14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (3195)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls hér, en ræða hv: 4. þm. Norðurl. e. gaf mér, að ég taldi, tilefni til þess.

Fyrst ég er kominn í ræðustól, þykir mér rétt að skýra afstöðu mína til þess, hvort fresta beri afgreiðslu þessa máls eða ekki. Sem einn af flm. frv. lagði ég það auðvitað fram í þeirri trú og þeirri skoðun, að svo mikil samstaða væri um málið, að það yrði afgreitt nú fyrir þinglok. Hitt er rétt, sem ég hef bent á, að það kann vel að vera, að einstakir þm. telji sig hafa ástæðu til að fara fram á frestun málsins til frekari athugunar. Frv. er miðað við það, að Íslendingar einir hafi umráðarétt yfir veiðisvæðunum innan 50 mílna markanna og að okkar togarar verði þá ekki í neinni samkeppni við erlenda aðila. Þessi forsenda er því miður ekki fyrir hendi eins og er, og má segja, að það breyti nokkuð hjá einstaka aðilum um það, hvort frv. eigi að fara áfram nú eða ekki. Annað er það, sem bent hefur verið á, að frv. sé seint fram komið. Þetta eru nokkur rök einnig. Og af þessum ástæðum hef ég orðið við óskum flokksmanna minna, — ég starfaði í n. sem fulltrúi Sjálfstfl., — um að beita mér ekki fyrir því að reyna að knýja fram afgreiðslu á málinu, ef mikill hluti þm. teldi sig þurfa að hafa einhvern tíma til að kanna það.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. gagnrýndi hér störf n. og sagði, að við hefðum ætlað að skila áliti fyrir áramót, síðan hefði þetta verið bundið við þessi og þessi mánaðamót. Það er alveg rétt, að þegar við byrjuðum störf í haust, var að því stefnt að skila áliti fyrir áramót. En við sáum mjög fljótlega, að málið er svo viðamikið, að því mundi aldrei verða við komið, og þess vegna tókum við aðeins þau ákvæði út, sem við vildum, að þá þegar yrðu lögfest, og það var gert með þeim breyt., sem samþ. voru hér um áramótin. Þetta hefur dregizt lengur en við hefðum viljað af nákvæmlega sömu ástæðum, að málið er það stórt og við höfum lagt það mikla vinnu í það, reynt að vanda okkur mikið við undirbúninginn, að við héldum og trúðum því, að Alþ. mundi verða nokkurn veginn sammála um málið. Málið var . kynnt fyrir öllum þm., ekki hvernig aðstaða yrði í þeirra kjördæmi eða úti fyrir ströndum þeirra kjördæma, heldur var málið kynnt í heild, eftir því sem við höfðum komið okkur saman um. Svo ber það við, þegar málið kemur hér til 1. umr. og sérstaklega í gær við 2. umr., að einstakir þm, fara að verða hikandi, vegna þess að þeir hafa fengið tilmæli heiman úr héruðum um breytingar á frv. eða að menn í þeirra héruðum hefðu aðrar hugmyndir um ýmis ákvæði frv., og þess vegna biðja þeir um frest til að ræða þessi mál við umbjóðendur sína heima í héraði. En ég segi alveg hiklaust, að ég vorkenni þeim mönnum, sem vilja nú taka það á sig, eftir að n. er búin að ferðast um allt landið, kanna málin til hlítar í hverju einasta kjördæmi, veit nákvæmlega um það, að ekki í hverju kjördæmi. heldur hverju einasta sjávarþorpi um land allt eru mjög misjafnar skoðanir um það, hvernig þessum málum yrði bezt fyrir komið. Það eru hagsmunir hinna ýmsu aðila, sem gera út á mismunandi hátt, sem þar segja til sín. Við höfum reynt í fiskveiðilaganefnd að fara, að svo miklu leyti sem við höfum talið okkur mögulegt, eftir hinum ýmsu ábendingum, sem við höfum fengið fram á þeim fundum, sem við höfum haldið. Við kynntum ekki okkar hugmyndir, við vorum að sækjast eftir ábendingum og hugmyndum annarra um málið og fengum þær í mjög ríkum mæli. Úr þessu höfum við verið að vinna, og það er þetta, sem hefur tafið okkar störf, að við höfum verið að reyna eins og við mögulega gátum að samrýma, eftir því sem hægt var, í einu frv. allar þær ábendingar, sem fram komu.