14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3576 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það hefur verið rætt hér að undanförnu um það, að hér kæmu til afgreiðslu mörg stór mál, sem þyrftu að ná fram að ganga á örskömmum tíma, þar sem ákveðið hefur verið, að þinglausnir fari fram fyrir páskahelgi. Það hefur verið gagnrýnt og með réttu, að þetta eru ekki sæmileg vinnubrögð hjá Alþ. Eitt af þeim málum, sem manni hefur fram til þessa skilist að stæði til að afgreiða, er þetta stórmál, sem að mínum dómi er stærst af öllum þeim málum, sem hér hafa komið til umr.

Það er alls ekki rétt, sem hv. 2. þm. Reykn. segir, að þm. hafi átt kost á því í allan vetur að kynna sér, hvað fram færi í þessu máli. Það er frá mér að segja, að ég sat einn fund með fiskveiðilaganefnd, þar sem einvörðungu var rætt um þær till., sem hún hugðist leggja fram varðandi landhelgina úti fyrir því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, og alls ekkert annað, en till. þar um voru ekki einu sinni mótaðar til fullnustu.

Það er fyrst þegar málið er lagt hér fram, að ég fæ nokkra heildarsýn yfir það. Og svo er til þess ætlazt, að á örfáum dögum í þessum miklu önnum, móti menn afstöðu sína til þessa máls, langstærsta málsins. Sá málflutningur að halda því fram, að með því að leggja til frestun og að málið verði íhugað og reynt verði að ná um það samstöðu, þá séu menn að sýna einhverja linku í sókninni fyrir 50 mílunum, það er tvímælalaust að slá fyrir neðan beltisstað, nauðaómerkilegur málflutningur, að ekki sé meira sagt. Ég þykist eiga á því kröfu að fá tíma til þess að rannsaka málið allt, til þess að mér gefist kostur á því að móta afstöðu mína til þess, ella bannar samvizkan mér algerlega að taka þátt í afgreiðslu þess. (Gripið fram í). Fyrir íslenzkan málstað. Þetta var líka fyrir neðan beltisstað. Það er því rétt, að 8. landsk. haldi sig við það. En það liggur alveg ljóst fyrir, að mjög mikill meiri hl. alþm. — það hef ég kynnt mér, — er því fylgjandi, að þessi sjálfsagði háttur verði hafður á um afgreiðslu málsins. Sá málflutningur, sem hafður hefur verið í frammi a.m.k. af hv. 8. landsk., er einvörðungu í því skyni að reyna að koma höggi á pólitískan andstæðing.