14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal verða við þeirri beiðni að vera ekki langorður að þessu sinni.

Mér sýnist, að þetta mikilsverða og stóra mál ætli nú á síðustu stundu að taka nokkuð aðra stefnu en a.m.k. ráð var fyrir gert í byrjun. Ég held, að það hafi aldrei verið neitt vafamál innan þeirrar n., sem um þetta mál fjallaði og hafði með það að gera, að það var hennar ætlun, að þetta mál næði fram á þessu þingi, og ég hygg, að það hafi líka verið ætlun hæstv. sjútvrh., að svo yrði. En nú hafa sem sagt komið á síðustu stundu óskir nokkurra þm., — ég veit ekki hversu margra — um, að málinu yrði frestað. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga, að slíkt komi fram. Ég gekk þess aldrei dulinn, að slíkt mál sem þetta yrði aldrei í hendur Alþ. búið, án þess að þingið sjálft yrði á einhverju stigi eða í einhverjum tilvikum að höggva á þá hnúta, sem ekki næðist samkomulag um. Það hefði þurft að gera í sambandi við þetta frv., eins og það liggur fyrir, og það mun vafalaust þurfa að gera, þrátt fyrir það, að þessu máli verði frestað fram á haust og jafnvel þó að nýtt frv. verði samið. Ég held, að það liggi í augum uppi, svo geysiþýðingarmikið og stórt mál sem hér er um að ræða, að þar verði ýmsir hnútar, sem alþm. verði sjálfir að höggva á með atkvgr. í þinginu, — það verður ekki samkomulag í öllum tilvikum.

Hvað er það svo, hvaða óskir eru það frá þessum hv. þm., sem um er að ræða? Ég hef ekki heyrt í þingræðum þeirra hv. þm., sem ég hef hlustað á, harða gagnrýni á meginstefnu málsins, ég hef ekki heyrt till. bornar fram af hv. þm. um þau atriði, sem þeir vildu breyta, í meginatriðum. Mér er tjáð, og mér skilst, að flestar hafi þessar óskir verið hjá þm. Norðurl. e. eða þm. Norðurlands, og ég hefði gjarnan viljað fá að heyra, hvaða óskir það eru, sem þessir hv. þm. vildu koma á framfæri eða teldu rétt að teknar væru til greina við afgreiðslu málsins. Ég er nefnilega ekki trúaður á, þó að málinu verði frestað til hausts, að það náist meiri samstaða um það þá en hefur þó náðst núna. Og ég vísa því algerlega á bug, sem hér hefur verið haldið fram af nokkrum ræðumanna, að þm. almennt hafi ekki fengið tækifæri til þess að fylgjast með þróun þessa máls, eins og það hefur gengið fyrir sig. Ég vísa því jafnframt á bug, að hagsmunasamtök, bæði hópar og einstaklingar, hafi ekki fengið allt frá byrjun málsins vitneskju um það, sem var að gerast.

Eitt af fyrstu verkum n., sem um þetta mál fjallaði og hefur haft það með höndum, var að senda út beiðni til hinna ýmsu hagsmunahópa, félagasamtaka og einstaklinga um óskir þeirra og till., að því er þetta mál varðaði, þannig að allir þessir aðilar hafa haft nægan tíma til þess, hefðu þeir haft sérstakan áhuga á að koma óskum sínum og till. á framfæri.

Ég skal segja það hreint út, að því er mig varðar, að ég hefði talið mjög æskilegt, að þetta mál hefði fengið afgreiðslu nú á þessu þingi. Ég skal ekki gera það að neinu þrætuepli, ég er ekkert viss um, að það breyti svo æðimiklu, þó að málinu verði frestað þennan tiltekna tíma, sem um er talað, en ég hefði þó talið miklum mun æskilegra að málið hefði náð fram að ganga nú. Það eru í frv. ýmis þau ákvæði, merkileg að mínu mati, sem ég hefði talið mjög æskilegt að hefðu fengið lögfestingu, þannig að ég hefði miklu fremur kosið, að málið hefði náð í gegn á þessu þingi.

Frá því að þetta frv. var lagt fram hér s.l. mánudag, er mér ekki kunnugt um, a.m.k. hefur ekki til mín borizt nema ein athugasemd, skrifleg athugasemd. Hún er að vísu frá stórum aðila, sem er Fiskifélag Íslands. En hún er þó ekki merkilegri en það, að það er óundirritað plagg, gersamlega óundirritað, og það gæti því verið frá hverjum sem er. Það er engin trygging fyrir því, að þessi athugasemd, sem þarna er verið að

gera, — sem ég held, að sé í allflestum tilvikum heldur lítilvæg, — sé frá réttum aðila, þ.e.a.s. Fiskifélaginu. Þeir hafa ekki haft svo mikið við, að þeir hafi einu sinni skrifað undir þessar athugasemdir sjálfir.

Ég sem sagt, eins og ég sagði áðan, hef ekki þá trú, þrátt fyrir það að málinu yrði nú slegið á frest, frv. athugað eða jafnvel kæmi nýtt frv. á haustdægrum, að það muni ekki standa eins mikill styr um það mál, þegar það kæmi fram, eins og líkur eru til að yrði nú og mun kannske alltaf standa um svo veigamikið mál í hvaða formi sem það væri. Það hygg ég, að a.m.k. þeim nm., sem voru á fundum víðs vegar um landið, sé ljóst, að um þetta mál er svo geysilega mikill ágreiningur, bæði mikill ágreiningur innan héraðanna sjálfra og um allt landið, að það er tómt mál að tala um, að þingnefnd geti samið frv., sem allir verða sammála um. Þar verða í miklum og veigamiklum atriðum, kannske mörgum, alltaf hnútar, sem þm. verða að gera sér að góðu að höggva á með afgreiðslu hér á þinginu.