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagðist vera óttasleginn, ef málið yrði afgreitt nú. Ég vil þá spyrja hann og aðra þm., sem biðja um frest og fara þar eftir ábendingum, sem þeir hafa fengið: Hverjar eru raunverulega þeirra till. eða hugmyndir um breyt. á frv., eins og það liggur fyrir. Þetta þarf auðvitað að koma fram. Það þýðir ekkert að segjast vera óttasleginn um málið, ef engar hugmyndir eru um, hvernig menn vilji breyta því. Og ef þeir fara að spyrja sína umbjóðendur, t.d. í Norðurl. e., þá get ég sagt þeim það fyrir fram eftir þeirri reynslu, sem ég hef af málinu, — ég hef verið þar á almennum fundum meðal sjómanna og útgerðarmanna bæði veturinn 1969, þegar núgildandi lagafrv. var lögfest, og einnig nú á þessu hausti, — að það eru miklu fleiri, sem eru mjög andvígir því, að togurunum verði hleypt inn fyrir 12 mílurnar, heldur en þeir, sem mæla með því á þessu landssvæði. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Og ef þm. Norðurl. e. ætla að fara eftir tilmælum þeirra aðila, sem sendu hingað skeyti til þeirra í gær um að færa mörkin innar fyrir togarana, og fara að ræða málin á þeim grundvelli í sínum kjördæmum, þá er ég sannfærður um, að þeir koma til baka með þá ósk að færa út í 12 mílur, en ekki 9 mílur, ef þeir ætla að taka nokkuð mark á því, sem þeim verður sagt um málið. En ég veit, að þeir komast í þá aðstöðu, að þeir verða að meta hlutina, eins og við höfum gert, og gera það, sem þeir sjálfir telja skynsamlegast. Þeir fá ekki nokkurn stuðning í því að ætla að fara eftir hinum margbreytilegu sjónarmiðum hinna ýmsu hagsmunahópa í þessum landshluta, frekar en hægt er að fara eftir því annars staðar.

Ég skal láta þetta nægja um þetta mál. En ég vil aðeins víkja örfáum orðum að því, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan í sinni ræðu. Hann var mjög að láta að því liggja, að störf þm. í vetur hefðu verið slök, n. hefðu starfað illa, við hefðum unnið aðeins 5 daga vikunnar allt fram undir síðustu daga, að segja má, að fundir hafi verið a11a virka daga vikunnar og að stjfrv. — meira að segja stjfrv. — hefðu legið óafgreidd í n., frá því að Alþ. tók til starfa í haust. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Gerir hann sér ekki grein fyrir því, að í hverri einustu þn. eru stjórnarliðar auðvitað formenn. Þeir bera ábyrgð á því, hvernig málin eru afgreidd í n., þeir bera ábyrgð á þeim hraða, sem mál fá við afgreiðslu í n., og forsetar Alþ., aðalforsetar Alþ., eru auðvitað stjórnarstuðningsmenn. Ef eitthvað er athugavert við störf sjálfs Alþ., þá eru þar auðvitað fyrst og fremst að verki stuðningsmenn ríkisstj. Hæstv. forsetar bera ábyrgð á gangi við afgreiðslu mála hér á hinu háa Alþ,, og stjórnarstuðningsmenn bera ábyrgð á hraða á gangi mála í hinum ýmsu nefndum. Ég tel það mjög gott, að hæstv. forsrh. skuli gera sér grein fyrir því, að þetta er aðeins einn anginn af því stjórnleysi, sem öll þjóðin veit, að við búum við í dag.