14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gaf í skyn, að einhverjir þm. kvörtuðu yfir því, að annir væru miklar, og sagði, að það væri sízt ástæða til, vegna þess að þm. væru á fullu kaupi. Mér finnst þetta ekki sérlega smekklegar athugasemdir, því að ég veit ekki til þess, að nokkur einasti þm. hafi kvartað yfir annríki eða skorazt undan því að vinna hér frá því snemma að morgni, þó að næturfundir væru, því fer fjarri. Í því sambandi vil ég hins vegar taka fram, að það er einn hópur manna, sem mér finnst vera lagt á fullmikið vinnuálag þessa dagana, og það er starfsfólk þingsins, því að sú sama ríkisstj., sem hefur stært sig af því að hafa lögleitt 40 stunda vinnuviku, leggur a.m.k. tvöfaldan þann vinnutíma á starfsfólk þingsins undanfarna daga og áframhaldandi til þingloka. Þm. munu ekki kvarta og hafa ekki kvartað undan því að vinna, en það er annað, það eru vinnubrögðin, sem menn hafa borið fram kvartanir yfir og þeir hafa mótmælt og ég vil mótmæla. Ég veit. að þess eru nokkur dæmi, kannske mörg, að í þingnefndum hefur málum verið hraðað svo, að það hefur meira að segja verið neitað um frest, til þess að unnt væri að bera málin undir þingflokksfund. Eins og kunnugt er, þá eru hér fastir, reglulegir þingflokksfundir, og það hefur meira að segja verið synjað í n. um frest, til þess að hægt væri að ræða málin í þingflokkunum, áður en þau væru afgreidd úr n. Ég veit þess dæmi líka, að þótt umsagna hafi verið óskað frá opinberum stofnunum og stjórnir þeirra haft umsagnir tilbúnar og þær væru vitanlega á leiðinni til þn., þá hefur legið svo mikið á, að það hefur verið synjað um að bíða, jafnvel kannske stundarfjórðung eða hálfa stund, heldur heimtað að málið yrði afgreitt strax úr n., áður en þessar umsagnir komu.

Þess eru óteljandi dæmi, að hroðvirknin hefur verið slík í meðferð mála á þingi, að ég veit þess engin dæmi fyrr, og það er gersamlega út í hött, þegar hæstv. forsrh. segir, að þessir starfshættir hafi alltaf viðgengizt, þetta sé eins og alltaf hafi verið. Að vísu hafi hann og hans samherjar verið að finna að því undanfarin 12 ár á viðreisnartímanum, en það sé ekkert mark takandi á því, sem þeir hafi þá verið að segja. Nei, sannleikurinn er sá, að þau vinnubrögð, sem nú hafa verið höfð, eru engu lík og eiga sér engin fordæmi. Á nokkrum dögum, — það er 14. apríl í dag, — á þeim dögum, sem liðnir eru af þessum mánuði, hefur ríkisstj. lagt fyrir þingið hvorki meira né minna en 20 ný stjfrv. Nú segir hæstv. ráðh.: Það er alls ekki ætlazt til, að afgr. verði nema lítið eitt af þessum málum. Það er meira að segja ekki ætlazt til þess, að þm. lesi stjfrv., segir hann. Það hefði þá kannske mátt fylgja bréf með frv., um leið og þeim var útbýtt, að þau ætti alls ekki að lesa fyrr en í páskafríinu. Ég veit ekki betur en að allir þm. telji það skyldu sína að lesa þau þskj., sem útbýtt er og fyrir þá eru lögð. Og ég held, að það hafi verið þannig undanfarna daga og jafnvel vikur, að þm. hafi veitzt ærið erfitt að finna nægan tíma til þess að komast í gegnum allan þennan aragrúa þskj. og stóru mála, sem fyrir hafa legið. Það er ekki af því, að þm. skorist undan því að vinna, fjarri því, það eru vinnubrögðin, hroðvirknin, sem átalin eru.

Hæstv. forsrh. taldi, að það hefði verið ósköp lítið að gera framan af þingi, og það er alveg rétt, það var allt of lítið að gera, vegna þess að af hálfu ríkisstj. kenndi þar mikils slappleika. Sannleikurinn er sá, þegar litið er yfir þingtímann nú, að meginhluti þingsins einkennist af slappleika ríkisstj., en síðustu dagarnir af hroðvirkni hennar.

Varðandi það mál, er hér liggur fyrir, hefði ég talið og vil taka undir það með ýmsum þm., að langsamlega æskilegast hefði verið að afgreiða það á þessu þingi, og til þess er vissulega möguleiki, ef stjórnin væri ekki haldin. eins og ég sagði áðan, þeirri þráhyggju að heimta, að þinginu verði slitið eftir nokkra daga. Ég held, að með því að setjast niður og vinna og hafa sæmilegan tíma til þess að kynna sér þetta mál og ræða það, sé hægt að leysa ágreiningsmálin. Þetta mikilvæga mál er hægt að leysa, og þetta frv. er hægt að afgreiða, ef Alþingi fengi vinnufrið fyrir ríkisstj.