07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

273. mál, reglugerð samkvæmt útvarpslögum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef hér ekki gögn í höndum til þess að svara viðbótarfyrirspurn hv. 5. þm. Reykn. eins og vert væri. Það er laukrétt, sem útvarpsstjóri hefur tjáð honum, sem öðrum fjvn.- mönnum, að miðað við núverandi tekjugrundvöll eru mjög dökkar horfur um afkomumöguleika Ríkisútvarpsins á árinu 1973. En þeir velta auðvitað endanlega á þeim tekjustofnum, sem því verða ákveðnir á því ári, sem sagt afnotagjöldum sjónvarps og útvarps. því er ekki heldur að leyna, að afkoma Ríkisútvarpsins skerðist heldur við útgáfu þessarar reglugerðar, vegna þess að þar eru sett ákvæði um framkvæmd á ákvæðum útvarpsl., sem Alþ. hafði sett um nokkra eftirgjöf á afnotagjöldum. Fyrst og fremst munar þar annars vegar um fyrirheit, sem gefin voru, ekki í útvarpsl., heldur af þáv. ríkisstj., um lækkun og niðurfellingu afnotagjalda af tækjum í einkabílum, en annars vegar, að í útvarpsl. er kveðið á um, að þeir, sem hljóta uppbót á elli eða örorkulífeyri, skuli undanþegnir afnotagjöldum. Þetta rýrir enn tekjumöguleika Ríkisútvarpsins, og til þess verður auðvitað að taka tillit, þegar tekjustofnar þess verða ákveðnir á næsta ári.