16.04.1973
Efri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3593 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

236. mál, launaskattur

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur athugað frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu. Við ákvörðun fiskverðs um s.l. áramót gaf ríkisstj. fyrirheit um, að hún mundi beita sér fyrir því, að launaskattur af launagreiðslum til lögskráðra áhafna á fiskiskipum yrði felldur niður, og þetta frv er flutt til efnda á þeim fyrirheitum.

Við meðferð málsins í Nd. hefur verið samþ. brtt. við 1. gr. frv., en við nánari athugun mun hafa komið í ljós, m.a. eftir bendingu ríkisskattstjóra, að þar mundi ekki vera nógu skýrt kveðið á um, við hvað ætti, þegar verið er að tala um að fella niður launaskattinn af tekjum lögskráðra áhafna á fiskiskip. Og til þess að verða við þeirri ósk og til efnda á þeim fyrirheitum, sem gefin voru um áramótin, var þetta frv. flutt og ennfremur þessi brtt., sem n. er sammála um að flytja. Það, sem verið er að leggja til, er einfaldlega það, að sjómenn og landmenn á bátum taki laun eftir sömu kjarasamningum, þegar svo stendur á, að bátur rær með línu hluta af vertíðinni, en fer síðar á net. Þá eru launmennirnir ekki lögskráðir á bátinn, meðan á línuvertíð stendur, en fara væntanlega á sjóinn síðar og eru þá lögskráðir á hann. Til þess að launaskattur verði felldur niður af öllum tekjum áhafna fiskiskipa, eins og heitið var, er talið þurfa að skjóta inn ákvæðum til að taka af öll tvímæli um, að lög þessi gildi einnig um tekjur hlutarráðinna landmanna, enda þótt þeir séu ekki lögskráðir á skipin.

Fjh.- og viðskn. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með þessari breytingu.