16.04.1973
Efri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3594 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

134. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. gat um, samþ. n. einróma að mæla með samþykkt þessa frv., en einstakir nm. áskildu sér rétt til þess að bera fram brtt. eða fylgja brtt. Þó að þessi fyrirvari væri settur og ég hafi verið hvatamaður þess, hefur mér ekki gefizt tími til þess að bera fram brtt. við þetta frv. Það er vegna þess, að þetta frv. var tekið fyrir á skyndifundi s.l. laugardag, og var að sjálfsögðu ekki hægt að athuga málið gaumgæfilega þar. Ég vil taka fram, að málið var tæpa 4 mánuði í hv. Nd. og voru gerðar, eins og hv. frsm. vék að, þó nokkrar breytingar í þeirri d. á frv. En þrátt fyrir það og þrátt fyrir þann tíma, sem Nd. hafði málið til meðferðar, lýstu 3 nm. í félmn. Nd. yfir í nál., að þeir teldu meðferð málsins þess eðlis, að ástæðulaust væri að afgreiða frv. á þessu þingi, þar eð það ætti ekki að taka gildi fyrr en í byrjun næsta árs, enda þurfi ýmis ákvæði frv. nánari athugunar við. Ég er sammála þessum hv. þm. um, að það hefði verið rétt málsmeðferð að fresta þessu máli til hausts. Það var ekki nokkurt viðlit að koma við eðlilegri athugun á þessu frv.. eins og ég hef áður sagt, eftir að það kom til þessarar hv. d. Þrátt fyrir þessa annmarka hef ég mælt með samþykkt frv. Ég vildi, að þetta sjónarmið kæmi fram í þessari hv. d., og óneitanlega væri það æskilegt, ef hæstv. félmrh. tæki nú þessar ábendingar til athugunar og stæði að því, að málinu yrði frestað til haustsins.