fyrri, sem undirbjó mjög svipaðar till. um togveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslendinga fyrir nokkrum árum, ég fór með öðrum nm. á fundi um allt landið og ég sannfærðist af því þá, að svo mjög eru hagsmunir fiskimanna og annarra, sem starfa að fiskveiðum og fiskvinnslu mismunandi og ósættanlegir, að þetta er eitt af þeim málum, sem er útilokað að mínu viti að ná algeru samkomulagi um hjá þeim, sem mest eiga undir því.

Ég get ekki heldur fallizt á það, að hv. alþm. hafi ekki í allan vetur haft nægileg tækifæri til þess að fylgjast með þeirri tillögugerð, sem hér liggur fyrir í frv.-formi og er flutt af fiskveiðilaganefnd. Ég veit ekki betur en að fiskveiðilaganefnd hafi haft fundi með þm. allra kjördæma, hvers út af fyrir sig, til þess að kynna þær hugmyndir, sem uppi væru um þær reglur, sem mætti setja um þessi efni fyrir þau hafsvæði, sem liggja úti fyrir viðkomandi kjördæmum. Mér er ljóst, að það er mannlegt, að hv. þm., sem fá nú send í skeytum og bréfum á síðustu stundu mótmæli frá ýmsum aðilum í þeirra kjördæmum gegn þeim reglum, sem frv. hefur að geyma, — það er mannlegt að óska eftir því, að frv. verði frestað. En ég lít þannig á, og hef raunar áður sagt, að þeir séu að skapa sér stundarfrest með þessu. Þeir munu standa frammi fyrir sama vandamáli, þurfa að taka ákvarðanir í þessum efnum eftir 6 mánuði eða hvað nú það er, og kannske verður þá vandamálið ekki minna fyrir þá en það er í dag.

Ég fæ ekki séð af þeirri þekkingu, sem ég hef fengið í sambandi við þessi mál, að við getum leyst með samkomulagi nein af þeim vandamálum, sem upp hafa risið vegna ákvæða frv., án þess að skapa önnur í staðinn. Ef við gefum togveiðunum meiri og rýmri heimildir en þær eiga að hafa samkv. ákvæðum frv., þá fáum við andstöðu frá öðrum fiskimönum, sem nota annars konar veiðarfæri og hafa aðra hagsmuni, þannig að ég fæ ekki á nokkurn hátt séð, að frestur í þessu máli leysi neina hnúta. Ég er afar vantrúaður á, að það sé svo, og ég lít á það sem skyldu Alþingis Íslendinga að greiða atkv. um þau ágreiningsatriði, sem eru uppi um þetta mál, og sjá, hvaða meiri hl. er hér fyrir frv. nú á þessu þingi.